06.09.1943
Efri deild: 11. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

30. mál, einkasala á tóbaki

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vil gera grein fyrir afstöðu minni í n. Þarf ég í rauninni ekki að fara mörgum orðum um það, vegna þess að afstaða mín hefur komið fram í því, sem ég sagði um málið við 1. umr.

Í fyrsta lagi get ég með engu móti fallizt á að samþ. frv., sem hefur í för með sér verulega hækkun á tóbaki og þar með hækkun á dýrtíðinni í landinu, án þess að mér sé ljóst, hvort nokkur nauðsyn ber til fyrir ríkissjóð að fá þennan tekjuauka og án þess að hafa nokkra hugmynd um, til hvers fénu verður varið. Í öðru lagi tel ég, að yfirlýsing hæstv. ríkisstj., sem að vísu er mikill vinningur fyrir þingið að fá, sé ekki fullnægjandi að því leyti til, að það er sýnilega gert ráð fyrir í þessari yfirlýsingu, að þingið verði ekki spurt um álit sitt á ráðstöfun fjárins í frv.formi og yfirleitt ekki í því formi, að lagt verði fyrir þingið neitt plagg, frv. eða þáltill., heldur aðeins talað við þm. og á þann hátt gengið úr skugga um álit þeirra, en að öðru leyti telji hæstv. stj. sig hafa lagalega heimild til að nota þetta fé, ef hún aðeins lýsir yfir, að hún muni ráðgast við þm., áður en hún notar þessa lagalegu heimild, sem hún telur sig hafa. Ég álít, að stj. hafi enga slíka lagalega heimild, en mér er kunnugt um, að aðrir álíta, að hún hafi hana, og ég tel fullvíst, að hæstv. stj. sjálf með þeim lögfræðingum, sem í henni eru, telji þessa heimild fyrir hendi. Á þann skilning vil ég með engu móti fallast. Mér virðist, ef þingið lætur sér þetta nægja, að þá sé það yfirlýsing um, að það sætti sig við, að löggjöf, sem það lét frá sér fara í vor, sé túlkuð þannig, að þar sé ótakmörkuð heimild til að verja fé til að lækka vöruverð.