15.11.1943
Neðri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

144. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Ég hélt nú satt að segja, að hv. þm. A.-Húnv. hefði það mikinn skilning á sjálfum sér og sinni framkomu, að það eru aðrir, sem ferst betur að tala um skæting hjá mönnum en honum, en það er misjafnt, hvað sjálfsvirðing manna nær, og er auðvitað ekkert við því að segja. Hann segist engar árásir hafa flutt hér gegn mér, en mikið má nú minnisleysi hans vera, ef hann man það ekki, að í hvert skipti, sem mjólkurmálið hefur komið til umr. hér á Alþ., þá hefur ekkert komið frá honum nema skætingur einn, og munu þingtíðindin bera þess vitni.

Hv. þm. A.-Húnv. segir, að það sé misskilningur, að við hinir sömu verðum alltaf í stjórn. En eftir öllum líkindum að dæma verðum við í stjórn þetta ár, og ætli hann að bíða eftir stjórnarbreyt., þá verður hann sennil. að bíða eitt þing enn. — Þá finnst mér það óviðkunnanlegt, að þessi maður skuli bera það fram, að friðurinn sé undirstaða, sem allt byggist á, þessi líka friðarpostuli, sem hefur nú valið þann kostinn að fylla flokk þeirra, sem ætíð efla ófrið. Han ætti að minnsta kosti að reyna, áður en hann talar meira um frið, að gera sér grein fyrir, að réttur skilningur á málunum er fyrsta skilyrðið til friðar. Og þá er það nauðsynlegt að verða ekki tvísaga, en það hefur því miður hent þennan ágæta mann. Annars vegar segir hann, að mjólkin hér í Reykjavík sé slæm, af því að verðlagssvæðið sé of stórt og flutningar of langir, en hins vegar leggur hann til, að verðlagssvæðin séu stækkuð stórlega. Ég vil ekki nota stór orð í þessu sambandi, en það getur ekki farið hjá því, að mér kemur einatt í hug dómur, sem ein tegund manna fékk. „Vei yður, þér hræsnarar“.

Þá segir hv. þm. A.-Húnv., að verðlagið sé aðalatriðið. Þetta er ekki rétt, eins og skýrslur hafa sýnt, er hér hafa verið lagðar fram. Verðið hefur aldrei verið verulegt ágreiningsatriði.

Í grg. frv. segir: „Þeir bændur, sem fjær búa og útilokaðir hafa verið frá að njóta þeirra hlunninda, sem þessi einkasölu- og verðjöfnunarlög hafa skapað þeim sveitum, er þau eru sett fyrir, munu flestir hafa litið svo á, að þeim gæfist ekki svo fljótt færi á að rjúfa hringinn og komast sjálfir með sína framleiðslu á hinn lokaða markað“.

Ég held, að það sé alveg nýtt, ef þessir þm. telja það hlunnindi fyrir bændur að hafa þessa stjórn og þetta verðlag, og grun hef ég um, að annar þeirra hafi haft í smíðum till. um að afnema þetta skipulag. En nú lætur hann sem hann vilji koma kjósendum sínum undir þetta ok. Þetta mundi undra mig, ef ég væri ekki orðinn kunnugur framkomu þessara manna.

Mótsögnum þeim, er hér hafa komið fram, og öllum málaflutningi þessara manna þykir mér helzt mega líkja við það, sem útbreiðslumálaráðherra Þýzkalands sagði eitt sinn: „Það skiptir ekki máli, hvort það er satt, aðeins ef það kemur að gagni“. — En ég vænti, að hér séu fleiri menn, sem hafa hugarfar Ara fróða og hugsi, að það skuli hafa í hverju máli, er réttara reynist. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér upp úr grg.: „Aðallega hafa komið til greina í þessu sambandi Reykjavík og Hafnarfjörður sunnan lands og Akureyri norðan lands. Jafnframt þessari einkasöluaðstöðu tryggja lögin verðjöfnun til hagsbóta fyrir þá, sem fjær búa, en á kostnað hinna, sem næstir eru sölustað“.

Lögin hafa miðað að því að skapa jafnrétti meðal framleiðenda. Áður var það svo, að þeir, sem nær voru sölustað, fengu hærra verð. En það eina, sem er jafnrétti í þessu máli, er, að sama verð fáist fyrir sömu vöru á sama stað.

Það er mesti misskilningur, að þessi mjólkursölulög séu hagsmunamál sveitanna. Það er allra hagur, að framleiðslan sé sem fullkomnust, og bændur hafa orðið þess varir, að þeir hafa orðið að leggja á sjálfa sig til að byggja mjólkurbúin. En þeim mun ekki finnast eðlilegt, að þeir, sem viljað hafa vinna samtökum þeirra allt ógagn, uppskeri nú árangur af starfi þeirra. Ég efast um, að margir framleiðendur innan núverandi verðlagssvæða kæri sig um, að þau verði stækkuð á þennan hátt. Og samkvæmt þeirri venju, að bændur reisi sjálfir sín mjólkurbú, þá er Sauðárkrókur hinn rétti staður til slíkra hluta fyrir Austur-Húnavatnssýslu. Við vitum, hvaða erfiðleikum það er bundið fyrir Borgnesinga að stunda mjólkursölu til Reykjavíkur, enda þótt sú mjólk hafi ekki komið norðan yfir Holtavörðuheiði. Annars liggur það eðlilega fyrir til athugunar, hvort ný verðlagssvæði og verðjöfnun geta ekki komið til greina, þegar samgöngur og flutningar komast í betra horf. En eins og sakir standa, tel ég það fráleitt að bæta inn á svæðin heilum héruðum.

Þá spurði hv. þm. A.-Húnv., hvort mér fyndist það réttlátt, að bændur úr sumum héruðum yrðu eingöngu að byggja á smjörsölu og engin verðjöfnun kæmi þar til greina. En þetta er það, sem við urðum einnig að gera, áður en við reistum okkar mjólkurbú. En það er vitanlega mikil og ánægjuleg framför að framleiða smjörið í mjólkurbúum, en ekki í heimahúsum og bjarga þannig 2/3 af verði þess úr höndum milliliða. En þetta er að þakka því skipulagi, sem þessir menn hafa alla tíð barizt á móti og reyna að eyðileggja á allan hátt. Og loks er það þýðingarlaust að samþykkja þetta frv., þar eð víst má telja, að ekkert mjólkurbú mundi sjá sér fært að taka við mjólk af þessum svæðum.