11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (2782)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég get verið fáorður, því að þetta mál hefur þegar verið rætt svo mikið, að þar er í rauninni ekki miklu við að bæta.

Kjarni þessa máls er sá, að mönnum er nú orðið það ljóst, að olíusölumálunum er nú þannig háttað, að ekki verði hjá því komizt að ráða bót þar á, svo að viðunandi verði. Um samkeppni er hér ekki að ræða, heldur eru það örfá erlend félög, sem hafa hér með höndum sölu og dreifingu olíunnar. Úr því að það er nú svo, að hráolían kostar ekki nema 19½ eyri lítrinn, kominn hingað til landsins, en kostar hins vegar 42 aura í útsölu hér í Reykjavík, 48 aura uppi á Akranesi og 51 eyri í Vestmannaeyjum, þá er það ekki óeðlilegt, þótt fram komi raddir um það frá sjómönnum, útgerðarmönnum og umboðsmönnum þeirra, hvort ekki væri hægt að útvega þeim þessa vöru með lægra verði, — en þetta verð gilti, áður en verðlagsyfirvöldin tóku málið í sínar hendur. Þetta eru aðalástæðurnar til þess, að þessi þáltill., sem ég er meðflm. að, var borin hér fram.

Það, sem þessi þáltill. miðar að, er einkum tvennt: í fyrsta lagi, að hafin verði rannsókn á rekstri olíufélaganna, og í öðru lagi, að hafizt verði handa um athugun á framtíðarfyrirkomulagi þessara mála.

Það hefur komið fram hér í hv. d. og víðar, að mönnum þykir einkennilegt, að yfirlýsing olíufélaganna skuli ekki vera tekin sem góð og gild vara, og því hefur verið haldið fram, að plöggin lægju á borðinu og þyrfti því ekki frekari rannsóknar við. Ég þarf ekki að ræða þessa skýrslu, en mér finnst, að margt í henni gefi ástæðu til þess að efast um, að það sé farið rétt með allt þar af hálfu olíufélaganna, enda er farið mjög einkennilega með þetta mál. Ég hef sérstaka ástæðu til þess að efast um, að allt sé rétt í skýrslu þeirra, því að í sögu olíuverzlunarinnar hér á Íslandi eru til glögg dæmi þess, að verðákvarðanir olíufélaganna hafa ekki alltaf miðazt við það, hvað þeim væri nauðsynlegt að fá fyrir vöruna, til þess að reksturinn bæri sig. Þau hafa stundum hækkað verðið vegna þess, að þeim hefur ekki þótt gróði sinn nógu mikill, en ekki vegna þess, að þau hafi séð fram á, að tap yrði á rekstrinum. Ég skal þó ekki álasa þeim svo mjög, það er mannlegt að vilja hagnast sem mest, en ég ætla að segja hér frá því, sem mér er kunnugt um, að gerðist, er olíusamlag Vestmannaeyja var stofnað árið 1936. Þá höfðu olíufélögin nýlega boðað 20% hækkun á hráolíu, en þegar olíusamlagið tók að flytja inn hráolíu og selja hana, þá lækkaði það verðið um 20%. En nú skyldu menn ætla, að olíufélögin, sem höfðu boðað 20% hækkun, mundu halda áfram í þá átt, en svo varð ekki. Þegar þau sáu þessa samkeppni, þá lækkuðu þau einnig verðið um 20% í stað þess að framkvæma þá hækkun, sem þau höfðu boðað. Og það bar ekki á öðru en þau hefðu efni á því að halda þannig áfram. Það, sem þarna gerðist með stofnun olíusamlags Vestmannaeyja, var það, að vísir til samkeppni hafði skapazt, og það olli því, að hráolíuverðið lækkaði um 20%. Ég nefni þetta dæmi til þess að sýna, að það sé rétt að fara varlega í það að taka trúanlegar þær skýrslur olíufélaganna, sem lagðar eru hér fram og teknar sem góð og gild vara af sumum þeim, sem mestu ráða á Alþ.

Varðandi hitt atriðið, sem þáltill. okkar felur í sér, skal ég ekki segja mikið. Hæstv. ríkisstj. hefur þegar lagt fram frv., sem ég álít, að stefni í rétta átt, þótt ég telji, að nokkur vandkvæði verði á því að framkvæma það, eins og sakir standa. En ég tel rétt að gefa útgerðarmönnum tækifæri til þess að stofna sín eigin olíusamlög til þess að tryggja sér vöruna með sem lægstu verði. Um brtt. þær, sem fyrir liggja frá 2. og 3. minni hl., verð ég að segja það, að ég tel, að hinni upphaflegu till. sé ekki spillt né dregið úr tilgangi hennar með brtt. hv. 2. minni hl., því að með henni er eingöngu fellt niður það ákvæði, að þegar skuli hafin opinber rannsókn. Ég hygg, að með tilliti til yfirlýsingar hæstv. dómsmrh., þá ætti till. hv. 2. minni hl. að nægja. Hæstv. dómsmrh. lýsti yfir því, að sér virtist ekki vera ástæða til þess að hefja opinbera rannsókn á þessu stigi málsins. Hins vegar er það vitað, að málið er nú undir rannsókn viðskiptaráðs, og það liggur auðvitað opið fyrir að hefja opinbera rannsókn, ef þessi rannsókn leiðir í ljós ástæðu til þess. Ég tel því þáltill. ekki spillt með brtt. hv. 2. minni hl. Það má líka segja, að það sé nokkuð hvatvalegt að fyrirskipa þegar opinbera rannsókn án þess að fá fyrst vissu fyrir því, að grundvöllur fyrir henni sé fenginn. Ég er með þessu á engan hátt að draga úr því, sem ég stend að í þáltill., að rannsóknar sé þörf og sérstök nauðsyn sé á að gera umbætur í þessum efnum. En það er ekki rétt hjá hv. 6. landsk., að með till. hv. 2. minni hl. sé verið að drepa málinu á dreif. Það eru allar dyr opnar til þess að halda rannsókninni áfram, og opinber rannsókn getur engu síður farið fram, hvenær sem sú rannsókn, sem nú stendur yfir, leiðir í ljós, að hennar sé þörf.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta atriði, en annað það, sem vakti fyrir mér með þessari þáltill., var að fá umr. um þessi mál, og að eitthvað yrði gert, vegna þess að það er alveg óviðunandi það ástand, sem nú ríkir, að hlutur sjómanna skuli vera að verulegu leyti undir því kominn, hvaða olíuverð er á hverjum tíma. Það er því með öllu óviðeigandi að láta mörg ár líða, án þess að hafizt sé handa um athugun á því, hvað gera þurfi til úrbóta í þessum efnum, og ég tel, að hæstv. ríkisstj. hafi farið inn á rétta braut með frv. sínu, sem ég gat um áðan, en ég tel, að meðan stríðið stendur, séu litlir möguleikar á því að koma slíkri skipan á. Þegar hernaðaryfirvöldin ráða svo mjög yfir öllum viðskiptum, þá er mjög erfitt fyrir menn að fá fram nýjar breytingar, en það, sem áunnizt hefur fyrir sjómenn, er það, að þegar er hægt að hefjast handa um undirbúning nýrrar framtíðarskipunar á þessum málum, sem er svo mjög áríðandi fyrir þá, að verði rétt og vel skilin.