23.09.1943
Sameinað þing: 14. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (2620)

47. mál, greiðsla á skuldum ríkissjóðs

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég hef borið fram á þskj. 59 till. til þál. um greiðslu á skuldum ríkissjóðs í því skyni, að hv. Alþ. geti tekið ákvörðun um það mál á einhvern hátt og athugað, hvort ekki sé ástæða til að heimila hæstv. ríkisstj. að taka skuldamálin til sérstakrar athugunar.

Þar sem sú ríkisstj., sem nú situr, er ekki þinbræðisstjórn, þ. e. a. s. ekki skipuð úr þeim flokkum, sem hafa meirihlutaaðstöðu á þingi, er ekki eðlilegt, að hún taki upp á sig að tilefnislausu mál sem það, er hér kemur fyrir. Það ber því að athuga, hvort ekki sé rétt að gefa ríkisstj. ástæðu til að athuga, hvort ekki geti orðið samvinna um það milli þings og stjórnar.

Það liggur ljóst fyrir, að ríkið skuldar nú um 50 millj. kr. og meiri hl. af því erlendis. Allt voru þetta nauðsynleg lán, að miklu leyti tekin til að efla atvinnuvegi þjóðarinnar. Nú spyr þjóðin að því, hvernig standi á, að bæði einstaklingar og fyrirtæki borga nú skuldir sínar, en ríkið sama sem engar á þessum veltuárum. Og það er von hún spyrji. Ég álít, að það sé gott, að við alþm. athugum þetta. Við verðum spurðir að því, hvers vegna þessar skuldir eru ekki borgaðar. Það verður krafizt svars af okkur. Ég tel rétt að athuga, hvort ekki ætti að taka innanríkislán til að lúka skuldum ríkisins. Og ég held það sé ástæða til þess að gera það núna. Ég held það væri leikur, að borga allar skuldir ríkisins á þennan hátt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara hér út í það, hvernig þetta yrði framkvæmt. Ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. mundi athuga það. Ég er ekki á móti því, að málinu verði vísað til n., en ef það á að fá framgang á þessu þingi, þá væri betra að draga afgreiðslu þess sem minnst. En ef því verður vísað til n., þá hygg ég, að það ætti að fara til allshn.