08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (2702)

140. mál, siglingalög

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að hafa þessa framsöguræðu mína stutta.

Þessar breyt., sem hér er lagt til, að gerðar verði á siglingal., miða að tvennu og í fyrsta lagi að því, hvernig skipta beri björgunarlaunum milli skipverja innbyrðis. Eins og nú er, fá skipverjar 1/3 hluta björgunarlaunanna í sinn hlut, en af því á skipstjóri að fá helming. En hér er lagt til, að björgunarlaununum skuli skipt í réttu hlutfalli við tekjur skipverja og að svo skuli skipstjóri fá til viðbótar frá útgerðarmanni það, sem á vantar, til þess að hann fái samtals 1/3 hluta þess, sem skipt var milli skipshafnarinnar.

Þá er það önnur breyt. Eins og nú er, þá gera l. mun á björgunarlaunum fyrir seglskip og gufuskip, þannig að skipshöfn fái hærri björgunarlaun, ef það er seglskip, sem bjargar. Hér er enginn greinarmunur gerður á því, hvers konar skip það er, sem bjargar, því að seglskip eru nú að heita má úr sögunni, þannig að það hefur enga „praktiska“ þýðingu að hafa þarna sérstakt ákvæði um þau, þar sem við höfum nú bara gufuskip og mótorskip.

Síðasta breytingin er svo sú, að undanskilja frá þessu skip, sem þegar hafa ákveðnar reglur um skiptingu björgunarlauna, en ákvæði um það er nú ekki til í lögum. En eins og kunnugt er, þá eru til l. um varðskip ríkisins, frá 1935, þar sem eru sérstök ákvæði um björgunarlaun, sem eru þó í flestum tilfellum eins nema að því, er snertir skipstjóra.

Svo er það loks, ef um björgunarskip er að ræða, þar sem skipshöfnin er beint ráðin til þess starfa með ákveðnum launum. Slík skip höfum við nú að vísu ekki, en það er altítt erlendis, að til séu heil félög, sem gera út slík björgunarskip. Þetta eru aðalbreyt., sem lagt er til með þessu frv., að gerðar verði.

Ég taldi rétt, að þetta frv. kæmi fram nú á þessu þingi, og ég tel mjög æskilegt, að það gæti fengið afgreiðslu nú, vegna þess að það hafa risið deilur um það, hvernig skipta beri björgunarlaunum, og þá einkum, þegar um fiskiskip er að ræða. Í gömlu l. er skiptingin miðuð við kaupgjald, en á fiskiskipum eru sumpart hlutaskipti, en sumpart fast kaup. Þetta frv. er því flutt til þess að varna ágreiningi, enda er full þörf á að samræma þetta, og mér þætti því mjög æskilegt, að Alþ. gæti afgreitt þetta mál nú á þessu þingi. Þótt siglingal. sjálf séu alþjóðleg, þá raskar þetta þeim á engan hátt, því að hver þjóð getur vitanlega haft sín eigin ákvæði um það, hvernig hún skiptir björgunarlaunum milli þegna sinna. Að lokum vil ég leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til sjútvn. að þessari umr. lokinni.