12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (2669)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Frsm. meiri hl. (Pétur Ottesen) :

Eins og hv. alþm. sjá á nál. þeim, sem fram hafa komið, varð ekki samkomulag um afgreiðslu þessarar þáltill. í fjvn. Það er þó engan veginn svo að skilja, að leiðir skildu á því, að nm. allir væru ekki hlynntir því, að greitt yrði fyrir þessu máli, heldur var það aðferðin, sem hér var um að ræða, hvernig málið bæri að, sem leiðir skildu um. Það er gerð grein fyrir því hér í nál., hvernig þessi skipting varð, eins og líka álit minni hl. n. ber með sér og brtt., sem einn hv. nm. hefur flutt, er skrifaði undir meirihlutaálitið, en áskildi sér rétt til þess að bera fram brtt.

Mál þetta hefur borið þannig að og er þannig í eðli sínu, að sú till., sem hér um ræðir, um rafmagnsveitu til Keflavíkur, er flutt í þeim sérstöku kringumstæðum, að það er nú þegar búið að fá útflutningsleyfi fyrir efni í þessa rafveitu. Að þessu leyti stendur alveg sérstaklega á um þessa rafveitu fyrir Keflavík, þegar það er borið saman við hitt, hversu ástatt er um þær veitur, sem hér hafa komið fram aðrar till. um, en fyrir þá staði, sem hinar aðrar till. eru um, er ekki fengið útflutningsleyfi á efni til rafveitna. Að öðru leyti stendur einnig alveg sérstaklega á um þessa rafveitu Keflavíkur, nefnilega að í till. sjálfri kemur fram, hvað kostnaður við hana er áætlaður að verða. En um rafveiturnar, sem hinar till. eru um, liggur hér ekkert fyrir um það, hver kostnaður við lagningu þeirra muni verða, enda mun ekki vera búið að ganga frá áætlunum í því efni eða a. m. k. ekki svo nýlega, að hægt sé á því verulega að byggja. Af þessum mismun, sem er þarna á aðaltill. og brtt. við hana, sem fyrir liggja, er það, að meiri hl. fjvn. leggur til, að þáltill. verði samþ., eins og hún er, óbreytt, þannig að heimildin til efniskaupa fyrir Keflavíkurveituna verði veitt ein sér. — Auk þess er, eins og getið er í nál. meiri hl. n., rekið allmjög á eftir um það, að það dragist ekki að afla heimilda til handa ríkisstj. til þess að ganga frá þessum efniskaupum, af því að svör við því verða að koma mjög bráðlega, hvort kaupin verði gerð, því að annars er — eftir upplýsingum frá formanni rafmagnseftirlits ríkisins, sem hann gaf fjvn. um það efni, — hætta á því, að forgörðum fari efnisúthlutun á síðasta fjórðungi þessa árs okkur til handa að þessu leyti. Það er af þessum ástæðum, að meiri hl. fjvn. leggur til, að þáltill. verði samþ. óbreytt og á samþ. hennar verði ekki frekari dráttur en orðinn er.

Viðvíkjandi þeim öðrum till., sem hér hafa komið fram og fyrir liggja, er það að segja, að til fjvn. hefur ekki verið vísað nema tveimur af þeim brtt., sem gerðar hafa verið við þessa þáltill. um rafveitu til Keflavíkur. Önnur sú brtt. hljóðar um rafmagnslínur um Suðurnes, en hin er um að taka upp í till. heimild til handa ríkisstj. til að kaupa efni til rafmagnsveitna til nokkurra þorpa eða kauptúna í Árnessýslu. Síðan þetta var, hefur einnig verið borin fram hér á Alþ. till., sem ég ætla, að sé á dagskrá hér í dag, en hefur ekki komið fyrr til umr., og þar eru teknir fyrir enn fleiri staðir, sem lagt er til að leggja rafmagnsveitur til, bæði frá Sogsvirkjuninni og einnig frá Laxárvirkjuninni. Og upp í þá till. hafa svo verið tekin ákvæði eftir þeim pöntunum, sem komið hafa viðvíkjandi efni til annarra rafveitna en Keflavíkurveitunnar. — Nú leiðir það af sjálfu sér eftir gangi þessara mála, að þessari síðari till. verður að sjálfsögðu vísað til fjvn. eins og þeirri, sem hér liggur fyrir, og n. mun að sjálfsögðu taka það mál til athugunar og skila áliti um þær till., þegar þar að kemur. En formlega hafa ekki komið til kasta n. aðrar till. en þær, sem ég gat um nú. Ég get lýst yfir því, að meiri hluti fjvn. mun taka málið til velviljaðrar athugunar, þegar hinar aðrar till. koma til n., sem ég greindi. Og ég gæti vel hugsað mér, að það væri eðlileg afgreiðsla á þeim till., eins og þær liggja fyrir, að þær yrðu afgreiddar í nokkuð svipuðu formi og hv. minni hl. fjvn. leggur til, að hagað verði afgreiðslu á þessari þáltill., sem hér liggur nú fyrir um Keflavíkurveituna.

Að því er snertir brtt. frá hv. þm. Ísaf., sem líka skrifaði undir álit meiri hl. fjvn. og hann hefur gert grein fyrir, þá vil ég geta þess, að um þá till. gildir vitanlega alveg það sama, sem ég hef sagt um hinar aðrar brtt., sem hér liggja fyrir við aðaltill. og síðar koma hér til afgreiðslu í hæstv. Alþ. Mér skilst þó, að þessi brtt. sé eitthvað öðruvísi orðuð en er hún hefur komið hér fram áður, en það hefur vitanlega engin áhrif á afstöðu meiri hl. fjvn. til till., því að að sjálfsögðu þarf Alþ. ekki frekar gagnvart þessari till. en öðrum þeim till., sem fyrir liggja, að gera neinar ályktanir um, að leitað sé eftir möguleikum fyrir því að fá útflutningsleyfi fyrir efni til þessara rafveitna, — því að það er vitað af öllum, sem hér eiga hlut að máli, að með stuðningi ríkisstj. er vakað yfir öllum hugsanlegum möguleikum, sem á því eru eða kunna að, vera að geta fengið þetta efni til landsins. En sem stendur er mjög þröngt fyrir dyrum í því efni, því að þessi útflutningur frá Bandaríkjunum, sem er eina viðskiptaland okkar í þessum greinum nú, er mjög takmarkaður. En þess er að vænta, að af öllum, sem þar eiga hlut að máli, sé vakað yfir öllum möguleikum, sem þar koma til greina. Og ég hygg, að fast sé fylgt á eftir um þessi mál af öllum, sem hér eiga hlut að um framkvæmdir í rafmagnsmálum hér á landi.

Það þarf ekki fleiri orð um málið af hálfu meiri hl. fjvn. Ég hef skýrt málið frá sjónarmiði meiri hl. fjvn. og till. hans um afgreiðslu þessarar þáltill. á Alþ. nú.