06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

30. mál, einkasala á tóbaki

Bernharð Stefánsson:

Mér finnst nú ákaflega eðlilegt, að dm. spyrji um það, hvaða ástæða þyki til þess að bera þetta frv. fram. Svör hafa ekki fengizt skýr við þessu, og er það að vísu leitt, en við vitum það nú allir, að þm. hafa utan þingfunda verið gefnar nokkrar upplýsingar um þetta, að ég hygg öllum — eða í öllum þingflokkum. Það er ákaflega eðlilegt, að raddir hafi komið fram um það, að eðlilegast hefði verið, að stj. hefði gefið skýr og gild svör um það, hvers vegna hún telji sig þurfa þessar auknu tekjur í ríkissjóð. Hitt er aftur óeðlilegt, sem rætt hefur verið hér í seinni tíð, hvort stj. muni nota þetta fé án þess að spyrja Alþ. leyfis eða leita heimildar þess um það, og ég verð að segja það, að mér fannst furðulegt að heyra fyrrverandi forseta Sþ. vera einn af þeim, sem endilega vildu fá að vita um það, hvort stj. ætlaði að nota þetta án sérstakrar heimildar Alþingis. Ég veit ekki betur en Alþ. hafi ráðstöfunarrétt á öllu því fé, sem ríkissjóði áskotnast. Þó að ég hafi ekki stjskr. fyrir framan mig, hygg ég, að í henni standi, að ekki megi greiða neitt fé úr ríkissjóði, nema heimild sé veitt í fjárl., fjáraukal. eða öðrum l. Hv. 1. þm. Reykv. (MJ) minntist að vísu á það í ræðu sinni, að stj. hefði nú þegar allvíðtækar heimildir í l. til þess að ráðstafa fé vegna dýrtíðarinnar. Ég veit, að í dýrtíðarl. er heimild til að greiða niður verð á landbúnaðarvörum til að lækka dýrtíðina. Þá heimild hefur þingið þegar gefið, og hafi það ekki breytt skoðun, sé ég ekki, að neina nýja heimild þurfi. Hitt er svo annað mál, að Alþ. getur, hvenær sem er, breytt þessu ákvæði dýrtíðarl. og eins ákveðið í fjárl., hvað miklu fé skuli varið til dýrtíðarráðstafana. Mér finnst því ekki þurfa að ræða það svo mjög nú, til hvers eigi að nota fé það, sem inn kemur samkv. þessu frv., enda er það, eins og hv. 1. þm. Reykv. (MJ) tók fram í fyrri ræðu sinni, hreint fjáröflunarfrv. og ekkert ákveðið í því, hvernig því fé skuli varið, sem inn kemur. Ég fyrir mitt leyti óttast því ekki þetta atriði og mun áreiðanlega af þessari ástæðu greiða frv. atkv., þó að ég væri einna fyrstur til þess að láta það í ljós hér, að ég kynni hálfilla við það, að stj. nú á 1. stundu vildi ekki gefa neinar upplýsingar um það, hvaða ástæða liggur til þess, að hún óskar þessa óvenjulega tekjuauka í ríkissjóðinn, og það því fremur, sem ég hef fullan grun um, að meiningin sé fyrir ríkisstj. að fá enn meiri tekjuauka í ríkissjóðinn, á þann hátt þó, sem samþykki þingsins þarf ekki beinlínis að koma til. Ríkið hefur fleiri einkasölur með höndum en tóbakseinkasöluna, og það væri næstum óeðlilegt að hækka svo álagningu á tóbaki sem þetta frv. gefur heimild til, ef ekki væri jafnframt hækkuð álagning á áfengi. Ég hef ekkert við það að athuga, þótt álagning á áfengi yrði hækkuð frá því, sem verið hefur. Ég vil nú ekki fara langt út í þetta, vegna þess að mér finnst einhver leynd eigi að vera á því, sem vissulega stendur fyrir dyrum að gera, og það er ekki meira en svo, að ég búist við svörum, en ég ætla þó að leyfa mér að bera upp fyrirspurn til hæstv. fjmrh., sem hér er staddur, í sambandi við þetta. Ef það er svo, sem ég teldi ákaflega eðlilegt og sjálfsagt, ef álagning á tóbak, sem almenningur í landinu telur nauðsynjavöru, verður stórhækkuð, að þá verði einnig hækkuð álagning á áfengi, þá langar mig til að spyrja, — ef stj. sæi sér fært að gefa nokkrar upplýsingar um það, — hvort hún hugsar sér að hafa sama fyrirkomulag á þeirri verzlun og nú hefur verið um sinn. Það er að nokkru leyti verzlun og þó ekki verzlun. Það er lokað, en þó opið. Það er sem sagt í því öngþveiti og það fyrirkomulag á þeirri verzlun, sem ég hugsa; að engin þjóð í heiminum hafi. Sennilega fást engin svör við þessu, en ákaflega er það einkennilegt, ef hæstv. ríkisstj. býst við stórkostlegum tekjuauka af að selja vöru, sem í öðru veifinu er talið, að ekki sé til sölu.

Ef hæstv. fjmrh. vill ekki fara út í þetta mál hér, — og það get ég vel skilið, enda heyrir þetta mál ekki undir hann nema að nokkru leyti, — vildi ég, að hann flytti það í hæstv. stj., að það eru ýmsir þm., sem gjarnan vildu, að eitthvað yrði gert í þessu máli, svo að það yrði ekki í því öngþveiti, sem það nú er. Ég vil að lokum segja það sem mína skoðun, að ef fyrirkomulag áfengisverzlunarinnar á að vera eins og verið hefur, hljóta menn að hugsa með andúð til þeirra milljóna, sem koma í ríkissj. fyrir áfengissölu. Ef Alþ. og þjóðin líta svo á, að áfengi sé svo skaðlegt, að það eigi að selja það aðeins í pukri og eins og verið sé að fremja glæp, þá á að horfast í augu við það. Ef það á að afla milljóna í ríkissj. með áfengissölu, þá á að fara öðruvísi að en nú er gert.