02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (2626)

47. mál, greiðsla á skuldum ríkissjóðs

Þóroddur Guðmundsson:

Við í minni hl. fjvn. höfum ekki skilað neinu áliti enn af þeirri ástæðu, að okkur fannst ekki taka því. Okkur virðist ekki mikil alvara liggja á bak við þetta mál. þegar komið er fram með till. um að borga á einu bretti 50 milljónir kr., án þess að gerð sé grein fyrir, hvernig það skuli gert. Mér virðist tilgangurinn hjá flm. frekar vera sá, að hann sé að reyna að slá sér upp á því, að hann hafi svo miklar áhyggjur út af skuldum ríkissjóðs og komi fram með málið af þeirri ástæðu. Það kann þó að vera, að einhver alvara liggi á bak við hjá flm., en af þeirri reynslu, sem maður hefur af þessum þm., þá finnst manni mjög einkennilegt, ef hann meinar það, að hann hafi svo miklar áhyggjur út af þessum skuldum ríkissjóðs. Hann vill pína þessar greiðslur út með sköttum og taka lán úr ríkissjóði, svo að tugum milljóna króna skiptir, svo að eftir nokkur ár verður orðin svipuð aðstaða og nú er. Það hefur nú hvarflað að mér, að flm. hafi komið með þetta „plan“ um að borga niður skuldir ríkissjóðs til þess að dreifa áhyggjum almennings frá hinum fjárhagslegu erfiðu tímum, sem munu koma á næstunni yfir þjóð vora. Það gæti hins vegar verið álitamál, hvort væri hyggilegra, að ríkissjóður fengi þetta fé til þess að borga niður skuldir sínar, eða því yrði varið til þess að gera ráðstafanir til kaupa á nýtízku togurum og komið yrði upp verksmiðjum og öðru, er okkur mætti að gagni koma í framtíðinni. Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta, því að ég býst við, að þetta mál fari ekki langt, og efast um, að þessi vanhugsaða till. verði samþykkt án alls rökstuðnings. En ef það hins vegar er meining þm. almennt að gera alvarlegar athuganir á því, hvort hægt væri að borga upp ríkisskuldirnar, þá álít ég, að hægt væri að taka málið upp í einhverri þingnefnd, en ekki að vísa því til stjórnarinnar, án þess að gerð sé grein fyrir því, hvað vakir fyrir flm. till. og hvernig þetta yrði framkvæmt.

Það, sem ég á sérstaklega við með því, að mál þetta verði tekið upp í þn., er það, að svo margar leiðir er hægt að fara til þess að borga ríkisskuldirnar. Í hinni ófullkomnu og ruglingslegu grg., sem till. fylgir, er minnzt á, að fé þetta væri hægt að taka af stríðsgróðaskattinum. En það kemur greinilega fram hjá flm., að þetta er ekki það, sem fyrir honum vakir, því að hann ætlar sér að greiða ríkisskuldirnar úr vasa verkamanna og smáframleiðenda. Flm. byrjar grg. á því að „agítera“ fyrir því, hversu sérstaklega göfugt það sé fyrir þá, sem ekkert eiga, að taka á sínar herðar að borga þessar skuldir. Stríðsgróðamennina minnist hann varla á. Það kann að vera, að flm. hafi hugsað sem svo, að sú leið, sem hann vill fara, verði einnig farin af ríkisstj., og það vita allir, að ríkisstj. er enginn fulltrúi verkamanna. Ef málið hins vegar verður falið þn., þá eiga verkamenn þar sína fulltrúa, sem munu gæta hagsmunamála þeirra. Mér finnst um tvær leiðir vera að velja til þess að framkvæma þetta mál. Önnur leiðin er sú, að fé þetta verði tekið af stríðsgróðaskattinum, en hin leiðin mun óhjákvæmilega koma mjög þungt niður á alþýðumönnum. Ef þetta mál er því meint alvarlega, væri líklegra, að hægt væri að finna sanngjarna leið í n., þar sem bæði fulltrúar frá launastéttinni og smáframleiðendum eiga sæti, því að þar væri hægt að athuga málið frá öllum hliðum, heldur en ef ríkisstj. ein fengi þetta mál í sínar hendur. Ég álít það, að að öllu athuguðu beri ekki að taka till. þessa alvarlega og ætti því að fella hana.