22.10.1943
Neðri deild: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2755)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Garðar Þorsteinsson:

Eftir þessari síðustu ræðu hv. 2. þm. Reykv. mætti ætla, að sakamálsrannsókninni ætti að beina gegn mér. Hann er búinn að hringla úr einu máli í annað, eins og þessi till. sé að gera hann alveg hringavitlausan. Ég vil beina því til meðnm. minna í allshn., þar á meðal flokksbróður hv. 8. þm. Reykv., hvort þeir hafi rekið sig á, að n. brygðist skyldu sinni að athuga og afgreiða mál, af því að ég stingi þeim undir stól. Málið um eignarnám kvikmyndahúsanna hefur þar verið rætt og er í athugun. Þm. vildi gera mig tortryggilegan í sambandi við þetta mál, ég vildi ná því í allshn. til að svæfa það. Málið á að vera í þeirri n. (EOl: Sjútvn. kemur það líklega ekkert við?) Vitanlega treysti ég mér betur en formanni sjútvn. til að fjalla um þetta mál. (FJ: Málið hefur tvisvar verið athugað í sjútvn. og n. verið alveg sammála ríkisstj.). Málið er mjög einstætt, og ég hef ekki þekkt það, að stórmál, sem slíkur ágreiningur er um, mættu ekki fara til n. Ef það sýndi sig síðar, að ekki hefði verið grundvöllur til að hefja opinbera rannsókn í þessu máli, væri slík framkoma Alþingis óverjandi að láta nú þegar leiða forstjórana fyrir sakadómara. Það væri blettur á þinginu. Ég vil endurtaka þau tilmæli, að forseti, sem í þessu tilfelli er varaforseti og hefur áður á fundinum frestað máli vegna þess, að þm. eru fjarverandi, — að hann fresti þessu máli, þangað til d. er fullskipuð.