12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (2678)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Ég get látið þess getið, að ég hef átt tal við hæstv. atvmrh. um þessar brtt., sem hér liggja fyrir, og hann hefur sagt mér, að hann mundi, ef brtt. minni hl. fjvn. á þskj. 385 verður samþ., vitanlega kaupa efnið í Keflavíkurveituna samkv. þeirri heimild, sem þar er gefin. En eins og ég hef áður tekið fram og fleiri, þá felst í ákvæði þeirrar brtt. ótvíræð heimild fyrir ríkisstj. til að innleysa efni fyrir Keflavíkurveituna, þó að hún sé þar ekki beinlínis nefnd frekar en aðrir staðir. Það væri því með samþykkt þeirrar brtt. veitt ótvíræð heimild til handa ríkisstj. til að kaupa það efni til rafveitna hér á landi, sem útflutningsleyfi er fyrir í Bandaríkjunum á þeim tíma, sem sú heimild gildir. Og eftir viðtali við hæstv. atvmrh. veit ég, að sú heimild verður notuð, ef brtt. verður samþ. Hv. þm. G.-K. sagði, að sérstöku hugðarefni sínu væri bezt borgið með því, að þáltill. hans yrði samþ. óbreytt. Hann hefur að vísu sjálfur komið fram með skrifl. brtt. við hana nú á fundinum. Ég fæ ekki skilið, hvernig þetta getur staðizt. Mér skilst, að það sé sérstakt hugðarefni þessa hv. þm., — sem ég get vel skilið, — að keypt verði efni til Keflavíkurveitunnar, sem útflutningsleyfi er fengið fyrir. En því máli er í sjálfu sér engu betur borgið með því, þó að farið verði eftir till. hv. meiri hl. fjvn., vegna þess að í till. okkar í minni hl. n. er veitt ótvíræð heimild, jafngild, til þess að kaupa þetta efni. Ég get þess vegna ekki skilið, hvernig till. meiri hl. fjvn. fullnægir betur hugðarefni eða óskum hv. þm. G.-K., — nema honum sé það sérstakt hugðarefni, að heimildin til efniskaupa verði svo bundin við þessa Keflavíkurrafveitu eina, — en því geri ég þó ekki ráð fyrir, — að það megi ekki veita ríkisstj. heimild til að kaupa efni til rafveitna á Suðurnesjum eða til þorpanna fyrir austan fjall, ef möguleikar kynnu að opnast til þess á milli þinga. Eða er þetta sérstakt hugðarefni þessa hv. þm.? Mér þykir það einkennilegt, ef svo er, og ég vil ekki ætla, að svo sé.

Út af því, sem fram kemur í nál. hv. meiri hl. fjvn., þar sem talað er um það, að það sé vísasta leiðin til þess að bjarga því, að þeir, sem þarna eiga hlut að máli, verði ekki af efniskaupunum að þessu sinni, að samþ. sé þessi heimild fyrir þessa rafveitu eina sér, þá vil ég benda á það, sem ég hef þegar bent á, að heimildin til þess að kaupa efni í þessa rafveitu er jafnskýlaus í till. okkar í minni hl. n. En okkar till. er víðtækari og veitir ríkisstj. enn meiri heimild, — svo að þessu er ekki neitt betur borgið með því að fara eftir till. hv. meiri hl. fjvn. um að samþ. heimild fyrir Keflavíkurrafveituna út af fyrir sig. Og ég fæ ekki betur séð en einfaldast sé að veita hæstv. ríkisstj. þessar heimildir í einu lagi. Mér þykja það undarleg vinnubrögð og ekki til þess að flýta störfum þingsins, ef hv. þm. ætla að fella brtt. á þskj. 385, um að veita ríkisstj. heimild til þess að kaupa efni, ef fáanlegt er, í Reykjanessveituna alla og í rafveitur fyrir þorpin austan fjalls, en lýsa því samt yfir, að á þessu þingi muni þeir vera með því að samþ. alveg þetta sama. Skil ég ekkert í slíkum vinnubrögðum og vantar útskýringu á þessu. Það er vitanlegt, að Keflavíkurveitunni er alls ekki stofnað í hættu, þó að ríkisstj. sé veitt víðtækari heimild.

Hv. 9. landsk. þm. (GÍG) segir, að hann muni fylgja brtt. minni hl. fjvn., og sé ég á því, að skilningur hans á þessu máli er réttur.

Vil ég svo ekki tefja þessar umr, með því að fara um málið fleiri orðum. Ég sé ekki, að þess sé þörf, því að mér finnst málið hljóta að liggja ljóst fyrir öllum, sem séð hafa þessar brtt., sem fram hafa komið við þáltill. Og mér finnst, að allir hljóti að vera sammála um það, að einfaldasta leiðin til afgreiðslu þess máls sé að láta ríkisstj. fá í einu lagi þessar innkaupaheimildir, svo að hún geti á milli þinga keypt efni til rafveitnanna.