22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (2736)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég ætla ekki út í efnisumræður um þetta mál. Það hefur verið rætt hér ýtarlega áður, einnig þau ummæli, sem komu fram um verðákvæði dómnefndar í verðlagsmálum, svo að ég sé ekki ástæðu til að fara út í það.

Ég skal taka það fram, að það, sem tekið er fram í 2. lið þáltill., um að „undirbúa í samráði við milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum og leggja fyrir Alþingi það, er nú situr, löggjöf og tillögur um olíuverzlunina, er tryggi það, að notendur fái olíu og benzín með sannvirði“, mun vera áður samþ. samkv. annarri till. á þessu þingi, en það sakar ekki, þótt þetta sé tekið fram. Um fyrri tölul. gildir öðru máli. Þar er skorað á stj. „að láta fara fram opinbera rannsókn á bókum og skjölum olíufélaganna í þeim tilgangi að ganga úr skugga um, hvort skýrslur þær, sem þau hafa gefið viðskiptaráði um rekstur sinn og verðlag á olíu og benzíni, fái staðizt og hvort skattaframtöl þeirra hafi verið rétt“. Með þessari opinberu rannsókn skilst mér, að verið sé að skora á stj. að hefja sakamálsrannsókn gegn félögunum eða forráðamönnum þeirra. Ég veit ekki, hvort flm. hafa gert sér grein fyrir, hvað í þessu felst, og ef slíkt verður gert, verður það algert einsdæmi, að slík till.samþ., án þess að hún fari til n. Ég álít, að slíkt nái ekki nokkurri átt. Ef á að fyrirskipa sakamálsrannsókn, verður að byrja á því að rökstyðja grun um glæpsamlegt athæfi, og ef sá grunur hefur verið rökstuddur, er skylt að láta slíka rannsókn fara fram. Ég veit ekki, hvort ráðh. telur, að fyrir liggi grunur um slíkt, en ef svo er, ætti hann þegar að vera búinn að láta hefja opinbera rannsókn.

Ég skal geta þess, að viðskiptaráð hefur algerlega í hendi sér að fá allar þær upplýsingar, sem það þarfnast. Í 2. gr. viðskiptalaganna segir svo: „Þeir, sem með verðlagseftirlit fara samkvæmt lögum þessum, geta krafið hvern, sem er, allra þeirra upplýsinga, skýrslna og annarra gagna, er þeir telja nauðsynlegt í starfi sínu.“ — Og ef þeir gefa rangar upplýsingar, varðar það refsingu samkvæmt ákvæðum hinna almennu hegningarlaga.

Ég ætla ekki að efni til að ræða þetta mál, en vil benda á, að viðskiptaráð og skattanefndir hafa í hendi sér að fá þessar upplýsingar, og ef um glæpsamlegt athæfi er að ræða, er það ekki þingsins heldur stj. að hefja opinbera rannsókn. Ég held, að það sé einsdæmi, ef þingið ætlar sér að skipa stj. að hefja slíka rannsókn. Hæstv. ráðh. tók fram, að ekki mætti skoða ræðu sína sem mótmæli gegn ummælum hv. þm. Ísaf., og ef til vill telur hann það skyldu sína að láta fara fram sakamálsrannsókn, en hvað sem því líður, er hér áreiðanlega um mál að ræða, sem ekki má fara gegnum þingið, án þess að það fari fyrst til allshn.