06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

30. mál, einkasala á tóbaki

Lárus Jóhannesson:

Áður en ég tek afstöðu til atkvgr. um þetta frv., langar mig — eins og fleiri — að gera fyrirspurn til hæstv. fjmrh., en af því að svo margar fyrirspurnir hafa verið bornar fram, langar mig að hafa fyrirspurn mína svo ljósa sem unnt er.

Hinn 13. apríl s. l. voru samþ. hér í þinginu l. um dýrtíðarráðstafanir, og til þess að kaupa niður dýrtíðina var stj. fenginn ákveðinn tekjustofn, en í 3. lið 4. gr. segir svo, með leyfi forseta: „Nú verður nefndin sammála um vísitölu framleiðslukostnaðar landbúnaðarafurða og hlutfall milli verðlags á landbúnaðarafurðum og kaupgjalds stéttarfélaga, og skal þá verð á landbúnaðarvörum ákveðið í samræmi þar við, meðan núverandi ófriðarástand helzt. Þó er ríkisstjórninni heimilt að ákveða lægra verð á einstökum vörutegundum gegn framlagi úr ríkissjóði.“

Ég álít nú, að stj. hafi ekki heimild til þess að nota aðra tekjustofna ríkissjóðs til þess að greiða þetta niður heldur en þá, sem getið er í l. um dýrtíðarráðstafanir. Þess vegna spyr ég hæstv. fjmrh.: Álítur hann, að stj. hafi heimild til þess að nota þær tekjur, sem af frv. þessu kynnu að fást, ef það verður að lögum, til þess að borga niður dýrtíðina án þess að gera það í samráði við Alþ., og hafi stj. þá skoðun, er spurningin: Vill hæstv. ráðh. lýsa yfir því, að hann muni ekki nota þessa heimild án þess að gera það í samráði við Alþingi.

Ég veit, að þetta er svo ljóst, að það er hægt að fá skýr svör, en eftir svörunum fer mitt atkvæði.