11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (2790)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Þóroddur Guðmundsson:

Með því að ég var í allshn., þar sem þetta mál lá fyrir, þá vildi ég gera nokkrar athugasemdir.

Þetta mál þótti svo mikilsvert í fyrra, að þá sat Alþingi tímum saman á lokuðum fundi vegna þess, og reyndist þá fært að leysa það giftusamlega. En nú, þegar ríkisstj. hefur enn lagt þetta fyrir þingið, vegna þess að komið hafa fram mótsagnir í skýrslum olíufélaganna, þá segja menn, að hér sé verið að ofsækja olíufélögin. Hér á að leika sama leikinn og oft áður. Það á að reyna að svæfa málið. Ég minnist þess, að þegar þetta kom fyrst fyrir þingið, þá tók ég til máls og sagði m. a., að færi málið til allshn., yrðu haldnir um það nokkrir fundir, síðan yrðu forstjórar olíufélaganna boðaðir til viðtals og álit gert samkvæmt þeirra fyrirsögn. Einn þm. hneykslaðist mjög á þessum orðum mínum. En nú er svo komið, að þetta hefur allt gengið eftir.

Það er athyglisvert, hvernig framsóknarmenn haga sér í þessu máli. Þeir hjálpast til þess í upphafi að till. var ekki samþ., og þegar fulltrúar þeirra í n. skila áliti, þá er það ekkert nema til málamynda. Þetta er eftir öðru, sem maður á að venjast frá framsóknarmönnum, en þó virðist mér, að hér hafi þeir slegið öll sín fyrri met. Er þetta mál og meðferð þess lærdómsríkt fyrir þá, sem eru ekki því kunnugri störfum manna innan þessara veggja, þar sem mál, sem liggja alveg beint fyrir, eru þæfð og dregin á langinn. Það hefur verið reynt að hártoga hér á ýmsa lund, hvað „opinber rannsókn“ þýði. Ég get ekki fallizt á skýringu 4. þm. Reykv., en hins vegar sé ég ekki ástæðu til að blanda mér inn í þær deilur, þar eð þær eru til að flækja, en ekki skýra aðalatriði málsins. En eins og málinu er nú komið, er ég því meðmæltur, að látin verði fara fram sakamálsrannsókn.