24.11.1943
Neðri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (2788)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram um það, að fjmrh. hefði heimild til að skipa skattstjóra á þeim stöðum, sem hann teldi nauðsynlegt, að það mál hefur verið til athugunar í fjmrn. í nokkurn tíma og er nú komið svo langt, að ég geri jafnvel ráð fyrir, að innan nokkurra daga verði skipaðir skattstjórar á nokkrum stöðum úti á landi. — Nú hef ég tekið eftir, að í 1. gr. þessara l. er ekki gert ráð fyrir einum af þeim stöðum, þar sem fjmrn. telur sjálfsagt, að skattstjóri verði skipaður. Þessi staður er Vestmannaeyjar. Ég tel, að það sé engu síður nauðsynlegt, að skipaður sé skattstjóri þar en í Hafnarfirði, á Akureyri, Ísafirði og í Neskaupstað. Það er nú þegar fullkomin heimild til að skipa þessa skattstjóra, og ég tel, að ég hafi þá heimild í fullu gildi, þó að þetta frv. sé fram komið, meðan það er ekki samþ., svo að ég vænti, að það komi ekki flatt upp á menn, þó að skattstjóri verði samkvæmt núgildandi l. skipaður 1 Vestmannaeyjum. Ég teldi þess vegna rétt, að þessu frv. verði breytt í þann veg, að Vestmannaeyjar yrðu teknar upp í 1. gr. frv. sem einn af þeim stöðum, þar sem skattstjóri skuli vera.