06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

30. mál, einkasala á tóbaki

Brynjólfur Bjarnason:

Það virðist nú hafa komið fram í þessu máli, að það séu þm., sem líti svo á, að stj. hafi heimild til þess í gildandi l. að nota fé til þess að borga niður dýrtíðina fram yfir það fé, sem henni er veitt til þessara hluta í l. um dýrtíðarráðstafanir.

Hv. þm. Str. (HermJ) taldi, að það mundi þurfa um 20 millj. kr. til þess að borga niður dýrtíðina, og vildi fyrir sitt leyti, að stj. hefði fé undir höndum til þess að borga hana niður. Hér er ekki um 20 millj., en um mjög mikið fé að ræða, ef áætlun stj. stenzt. Það hefur sérstaklega komið fram sú skoðun hjá ýmsum þm., að stj. hafi heimild til þess að verja þessum tekjuauka á þann hátt, sem henni þætti heppilegast, án þess að fá skýrari fyrirmæli um, hvernig þessu fé skuli ráðstafað. Ég tel það í meira lagi traust til stj. að vilja láta hana hafa umráð yfir slíkri fjárfúlgu til þess að vinna á móti dýrtíðinni á þann hátt, sem henni þykir heppilegast. Hvar skyldi þetta vald vera í l.? Þar með erum við komnir að kjarna málsins. Við erum komnir að kjarna málsins, eftir að fyrirspurn hv. þm. Seyðf. (LJóh) kom fram. Ég get ekki skilið, hvar þessi heimild eigi að vera annars staðar en í l. um dýrtíðarráðstafanir, 4. gr. — Hér virðist vera stórmál í uppsiglingu. — Spurningin er um það, hvort stj. hafi heimild til þess að nota þetta fé, ekki aðeins þetta, heldur ótakmarkaðar fjárfúlgur úr ríkissj. til þess að borga niður dýrtíðina, og ráðh. hefur ekki fengizt til að gefa skýr svör við fyrirspurn hv. þm. Seyðf. (LJóh) . En það er einmitt hún, sem svar þarf við og þeir þm., sem hér hafa talað, eiga vafalaust við. Um önnur l. getur ekki verið að ræða. Hæstv. ráðh. svaraði þessari fyrirspurn þannig, að hann gæti ekki svarað þessu, vegna þess að hann þyrfti áður að bera málið undir lögfræðing. Ég skil nú varla í, að ráðh. ætlist til, að við trúum því, að stj. hafi ekki borið þetta mál undir lögfræðing, að stj., sem á innan sinna vébanda tvo þekktustu lögfræðinga landsins, hafi ekki gert sér grein fyrir því, hvort það sé tryggt, að hún geti notað þetta fé til þess að borga niður dýrtíðina. Það þýðir ekki að koma til okkar með slíkt. Stj. hefur ákveðið fyrir fram, hvort hún ætlar að nota þessa heimild eða ekki.

Ég geri mig á engan hátt ánægðan með það, að stj. muni að sjálfsögðu skýra frá því, áður en hún noti þessa heimild, og ég tel það ekki nokkurs virði, þótt hæstv. ráðh. segi, að þingið geti stöðvað slíkar framkvæmdir. Það er hægt með því að breyta l. um dýrtíðarráðstafanir eða með því að afnema þau l., sem hér er verið að samþykkja. Hvers konar vinnubrögð eru það? Fyrst að samþykkja l. án þess að vita, hvað verið er að samþykkja. Síðan kemur í ljós, að mönnum falla ekki l. Þá á að taka til sinna ráða og afnema þau. Hæstv. ráðh. getur ekki ætlazt til þess, að þingið viðhafi slík vinnubrögð.

Það, sem þm. þurfa að vita, áður en þeir samþ. þetta frv., er einmitt þetta: Telur stj. sig hafa heimild til þess í l. að nota þetta fé, án þess að ákvarðanir þingsins komi til?

Mér skilst, að komið sé að kjarna málsins, þegar séð er, hvort stj. telur sig hafa þessa heimild eða ekki, og að fullnægjandi svar fáist við því, um leið og svar fæst við fyrirspurn hv. þm. Seyðf. (LJóh).