15.11.1943
Neðri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (2743)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Áki Jakobsson:

Í mþn. var ekki samkomulag um þetta atriði, hvort rétt væri að halda embætti skattadómara eða ekki. Hann mun ekki hafa fengið nema ein tvö mál til meðferðar, og má segja, að árangur af embættisstofnuninni sé enginn og geti lítill orðið, eins og í haginn er nú búið. Ég held, að réttast væri að fella embættið niður. Það væri að vísu umbót, sem hv. 2. þm. S.-M. og tveir aðrir þm. fara fram á, að gera skattadómara skylt að taka upp mál, en hitt er áhrifameira að fjölga heldur skattstjórum. Það mun verða athugað í n., hvort fella eigi skattadómarastarfið niður. En mér er ekki kunnugt um, hver þar er afstaða einstakra nefndarmanna.