12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (2679)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Ólafur Thors:

Ég vil forðast að lengja umr. um þetta mál frekar, því að mér virðist hæstv. forseti vilja greiða fyrir því, að málið verði afgreitt frá þinginu strax í dag. Vil ég því stilla mig um að svara hv. frsm. minni hl. fjvn., sem ég hefði annars haft nokkra löngun til að gera. Hann hefur snúizt í kring um það, þó að hann hafi ekki viljað láta það koma berlega fram, að ganga á móti þessari þáltill. En ég veit ekki, hvort aðrir hafa gengið framar í því en hann og aðrir framsóknarmenn að vera með útrétta lúkuna fyrir kjósendur sína, hvað sem hag ríkissjóðs líður. En ég læt þá um það. Ég get hugsað, ef öll gögn væru lögð á borðið, að þá kæmi í ljós, að mönnum þætti nokkur skrípaleikur hafa farið fram um þetta efni. Þegar ég í fjvn. bað hv. þm. V.-Húnv. um stuðning við þetta mál, þá vildi hann ekki gefa vilyrði fyrir að ljá málinu lið á neinn hátt, fyrr en ég væri búinn að segja til um það, hvort ég mundi vilja fylgja till. hans um 20 millj. kr. lántöku til raforkusjóðs. Mér er nóg, að svo hefur verið búið um hnúta viðvíkjandi Keflavíkurveitunni, að hún verði í fyrstu röð um að njóta þess efnis, sem útflutningsleyfi fæst fyrir og til landsins kemur, eins og hæstv. atvmrh. hefur sagt, að hann mundi vinna að, meðan hann situr í ráðherrasæti. En það getur verið, að hann verði ekki eilífur í ráðherrasætinu. Ég met hans góða vilja mikils. En það er enga tryggari lausn hægt að fá á þessu máli en samþ. þáltill. óbreytta, þannig að það fyrsta efni til rafveitu, sem til landsins er flutt, verði notað til þessarar rafveitu í Keflavík. Mér er í dag boðið upp á þá lausn þessa máls, að það sé óbundið af þessari till., hvað hæstv. ráðh. gerir við það efni í rafveitu, sem fyrst er inn í landið flutt. Hins vegar býður hv. 11. landsk. þm. mér upp á það með sinni till., að þetta efni verði látið fara til Keflavíkurveitunnar. Ég óska ekki eftir að þessi leikur verði leikinn meira hér á hæstv. Alþ. Nú situr í ráðherrasæti maður, sem hefur fullan hug á að vinna að því, að efni til Reykjanessveitunnar komi til landsins einnig. Og ég óska, að þáltill. mín verði samþ., og ég er þakklátur fyrir það, að henni er tryggt fylgi a. m. k. 37 hv. þm., svo að framgangur hennar er öruggur. En ég vil ekki taka þátt í deilum um málið.

Að endingu vil ég geta þess, að ég hef komið fram með brtt. um, að fyrirsögn þáltill. verði: „Tillaga til þingsályktunar um efniskaup til rafmagnsveitu Reykjaness“.