24.11.1943
Neðri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (2765)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þskj. 505 ásamt hv. 2. þm. Skagf. En till. er um það, hversu viðhald fasteigna skuli ákveðið.

Hin síðustu ár hefur reyndin verið sú, að viðhald fasteigna í landinu hefur verið mjög lítið. Þær hafa yfirleitt drabbazt niður, en menn hafa orðið að greiða skatt af því fé, sem samkv. 10. gr. skattal. er ætlað til viðhalds og eðlilega hefði þurft til viðhalds.

Þessi till. hefði eðlilega átt að vera fyrr fram komin, en við hugðum, að betra væri seint en aldrei, og væntum, að hún verði tekin til greina.