12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (2676)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þeirra brtt., sem hér liggja fyrir, svo og til þeirra nál., sem fram hafa komið í málinu. Ég get látið í ljós ánægju mína yfir því, hve vel hv. fjvn. hefur orðið sammála um að leggja til, að ríkisstj. verði heimilað að verja nú þegar fé úr ríkissjóði til þess að innleysa efni í rafveituna til Keflavíkur, sem útflutningsleyfi liggur nú fyrir um. Ég tel það vel farið, að hv. fjvn. hefur öll orðið sammála um að leggja þetta til, og ég vænti, að málið að þessu leyti megi fá fljóta afgreiðslu hjá þinginu, til þess að ekki þurfi að verða dráttur á, að hægt verði að innleysa þetta efni. Mér er óhætt að fullyrða, að á Suðurnesjunum yfirleitt eru menn mjög ánægðir með það, að tekizt hefur að útvega efni í þennan hluta Reykjanessveitunnar, og þeir fagna því, að efnið skuli vera væntanlegt til landsins áður en langt líður, svo að hægt sé að hrinda verkinu í framkvæmd. Yfirlýsing sú, sem hv. þm. G.-K. las hér upp frá hreppsnefnd Gerðahrepps, er sjálfsagt ekkert einstæð í þessum efnum. Því er fagnað af öllum hreppsnefndum þarna syðra, að tekizt hefur að útvega þetta efni. Og ég hef vissu fyrir því, að hreppsnefndir þar vildu gjarnan leggja lið sitt til þess, að þetta efni kæmi sem fyrst til landsins, svo að hægt sé að byrja á þessu verki sem fyrst.

Ég vil líka láta í ljós ánægju mína yfir því, að hv. fjvn. er sammála um að gefa hæstv. ríkisstj. heimild til þess að verja fé úr ríkissjóði til kaupa á efni í rafveitur umfram það, sem þarf til Keflavíkurveitunnar. Það kom mjög greinilega fram hjá þeim hv. fjvn.-mönnum, sem töluðu hér, að hv. fjvn. er yfirleitt öll sammála um það, að heimila þyrfti ríkisstj. að verja fé úr ríkissjóði til þess að innleysa efni — ekki aðeins í Reykjanessveituna og Eyrarbakkaveituna, heldur í allar rafveitur, sem til greina geta komið, og eftir því, sem efni er fáanlegt til þeirra, — að sjálfsögðu með viðunandi verði. Ég verð að láta í ljós ánægju mína yfir því, hversu vel hv. fjvn. hefur tekizt að vera sammála um þetta atriði.

En um framhaldið af því, sem fram kemur frá hv. fjvn., þá verð ég að segja, að ég er dálítið undrandi, a. m. k. að því er varðar niðurstöður þær, sem hv. meiri hl. n. hefur komizt að í þessu efni. Mér virðast þær niðurstöður vera í nokkru ósamræmi við þær forsendur, sem þær niðurstöður eru byggðar á. Hv. meiri hl. fjvn. hefur ekki viljað fallast á það, að ríkisstj. væri á þessu stigi málsins, þ. e. í sambandi við þessa þáltill., sem hér er til meðferðar, heimilað að innleysa efni til Reykjanessveitunnar að öðru leyti en til Keflavíkurveitunnar. Ástæður þær, sem hv. meiri hl. fjvn. færir fyrir þessari niðurstöðu sinni, eru í fyrsta lagi, að slík heimild mundi e. t. v. stofna málinu í hættu, í öðru lagi, að ekki sé vissa fengin fyrir útflutningsleyfi fyrir öðru efni en í Keflavíkurveituna og séu því samþykktir um heimild til að innleysa annað efni ónauðsynlegar í sambandi við þetta mál, og í þriðja lagi, að upplýsingar vanti um verð á efni, sem þurfi í aðrar rafveitur en Keflavíkurveituna.

Ég vil nú aðeins víkja nokkrum orðum að þessum atriðum. Fyrst vil ég minnast á það, að frsm. meiri hl. fjvn. gat um það, að hann teldi, að samþykkt brtt., sem hér liggja fyrir, mundi verða til þess að stofna málinu, að því er við kemur Keflavíkurveitunni, í hættu. Mér kemur þessi fullyrðing undarlega fyrir sjónir, og á ég ómögulegt með að skilja hana. Hv. fjvn. er sammála um, að það eigi að verja fé til kaupa á efni til Reykjanessveitunnar í heild og einnig til Eyrarbakkaveitunnar og í aðrar veitur, sem efni er fáanlegt í. Fyrst n. er sammála um þetta atriði, hvernig er þá hægt að fá menn til að skilja það, að það geti stofnað þessu máli í hættu, þó að bein ákvæði séu tekin upp í þessa till. um heimild til að innleysa efni í aðrar veitur, sem fjvn. er sammála um, að eigi að veita ríkisstj. heimild til að innleysa? Mér er ómögulegt að skilja, hvernig það má stofna málinu í nokkra hættu.

