29.10.1943
Sameinað þing: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (2662)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Það var út af nokkrum ummælum í ræðu hv. þm. G.-K., sem ég vildi gera eina eða tvær aths. En ég skal taka fram, að mér væri mjög um geð að verða að lenda í deilum um þetta mál við hv. þm. G.-K., það á alls ekki við. Við vinnum þar báðir að einu og sama marki, hv. þm. G.-K. og ég, og ég vil alls ekki draga í efa, að hann hafi sama áhuga á því, að till. sín nái fram að ganga, sem ég hef á minni till.

Hv. þm. G.-K. gat þess, að sá væri munur á minni till. og sinni, að efni í Keflavíkurrafveituna væri fáanlegt, en efni í Reykjanessveituna að öðru leyti ófáanlegt. Þetta er ekki rétt með farið. Það er að vísu svo, að það liggur aðeins fyrir leyfi fyrir efni í Keflavíkurveituna. En það er verið að vinna að öðrum leyfum, og það er von til þess, að leyfin fáist, — maður veit ekki hvenær eða hvernig málinu reiðir af.

Þá sagði hv. þm. G.-K., að á minni brtt. væri sá galli, að ég miðaði ekki við neina ákveðna upphæð, en hann miðaði hér við eina milljón. Út af þessu skal ég taka það fram, að það liggur fyrir nákvæm áætlun um það, hvað efnið í þessa veitu muni kosta, þannig að það er ljóst þegar í upphafi, hve miklu fé þarf að verja í þessu skyni. Svo vil ég líka minna á það, að þegar fyrrverandi ríkisstj., er hv. þm. G.-K. var ráðherra, gaf sendiherra Íslands í Bandaríkjunum umboð til þess að kaupa inn efni í Reykjanessveituna og Eyrarbakkaveituna, þá var ekki tekið fram í því umboði, að hendur sendiherrans væru bundnar um það, hvað efnið mætti kosta. Hann hafði algerlega ótakmarkað umboð til þess að kaupa þetta efni. sem til þurfti. Og í till. minni fer ég ekki fram á annað en þingið staðfesti það, sem ríkisstj. gerði, án þess að formleg heimild lægi fyrir.

Ég skal þá ekki draga þessar umr. neitt lengur, en ég vil taka undir þá till., sem fram hefur komið frá hv. 2. þm. Árn., að fyrri umr. um þetta mál sé frestað og málið látið ganga til hv. fjvn., sem athugaði fram komnar brtt. ásamt aðaltill. Eins og málið liggur fyrir, virðist mér þetta heppilegasta lausnin, að hv. fjvn. athugi þetta mál, áður en það gengur lengra, þannig að ekki þurfi að knýja fram atkvgr. nú.