15.11.1943
Neðri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (2722)

144. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Það er nú engin ný bóla, þótt hér á Alþ. sé rætt um mjólk. Þó kom í ljós af ræðu hv. V.-Sk., að hann einn þykist vita allt, sem þarf að vita um þetta mál, en allt, sem aðrir leggja til þeirra mála, sé tóm vitleysa, og er þetta að vísu atriði, sem við hér í d. erum búnir að venjast, allt frá því að þetta mjólkurskipulag hófst.

Ég mun víkja fyrst að því, sem þessi hv. þm. að vísu endaði mál sitt á, en það var, að röksemdir mínar og annarra flm. till. þeirrar, sem hér um ræðir, stangist svo á, að annan daginn væri málflutningur okkar árásir og illgirni gegn skipulagi mjólkurmálanna, en hinn daginn ótakmarkaðar traustsyfirlýsingar. Þetta getur alls ekki átt við mig, því að ég hef ekki flutt neina árás á þennan hv. þm., svo að hann þarf ekki þess vegna að vera með neinar umkvartanir í þessum efnum. En hins vegar er ekki heldur rétt, að ég sé að sýna honum eða meðstjórnendum hans í mjólkursamsölunni neitt sérstakt oftraust í þessum efnum, vegna þess að ég reikna ekki með því, að við eigum að miða löggjöfina varðandi mjólkursölu héraða landsins við það, að þessir menn verði þarna alltaf við stjórn, og vona ég, að þeir verði þar ekki eilífir augnakarlar. En til þess að hægt verði að nota miklu meira af mjólk og öðrum vörum, sem úr henni eru unnar, þá tel ég einmitt undirstöðuatriðið, að hægt verði að koma á meiri friði um þessi mál en verið hefur fram til þessa. En út í það skal ég ekki fara nú. Það er því ekki út í bláinn, þar sem sagt er í grg. fyrir þessu frv., að um þetta mál hafi staðið þrálátar deilur, þótt þar með sé ekkert um það sagt, hverjum þær deilur séu sérstaklega að kenna, enda er það mál, sem liggur ekki fyrir varðandi þetta frv. Ég vil taka það fram, að ég hef ekki flutt neinar aðrar till. um mjólkurframleiðslu en þetta frv., en það er alveg augljóst mál, að til þess að unnt sé að koma því í kring að koma á mjólkurframleiðslu, svo að nokkru nemi, á þeim svæðum, sem við leggjum til, að bætt verði við, er undirstaðan sú, að menn á þessum svæðum fái tryggingu fyrir því hjá löggjafarvaldinu að þeir fái að njóta sama réttar og aðrir annars staðar á landinu.

Þess er að gæta, að nú er orðin breytt aðstaða, að því er þetta snertir, frá því, sem verið hefur. Að undanförnu hefur einn aðalþátturinn í deilum þeim, sem hér hafa staðið, verið viðvíkjandi verðdeilum, en því er þó ekki til að dreifa hér, vegna þess að verðið, sem bændur eiga að fá fyrir mjólk, er lögbundið, og lítum við flm. svo á, að í þessu felist mikil ósanngirni, sem sé, að þetta verð, sem er miðað við framleiðslukostnað, skuli eingöngu vera til hagsbóta fyrir nokkur héruð, en önnur útilokuð frá þeim á komandi árum. Til þess því að undirbúa, að hægt sé að koma því í kring, að þessi fjögur héruð, sem við leggjum til, að bætt verði við, geti hafið framleiðslu í þeim stíl, er hér um ræðir, þá er fyrsta skilyrðið það, að þau geti notið sama réttar og önnur héruð á landinu. Hitt er svo alveg rétt hjá hv. þm. V.-Sk., að þetta skilyrði er ekki fyrir hendi eins og nú stendur á, því að í viðkomandi héruðum eru ekki til fullnægjandi mjólkurbú. Og líkur eru ekki til þess, að bændur á þessum svæðum sjái sér fært að leggja út í að skapa sér aðstöðu í þessu sambandi, meðan þeir hafa ekki vissu fyrir því að fá að njóta sama réttar og aðrir landsmenn. Hins vegar er vegalengdin ekki meiri en fjögurra klst. leið frá fjarlægasta stað, sem hér um ræðir, en það er leiðin Blönduós-Borgarnes, og ef möguleiki væri á að taka við meiri mjólk hjá mjólkurbúinu í Borgarnesi, er það tækifæri, sem gæti komið til athugunar.

Þá skal ég ofurlítið víkja að því, sem hv. þm. V.-Sk. gerði mjög mikið úr og fjallaði um það, að í því fælist undarleg mótsögn af minni hálfu, að ég væri sannfærður um, að verra lægi í þessum málum hér sunnan lands en norðan, en vildi samt senda mjólkina hingað suður í stað þess að senda hana í næstu mjólkurstöð, 40–50 km leið. Þessu er því til að svara, að þegar hann talar um mótsögn í þessum efnum, stafar það eingöngu af athugunarleysi, því að það er algengt á vetrum, að meginhluti leiðarinnar frá Húnavatnssýslu er fær til Borgarness, þó að ófært sé frá Sauðárkrók, af þeirri ástæðu, að Holtavörðuheiði er oft fær, þó að Vatnsskarð sé ófært, og er þetta atriði, sem liggur undir athugun, hvort menn vilja skipta Húnavatnssýslu um Blöndu, þannig að austurhlutinn fylgi Norðurlandi, en vesturhlutinn Suðurlandi. En það, sem annars gerir það að verkum, að öll þessi sýsla ætti að fylgja Suðurlandi, er, að flutningaleiðin þaðan er betri suður en norður og austur. Áður en hafizt er handa á þessu, er þó aðalatriðið að fá tryggingu fyrir því með þessu frv., að þessi héruð fái að njóta sömu réttinda og önnur þau, er nú stunda mjólkursölu á verðjöfnunarsvæðinu. Svo er eitt atriði í þessu sambandi, sem ég tel mjög athugunarvert og kom það fram í ræðu hv. þm. V.-Sk. Hann vildi halda því fram, að ekkert væri því til fyrirstöðu, að við í þessum héruðum, er hér um ræðir, gætum framleitt smjör og selt það á markaði hér, og þess vegna þyrftum við ekki að kvarta. Ég vil spyrja hann að því, hvort honum mundi finnast það girnilegt fyrir þau héruð, sem hann hefur stjórn yfir sunnanlands, ef ekki væri byggt á neinu nema smásölu og ekki nein verðjöfnun að öðru leyti, heldur yrðu að búa eingöngu við það að fá fyrir vörur sínar það, sem hægt er að selja vinnsluvörur fyrir. Þess vegna eru þessar röksemdir hans um það, að engra breytinga sé þörf, vegna þess að við getum selt smjör og ost, augljós sönnun þess, að hann vill ekki leyfa þeim, sem búa í umræddum héruðum, að njóta sömu réttinda og þeir, sem búa sunnan lands eða í nágrenni Reykjavíkur.

Að öðru leyti held ég, að ekki sé ástæða að fara um þetta fleiri orðum, því að það, sem fram kom í ræðu hv. þm. V.-Sk. að öðru leyti, var ekkert nema þessi venjulegi skætingur, sem ekki er ástæða til að svara.