29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (2657)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Skúli Guðmundsson:

Þessi till. er um það að veita ríkisstj. heimild til að kaupa efni í rafveitu Keflavíkur og nauðsynlega spennistöð. Við þessa till. hafa svo verið bornar fram viðbótartill. um, að ríkisstj. verði enn heimilað að kaupa rafveituefni til annarra staða á Reykjanesi og Árnessýslu. Það er ekkert undarlegt, þótt slíkar till. komi fram, því að mikill áhugi ríkir hjá þeim landsbúum, sem enn hafa ekki fengið rafmagn, um að fá það sem fyrst.

Þessi mál hafa verið til athugunar hjá mþn., sem kosin var á þingi í fyrra, til að athuga, hvernig þessum málum yrði bezt fyrir komið í framtíðinni. Það er nauðsynlegt að fá sem fyrst úr því skorið, hvaða stefna verður tekin í þessum málum.

Nú er ekki komið svo langt störfum n., að sagt verði um, hvernig till. hennar verða. Margir eru þeirrar skoðunar, að fullnægja beri þörf almennings í þessu efni, þannig að ríkið hafi með höndum þessar framkvæmdir. Vænti ég þess, að till. frá mþn. komi, áður en langt um líður. Tel ég það vert athugunar, ef ríkisstj. verður heimilað að kaupa rafveituefni, sem fáanlegt kann að vera nú, með viðunandi kjörum, að innan skamms verði að sjá henni fyrir endurgreiðslu á andvirði þess eða tekjum, ef tekin verður sú stefna, að ríkið hafi framkvæmdir þessar með höndum. Ríkið getur ekki haft rafveituframkvæmdirnar með höndum, nema það afli fjár til þess.

Við höfum, nokkrir þm. í Nd., lagt fram frv., sem stefnir í þá átt um öflun fjár í þessu skyni. Vænti ég þess, að flm. þessarar till., sem hér liggur fyrir, greiði fyrir því, að það frv. nái fram að ganga hér í þinginu. Það er væntanlega öllum vel ljóst, að til þessara framkvæmda þarf mikið fé. Við eigum sem betur fer miklar inneignir erlendis, sem hægt væri að nota til kaupa á rafveituefni. En ríkisstj. á ekki það fé og getur ekki tekið það til sinna nota, nema séð verði fyrir fé innan lands, sem því svarar. Áður hafa verið tekin lán erlendis til framkvæmda hér á landi, en það er ekki hægt að gera ráð fyrir, að svo verði framvegis, enda ætti að vera unnt að safna fé innan lands. Nú eru meiri peningar í umferð í landinu en nokkru sinni áður. Tel ég víst, að peningamönnum verði ljúft að leggja þá fram til þessara framkvæmda. Þeim, sem vilja fá rafmagn sem fyrst, þarf að vera vel ljóst, að þeir þurfa sjálfir að greiða fyrir því, að hægt verði að ráðast í þessar framkvæmdir. Þeir þurfa að leggja fram fé, hver eftir sinni getu. Sú tíð er liðin, þegar menn gátu fengið þessar eða hinar framkvæmdir með því að krefjast þess, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir fé til þeirra, og tekið síðan erlend lán. Því aðeins er hægt að koma þessu í framkvæmd, að sem flestir leggi fram aðstoð sína.

Ég vildi láta þetta koma fram, áður en till. verður vísað til n.