29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2659)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Flm. (Ólafur Thors):

Út af brtt. hv. 11. landsk., sem á að vera til leiðréttingar við mína till., hygg ég, að um nokkurn misskilning sé að ræða. En ég hygg, að hann muni bezt leiðréttur með umræðum milli mín og hans, og nú með því að hlíta ráði hæstv. forseta og fresta umr. um till. hv. 9. landsk. og hv. 2. þm. Árn. til síðari umr. Gefst þá tóm til að ræða málið. Ég bar orðalag till. minnar undir forstjóra rafmagnseftirlits ríkisins, og taldi hann hana rétt orðaða.

Ég hef lýst mig fylgjandi þeim till., sem hv. 2. þm. Árn. og hv. 9. landsk. bera fram, bæði nú og áður sem ráðherra. Mér skilst, að varðandi efnishlið málsins séum við allir sammála. Ég veit ekki, hvernig atkvgr. fer, en teldi miður fara, ef hún yrði til hindrunar framgangi málsins, en þm. úr þremur flokkum hafa tjáð sig fylgjandi málinu. Ég dreg ekki í efa, að hv. 1. þm. Árn. stendur með hv. 2. þm. Árn., en sá fyrrnefndi er, sem kunnugt er, í flokki framsóknarmanna. Að þessu athuguðu tel ég málinu borgið.

Ég get vel sett mig í spor annarra hv. þm., þegar um þessi mál er að ræða. Þeir verða að bera fram óskir umbjóðenda sinna í þessu efni, en sem kunnugt er, þá er áhugi mikill ríkjandi á að fá rafmagn sem víðast. En ástæðan til þess, að ég bar fram till. í þessu formi, var sú, að efnið í Keflavíkurveituna er fáanlegt sem stendur en ekki meira, og er það sú sérstaða, sem ég álít, að muni tryggja framgang málsins. Annars standa hinar till. mjög nærri mínum óskum. En ef keppa á að því að fá meira efni í einu og sleppa þessu tækifæri eða draga á langinn að kaupa það, er óvíst, hvernig kann að fara. Annars vil ég taka undir ummæli hv. forseta, og mun ég fylgjandi hverri þeirri aðferð, sem bezt getur tryggt heppilega afgreiðslu málsins. En ég vil treysta því, að samkomulag geti orðið um það að fara eftir tilmælum hæstv. forseta, þannig að við þessir fjórir þm. fáum tækifæri til að ræða um, með hverjum hætti við getum bezt afgreitt þessi mál, sem við berum fyrir brjósti og þá komið okkur saman um flutning sameiginlegrar till. eða þá afgreiðum málin með því að eiga þátt í, að hv. fjvn. afgreiði þetta mál og þessar óskir okkar í einhverju formi, sem við gætum sætt okkur við, svo að tryggður yrði góður framgangur málsins. En ég álít ekki rétt að knýja brtt. undir atkv. á þessu stigi málsins, sem ekkert hefur til síns ágætis fram yfir það að leita samninga milli þessara fjögurra þm. og fjvn. um farsæla lausn málsins. Mér finnst það ofurkapp eitt að knýja brtt. undir atkv. nú, en að í sambandi við það gæti verið viss hætta.