15.12.1943
Efri deild: 67. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2638)

139. mál, stríðsgróðaskattur

Gísli Jónsson:

Ég vil taka undir með hv. 6. þm. Reykv. um það, að málinu sé vísað til n. Það er óviðunandi, að málið verði látið fara gegnum hv. d., án þess að það fái þinglega meðferð, og hv. d. hefur fengið þá reynslu í þessum efnum, sem ætti að verða víti til varnaðar. Auk þess vil ég benda á, að frágangur Nd. er engin lausn á málinu. Tekjustofnar hinna smáu sveitarfélaga eru svo litlir, að til stórvandræða horfir, og úr því þarf að bæta. Samkv. útsvarsl. hefur það komið fyrir, að sveitarfélög hafa orðið að endurgreiða til manna, sem orðið hafa að leita atvinnu utan sveitarfélagsins, meiri upphæðir en unnt hefur verið að leggja á þá heima fyrir. Það kemur raunar ekki þessum l. við, en sýnir ástandið.

Ég tel nauðsynlegt, að þetta mál fari í n., til þess að athugað verði, hvort ekki sé hægt að koma því betur fyrir með tilliti til hinna fátæku hreppa úti á landinu.