16.11.1943
Neðri deild: 47. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í C-deild Alþingistíðinda. (2729)

144. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Flm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Þetta frv., sem nú er hér til 1. umr., er tiltölulega einfalt mál og hefði ekki átt að kosta miklar umr. í d., enda var sæmilega gerð grein fyrir því í grg., en það fór eins og áður, þegar minnzt er á mjólk í þessari d., að þá æsast þeir upp hv. þm. V.-Sk. og hv. 2. þm. N.-M., hafa allt á hornum sér og þjóta um allar landsins byggðir til að tala um ágæti sitt í framkvæmd sinni á þessu mjólkurmálasviði. Það leyndi sér ekki í ræðum þessara manna, að þeir ætla að reyna að koma í veg fyrir, að þeir menn, sem búa á því svæði, er með frv. á að bæta við verðjöfnunarsvæðið, verði aðnjótandi þeirra réttarbóta, sem ætla mætti, að af því gæti orðið, að þeir fengju aðstöðu til að selja mjólk á þeim markaði, sem til er beztur. Þessi barátta af þeirra hálfu er auðsjáanlega gerð í þeim tilgangi að viðhalda því einkaréttarskipulagi, sem á þessu er. Skal ég ekki langt út í það fara, því að ég gerði það í gær.

Hv. þm. V.-Sk. lagði á það megináherzlu, að það mundi af hálfu okkar flm. vera aðaltilgangurinn með þessu frv. að gera þeim óleik, sem nú selja mjólk á þessu verðjöfnunarsvæði, reyna að koma því til leiðar, að þetta skipulag eyðilegðist o. s. frv., því að eftir því sem hægt væri að koma að fleiri ágöllum á skipulagið, því hægara væri að koma því fyrir kattarnef, eins og hv. þm. orðaði það. Ég vil segja það um hv. meðflm. minn, hv. þm. Snæf., sem er einn af allra drengilegustu mönnum hér á þingi, að fyrir honum vakir ekkert nema að gera sínum kjósendum gagn, það er ég viss um. Varðandi sjálfan mig ætla ég ekki að fara mikið út í það, hvort ég flyt þetta frv. í illum eða góðum tilgangi, en ég verð að segja, að það er mér fullt svo gott, að hv. 2. þm. N.-M. og hv. þm. V.-Sk. haldi fram, að ég flytji frv. í illum tilgangi, vegna þess að ég hygg, að meiri hluti þjóðarinnar hafi fengið þá reynslu, að till. og tal þessara hv. þm. sé ærið oft í andstöðu við sannleikann.

Varðandi það, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, að ég hefði frá upphafi verið á móti mjólkurl. og gert allt, sem í mínu valdi hefði staðið hér á þingi til þess að koma þeim fyrir kattarnef og eyðileggja hagsmuni þeirra manna, sem af þeim hefðu gagn, þá er það eitt með öðru, sem sýnir, hvernig minnið svíkur þennan hv. þm., því að þegar mjólkurl. voru sett í upphafi, greiddi ég atkv. með þeim, og deilurnar, sem hafa um þau staðið frá upphafi, hafa ekki verið um, hvort l. ættu tilverurétt, heldur aðallega, hvernig framkvæmd þeirra væri.

Varðandi það, sem hann sagði, að hann. hefði nú í fyrsta sinn heyrt frá minni hálfu, að það væru einhverjir menn til, sem hefðu hlunnindi af þessum l., þá hef ég aldrei dregið það í efa, að ýmsar sveitir, sem eru fjarri Reykjavík og hefðu komizt undir þessi l., hefðu haft af þeim nokkur hlunnindi fram yfir það, sem aðrir hefðu. Hitt hefur orkað miklu meira tvímælis, hvað sveitirnar í nágrenni Reykjavíkur hefðu haft gott af þessari löggjöf. Þessi umsögn hv. þm. er því ekki mál, sem snertir mig að neinu leyti, vegna þess að það er ekki frá minni. hálfu nein ný viðurkenning á, að þessi l. geti haft í för með sér hlunnindi, og þess vegna vilji ég koma mínum kjósendum og annarra héraða, sem ég fer fram á að koma undir þessi l., í þá aðstöðu, að þeir geti notað þann markað, sem hér er um að ræða.

