11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Í ræðu minni lagði ég nokkuð þunga áherzlu á það, hvað það væri, sem þessi hv. þm. í 2. minni hl. og hinir í 3. minni hl. óttuðust sérstaklega við þá rannsókn, sem hér er farið fram á um þetta mál. Hv. 1. þm. Árn. svaraði þessu á þá leið að snúa sér að mér og segja, að það hefði verið ég, sem hefði átt að spyrja um það, hvað væri að óttast við það, að rannsókn færi fram. Ég get ekki skilið, hvað hv. þm. meinar með þessu. Það, sem hér liggur fyrir, eins og öllum hv. þm. mun vera kunnugt um, er það, að ég ásamt þrem öðrum ber fram till. um opinbera rannsókn út af ákveðnu máli. Svo sem kunnugt er, hefur sú n., sem með þetta mál hefur fjallað, klofnað um till., og er flótti brostinn í liðið. Sumir eru á algerum flótta, en aðrir hlaupa á flótta til hálfs og vilja draga úr rannsókninni og komast hjá opinberri rannsókn, en vilja hálfopinbera eða aðeins lítilfjörlega rannsókn um málið vegna þeirrar rannsóknar, sem nú stendur yfir hjá verðlagsstjóra. Það er gefið mál, að þeir, sem vilja, að öll kurl komi til grafar í þessu máli, vilja hafa rannsókn eins víðtæka og frekast er unnt. Hinir, sem einhverju vilja leyna, vilja málamyndarannsókn. Mér þykir það undarlegt, að 1. þm. Árn. hélt því fram í ræðu sinni, að opinberrar rannsóknar væri ekki krafizt, og þegar ég spyr, hvaðan hann hafi það, þá segir hann, að einhver hafi upplýst það. (GÞ:

Hver er skilningur þm. á „opinberri rannsókn“? ) Ef spyrjandi vill vita, hvort ég á við sakamálsrannsókn, þá er því til að svara, að mér hefði ekki fundizt óeðlilegt, þótt ríkisstj. hefði þegar látið fara fram sakamálsrannsókn, og ég álít, að fullgildar ástæður séu fyrir hendi til slíkrar rannsóknar. — Hv. þm. leyfði sér að viðhafa þau orð, að ég væri með „hundalogik“ og væri erindreki olíufélaganna í þessu máli. Ég svara þessu ekki, en hér mun fara sem oftar, að sök bítur sekan. Aðalorsökin til þess, að ég krefst opinberrar rannsóknar í þessu máli, er sú, að ég vil ekki, að það takist að flækja það og tefja fremur en orðið er, svo sem siður er hér á Alþingi um mörg hin mestu nauðsynjamál.

Ég vil svo ekki verða valdur að því að draga þetta framar, en legg til, að fyrst verði látin fara fram rannsókn, og komi þá ekki allt í ljós, geti stj. látið fara fram sakamálsrannsókn.