11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (2777)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Frsm. 2. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi að tala hér langt mál um þetta atriði. Það varðar vitanlega mestu fyrir framtíðina, að sú skipan komist á þessi mál, að landsmenn fái þessa vöru með sanngjörnu verði og sölu- og dreifingarskipulagið verði því gert sem hagkvæmast. Mér sýnist og þegar votta fyrir þessu, ef það frv. verður að l., sem var hér til umr. næst á undan þessari till.

En þótt betri skipan komist á í þessum efnum, þá er vitanlega ekki hægt að ganga svo frá málinu, að ekkert frekar sé að gert. Eftir þeim upplýsingum og erindi, sem þinginu hefur borizt, þá varðar það ekki einvörðungu sölufyrirkomulag á olíunni í framtíðinni. Það verður einnig að stuðla að ýtarlegri rannsókn á því, hvernig salan hefur farið fram á undanförnum árum, og að því lýtur mín till., þótt hún feli í sér nokkra breyt. frá hinni upphaflegu till., og mun ég víkja að því nánar.

Ég hafði því miður ekki tækifæri til að vera viðstaddur fyrri hlutann af þessari umr., en mér hefur verið sagt af því, sem gerzt hefur hér. M. a. hefur mér verið skýrt frá þeim ummælum hv. dómsmrh., að út frá orðalagi upphaflegu till. hafi honum skilizt, að heimtuð væri réttarrannsókn, ef þessi þáltill. yrði samþ., og ætla ég, að flestir muni taka þetta þannig. Þar er talað um „opinbera rannsókn“, og mun ekki vera átt við annað en sakamálsrannsókn. Einmitt fyrir þetta orðalag get ég ekki á till. fallizt, þótt upplýsingar bendi ótvírætt til, að salan hafi ekki verið eins og hún átti að vera. Þó eru ekki nægilegar upplýsingar fyrir hendi, til þess að Alþ. geti skipað sakamálsrannsókn. Það tel ég ekki í þess verkahring eftir þeim reglum og réttarvenjum, sem hér hafa gilt. Það gera aðrir aðilar. Ég tel, að þingið eigi að halda nokkuð fast við venjur sínar, ekki sízt í þessum efnum. Það á ekki að gera sér leik að því að hafa ekki þær reglur í heiðri, sem þjóðfélagið byggist á. Ef þingið fer að tíðka að fyrirskipa sakamálsrannsóknir, þá gæti þótt vel við eiga, að það færi að taka að sér uppkvaðningu dóma yfir sakborningum, og er þá komið út á hála braut, ef hið pólitíska vald tekur ákæruvaldið í sínar hendur. Þá er þess skammt að bíða, að það taki einnig dómsvaldið í sínar hendur, og þá er orðið lítið réttaröryggi fyrir borgarana í landinu. Frá þessu sjónarmiði hef ég gert brtt. mína.

Frsm. fyrsta minni hl. allshn. andmælti henni, og það tel ég furðulegt eftir þeim rökum, sem hann bar fram. Í meginmáli er mín till. fyllri en upphaflega till. og sýnir betur, hver ætlunin er. Ég hefði talið, að hún væri betri að þessu leyti. Maður skyldi því ætla, að hv. frsm. fyrsta minni hl. hefði tekið till. minni fegins hendi, þar eð hann vill skilja upphaflegu till. svo, að sakamálsrannsókn sé fyrirskipuð, en mín till. tekur af öll tvímæli um það með skýru orðalagi. En það gerði hann ekki, heldur andmælti hann henni, þótt hann gæti það ekki með neinum rökum. Mér er óskiljanlegt, í hvaða skyni hann gerir þetta, því að ekki dettur mér í hug, að hann vilji ekki láta fara fram fyllstu rannsókn og athugun í þessu máli. Ef hv. þm. treystir ríkisstj. ekki til að standa fyrir þessu máli, þá er þó enn síðri ástæða til þess, ef till. er ófullkomin. Ég staðhæfi, að mín till. er betri og skýrari. Í henni er lagt á vald ríkisstj. að láta fram fara sakamálsrannsókn að undangenginni almennri rannsókn í málinu, ef ekki þykja fást nógu greinilegar upplýsingar eða fengnar upplýsingar gefa tilefni til. Þetta er þannig lagt á vald hennar, og samkvæmt réttaröryggi okkar er þetta hin eina forsvaranlega leið.

Hv. frsm. sagði í ræðu sinni: „Till. hv. 1. þm. Árn. er skyld aðaltill. og ekki frábrugðin henni í verulegum atriðum, en það er óþarft að samþ. hana“. Hv. frsm. viðurkenndi einnig, að mín till. væri ýtarlegri, og er ég honum sammála um það. Í fyrsta lagi fyrirskipar hún ekki sakamálsrannsókn í byrjun. Í öðru lagi er hún ýtarlegri um það, hvað rannsaka skuli og hvenær byrjað skuli á því. Þetta er það, sem skiptir máli. Eftir skoðun hv. frsm. fyrsta minni hl. virðist það þá bera á milli minnar till. og upphaflegu till., að mín sé ýtarlegri. Enginn skyldi nú halda, að honum væri það á móti skapi. Hann vill sannarlega vera skeleggur, eftir orðum hans að dæma, og mér finnst hann vilja halda fram, að hann vilji ganga skör lengra en ég. En þetta er bara þveröfugt, þar sem ekki er fyrirskipuð sakamálsrannsókn eftir orðalagi upphaflegu till. En er nokkuð betra, að eitthvað sé á huldu um þetta. Mín till. er skýr og ótvíræð og gerir opinskátt ráð fyrir sakamálsrannsókn, ef þörf gerist.

Ég vil nú skora á hv. frsm. fyrsta minni hl., fyrst það er svona, að víð erum raunverulega sammála, að hann fallist nú á till. mína, — það hlýtur að vera útlátalaust fyrir hann. Við erum sammála um nauðsyn málsins. Það er opinbert þingmál og þarf ýtarlegrar rannsóknar, sem Alþ. á að gefa bendingar um. Ég get líka gert mér í hugarlund, að hæstv. ríkisstj. gefi lítið fyrir að fá þetta óákveðið frá þinginu, en vilji vita, hvað fyrir hv. d. vakir með samþ. þessarar till. Frá mínu sjónarmiði ætti það vel við, að fyrsti og annar minni hl. féllust í faðma. Það væri góð lausn og samkv. upprunalegu till. það eina, sem samboðið er þinginu.