Hv. þm. talaði um, að þessir menn yrðu engu nær, þó að þetta frv. yrði samþ., vegna þess að þá vantaði mjólkurbú o. s. frv., en ég veit, að hann og aðrir hv. þm. skilja og vita, að það er ekki gert í einni svipan að breyta úr sauðfjárrækt, sem hefur verið aðalbúgreinin, og færa yfir í nautgriparækt. Til þess að það verði gert, er fyrsta skilyrðið, að þeir menn, sem hlut eiga að máli, hafi tryggingu fyrir því, að þeir fái að nota markaðinn með sarna rétti og aðrir, en þurfi ekki að vera útilokaðir eins og þeir eru nú samkvæmt þeim l., sem hér er farið fram á að breyta.

Þá sagði þessi hv. þm., að þessi héruð gætu auðveldlega byggt á smjörsölu og vinnslu og þyrftu ekki að vera upp á aðra komin eða komast undir verðjöfnunarákvæði þessara l. Ég vil ítreka það, sem ég veik að í ræðu minni í gær, að það hefur aldrei þótt aðgengilegt fyrir fjærsveitir Reykjavíkur, sem nú eru undir þessum l., að byggja eingöngu á smjörsölu og vinnslu, en fara á mis við þann hagnað, sem verðjöfnunin hefur í för með sér.

Þá kom þessi hv. þm. að atriði í ræðu sinni, sem ég finn ástæðu til að víkja aðeins að, þótt að sjálfsögðu verði tækifæri til að minnast síðar á það. Hann sagði, að það sýndi hug minn til þessara mála, að ég hefði tekið mig út úr og gengið í bandalag með fjandmönnum bændastéttarinnar um að hefja sakamálsrannsókn á hendur þeim bændum, sem hér eiga hlut að máli. Ég veit ekki vel, við hvað hann á, þegar hann er að tala um fjandmenn bændastéttarinnar, en ég býst við, eftir því sem skrif og orð hafa fallið frá honum, að þá séu það aðallega flokkar Alþýðuflokksmanna og sósíalista, sem hann velur þetta nafn. Ég verð að segja, þótt þessir menn hafi flutt ýmsar till., sem samrýmast ekki hag bænda, að það sé of mikið sagt, að þeir séu allir fjandmenn bænda. En þar sem ég á að hafa gengið í bandalag við þá, þá hlýtur það að vera á einhverjum misskilningi byggt hjá þessum hv. þm., því að það, sem hann virtist eiga við, var það, að tveir af fulltrúum þessara flokka hafa undirskrifað nál. ásamt mér út af till., sem flutt var af flokksmanni mínum hér á þingi. Það mætti frekar segja, að þeir hafi gengið í félagsskap við mig og hann en ég hafi gengið í bandalag við þá. En að hér sé um sakamálsrannsókn á bændastéttina að ræða, er fjarstæða ein. Það, sem hér er um að ræða, er það eitt að rannsaka framkvæmd þess fyrirtækis til þess að fá á þann hátt úr því skorið, á hvern hátt er hægt að koma þar á endurbótum og lægja þá óánægju, sem verið hefur á þessu sviði.

Ég skal svo ekki fara miklu lengra út í þetta, en aðeins víkja að því, að hv. þm. V.-Sk. talaði mikið í gær um fals og hræsni, ósannindi og ófrið. Hann virtist telja, að ég og meðflm. minn hefðum gert okkur seka um það, sem hann kallaði þessum nöfnum. Ég gæti talið upp nokkur dæmi þess, hvernig sannleiksást hans kom fram í síðustu ræðu hans. Hann segir, að ég hafi alltaf verið á móti mjólkurl., sem ég greiddi þó atkv. með, og hann sagði, að verðjöfnunin hefði aldrei verið framkvæmd á kostnað þeirra, sem nær búa sölustað, heldur á kostnað þeirra, sem fjær búa, og þeim til hagræðis, sem nær búa. Hann segir, að það séu 300 km úr Austur-Húnavatnssýslu í Borgarnes. Það eru ekki nema 160 km úr miðri sýslunni, svo að það munar um helming, svo að allt þetta og margt fleira sýnir glöggt, hvernig sú sannleiksást, sem hann talar svo mikið um, speglast í framkomu hans. Ég verð að segja, að þegar þessi hv. þm. talar um fals, hræsni, ósannindi og ófrið, þá held ég, að það láti í eyrum kunnugra manna á svipaðan veg og ef þrástagazt væri á orðinu „snöru“ í húsi þess manns, sem nýbúinn væri að hengja sig.