Þá virðist mér það ekki síður ógrundað hjá hv. meiri hl. fjvn., þegar hann heldur því fram, að upplýsingar vanti um það, hvað efni í Reykjanessveitu og aðrar veitur en Keflavíkurveituna og hér er um að ræða, muni kosta, því að það liggur fyrir nákvæmlega jafngreinilega og það liggur fyrir, hvað efni í Keflavíkurveituna muni kosta. Ég upplýsti það áður við þessa umr., að talið væri, að efnið í Reykjanessveituna mundi kosta 1.670.000 kr. eftir áætlun, sem gerð var á síðasta ári. Og eftir þessari áætlun er svo hins vegar áætlað, að efnið í Keflavíkurveituna muni kosta um eina millj. kr., og á því byggði meiri hl. hv. fjvn. Mér er ekki kunnugt um annað en að sams konar áætlun liggi fyrir um Eyrarbakkaveituna, og vænti ég, að það verði þá leiðrétt hjá mér, ef ég fer þar ekki með rétt mál. Það er því tilgangslaust og ástæðulaust fyrir hv. meiri hl. fjvn. að segja, að það liggi fyrir upplýsingar um það, hvað efni kosti í Keflavíkurveituna, en ekki, hvað það kosti í þessar rafveitur að öðru leyti, sem hér er um að ræða.

Þá hefur hv. meiri hl. fjvn. einnig á móti brtt. vegna þess, að ekki sé fengið leyfi fyrir útflutningi á efni til annarra af þessum rafveitum en til Keflavíkurveitunnar. Þetta er rétt að því leyti, að í dag liggur ekki fyrir útflutningsleyfi á efni í aðrar rafveitur en til Keflavíkurveitunnar. Hins vegar er nú verið að vinna að því að fá frekari leyfi. Og mér er sagt af kunnugum mönnum, að allar líkur séu til þess, að þau fáist, áður en langt líður. Það er ekki grunlaust um, að þessi leyfi fáist það bráðlega, að Alþ. því, er nú situr, verði varla nema rétt lokið, þegar þau leyfi fást, a. m. k. að einhverju leyti. Ef þessi leyfi fást rétt eftir, að Alþ. nú lýkur, þá stendur málið þannig, að þessi héruð, sem þá fá leyfi til þess að fá þetta efni til sín, hafa ekki bolmagn til þess að innleysa þetta efni, og svo framarlega sem ríkisstj. hefur þá ekki í höndum heimild til þess að verja fé til þess úr ríkissjóði, verður ekki hægt að innleysa það. En ríkisstj. hefur enn sem komið er ekki heimild í höndum til þessa. Og fái ríkisstj. ekki þessa heimild þegar á þessu þingi, þá er hætta á því, að beðið verði með að innleysa þetta efni, þangað til Alþ. kemur saman á ný, og gæti þá farið svo, að útflutningsleyfið yrði afturkallað. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt, að ríkisstj. hafi í höndum fulla heimild á milli þinga til þess að innleysa þetta efni, miðað við, að viðunandi verð sé á því. Þetta er ástæðan til þess, að ég hef borið fram brtt. mína við þáltill. þá, sem hér liggur fyrir, og ég þykist vita, að þessi sé einnig ástæðan til þess, að hv. 2. þm. Árn. hefur borið fram sína brtt. — Ég fæ ekki betur séð en að hv. meiri hl. fjvn. sé hér að leika dálítið hlægilegan skrípaleik. Meiri hl. n. lýsir yfir því, að ekki megi samþ. brtt. mína og ekki brtt. hv. 2. þm. Árn. En um leið og þessi yfirlýsing er gefin, þá fylgir önnur yfirlýsing um það, að síðar á þinginu muni fjvn. mæla með því, að sams konar till. verði samþ. Það sjá auðvitað allir, hvernig í þessu öllu liggur. Hv. þm. G.-K., sem bar fram þáltill. þá, sem hér er til umr., hafði orðið það á í messunni að gleyma verulegum hluta af Suðurnesjum, þegar hann bar fram þáltill. sína. Með brtt. minni minnti ég á þessa menn. Sú áminning hefur orðið til þess, að nú liggja fyrir yfirlýsingar hv. fjvn. um það, að inn á þá braut muni verða farið á þessu þingi, sem ég hef bent á með þessari brtt. Ég get að sjálfsögðu fagnað þessu, — en bara skil ekki ástæðuna fyrir því, að ekki skuli mega fara þessa leið þegar í stað, sem bent er á með brtt. minni, með því að samþ. hana.

Að öðru leyti vil ég taka fram, að ég álít, að brtt. minni hl. fjvn. á þskj. 385 sé til mikilla bóta frá því, sem til er tekið í þáltill. sjálfri. Ég fyrir mitt leyti mun því, ef sú brtt. verður borin upp á undan minni brtt. eða ef mín brtt. verður felld, greiða atkv. með brtt. hv. minni hl. fjvn. á þskj. 385. Ef hins vegar brtt. hv. 2. þm. Árn. og mín verða bornar upp á undan brtt. hv. minni hl. n. á þskj. 385, þá mun ég að sjálfsögðu greiða atkv. með þeim báðum og einnig að brtt. 385 felldri.

Ég vil svo að lokum undirstrika það, sem fram kom hjá hv. þm. G.-K., að óska eftir því, ef hæstv. forseti sæi sér fært að afgreiða þetta mál einnig frá síðari umr. þegar í dag, að það verði gert. Það er mjög nauðsynlegt, að þetta mál fái fljóta afgreiðslu, og ég tel mjög æskilegt, að hæstv. forseti sæi sér fært að halda þegar í stað annan fund að þessum fundi loknum til að afgreiða þá þáltill., eins og hún liggur þá fyrir.