03.11.1943
Efri deild: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (2640)

122. mál, álagning og greiðsla tekjuskatts

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Í grg. fyrir þessari till. hef ég skýrt frá ástæðunum fyrir, að hún er fram komin. Till. fer eingöngu í þá átt að beina til stj., að hún athugi lagasetningu, sem átt hefur sér stað bæði í Bandaríkjum Norður-Ameríku, Kanada og Englandi um, að tekjuskattur sé lagður á og reiknaður út strax sama árið og fyrir tekjunum er unnið, sem skatturinn er greiddur af. Þetta er gert vegna þess, að stjórnarvöldin í þessum löndum óttast, að eftir ófriðarlok eða um það bil muni gjaldgeta almennings að verulegu leyti rýrna. En ef slík hætta er í þessum löndum, þá er ekki síður hætta á því hér, og sýnist því full ástæða fyrir okkur að athuga, hvort unnt sé að koma á slíku fyrirkomulagi hér á landi. Það kann að vera örðugt hér, vegna þess að stighækkandi skattur er hér í miklu ríkari mæli en ég hygg, að sé í þeim löndum, sem ég nefndi, en þar sem mikið er um það hugsað í þessum löndum að finna kerfi, sem gæti staðizt, sýnist eðlilegt, að stj. athugi þetta mál og gefi skýrslu um þær niðurstöður, sem hún kæmist að við þá athugun.

Að öðru leyti læt ég nægja að vísa til grg. og vænti, að till. verði samþ. í þessari d.