24.11.1943
Neðri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (2791)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Hér er ekki um að ræða skattal. yfirleitt, heldur fyrirkomulag samkv. því frv., sem fjhn. flytur hér.

Almennt mun mega segja, að skattar og útsvör hér á landi séu orðin það há, að ekki sé hægt að sjá, hvað lengi gjaldendur geta undir þeim staðið, og a. m. k. kemur fljótlega í ljós, þegar einhverjir erfiðleikar mæta atvinnuvegunum, að upphæð þessara útgjalda verður ofvaxin öllum atvinnurekstri, og kemur það þá fram í stöðvun og atvinnuleysi fyrir þá, sem við atvinnufyrirtækin eru tengdir. Það má kannske segja, að nú liggi ekki fyrir að ræða um þessa hlið málanna, og skal ég því ekki fara lengra út í það, en þegar sú staðreynd blasir við, að skattstiginn og útsvarsstiginn eru jafnháir og þeir eru, þá er nauðsynlegt, að það sé tryggt, eftir því sem unnt er, að álagning þessara gjalda sé svo réttlátleg sem kostur er. Og mér skilst, að það, sem þetta frv. stefnir að, sé að bæta það veika kerfi, sem fyrir hendi er, til þess að skattálagning og skattheimta megi verða sem réttlátust.

Undanfarið hefur það verið svo og er enn þá, að ríkisskattan. er nokkurs konar hæstiréttur f deilumálum öllum, er varða skattálagningu og útsvör. Það er að vísu ekki útilokað að láta úrskurði hennar ganga til dóma, en það má þó segja, að raunverulega sé ríkisskattan. nokkurs konar hæstiréttur í þessum sökum. Hún hefur haft viðleitni til þess að reyna að kryfja til mergjar skattamál einstaklinga og í einstökum héruðum landsins, en mér hefur virzt, að aðferðir hennar í því efni hafi oft verið ærið tvíræðar, burtséð frá því, að hún hefur litið á sig nokkuð mikið sem einhliða aðila ríkisvaldsins. Þá hefur gætt talsverðra mistaka í aðgerðum hennar gagnvart því að finna og greina rétt og rangt í hinum ýmsu skattahéruðum. Ég vil t. d. taka, að á síðasta vori, að mig minnir, voru sendir sendimenn frá ríkisskattan. í mitt kjördæmi. Þeir gerðu það, sem menn gætu kallað ,razzíu“ í framtölum manna, og gengu svo hart til verks, að þeir tóku völdin af yfirskattanefnd. Það er ekki til hróss þeirri ágætu stofnun í mínu kjördæmi, að þeir skyldu láta aðvífandi sendimenn taka verkið úr höndum sér. Þetta var þannig, að sendimenn hennar komu, tveir að mig minnir, þegar yfirskattan. kaupstaðarins var að byrja starf sitt. Þeir völdu úr höndum yfirskattan. framtöl ákveðinna gjaldenda og fóru með eftir vild og ákváðu sjálfir skattinn. Ég veit ekki, hvort þeir höfðu fyrirmæli um að gera þetta eða hvort þeir gerðu það af eigin hvötum, en ég verð þó að álíta að öðru ósönnuðu, að þeir hafi ekki farið fram yfir það umboð, sem umbjóðendur þeirra, ríkisskattan., gaf þeim í hendur. Eftir þessu ákváðu þeir skattahækkun hjá fjölda manna. Mér liggur við að ætla, að hér hafi verið farið ólöglega að og það sé engin afsökun fyrir ríkisvaldið, þótt til séu yfirvöld á staðnum, sem fyrir einhverra hluta sakir af misgáningi eða fyrir misskilning láti rífa embættisverk sín út úr höndunum á sér og fari þannig með, sem ég hef nú lýst.

Þá er annað mál, sem ég hef fengið staðfesting á, að ríkisskattan. hafi til þess að komast að sannleikanum um framtöl sent töluglögga menn á vissa staði, í vissa kaupstaði og kannske sveitir líka. Fyrir nokkrum árum var sendur til Vestmannaeyja einn slíkur maður, Svavar að nafni. Það er gott, hvort hann er nú ekki kominn í áfengið. Hann tók framtöl manna, fór í þau og krotaði í þau með rauðu tölur á bak við gjaldendur, án þess að þeir væru aðspurðir, og úrskurður hans var látinn gilda sem grundvöllur fyrir skattálagningu. Þetta getur ekki verið rétt aðferð. Hitt hefur líka komið til greina, að þeir töluglöggu menn, sem ríkisskattan. hefur haft í þjónustu sinni og sent sem hæstarétt til ákveðinna staða, að þeir hafi gengið í þjónustu framteljanda, þannig að maður hefur séð undirskrift þeirra, eftir að þessir menn höfðu verið notaðir af n. sem trúnaðarmenn hennar til að rannsaka hjá Pétri og Páli. Þetta finnst mér skjóta skökku við, og það getur ekki verið tilætlunin, að sendimenn ríkisskattan. grípi inn í gang þessara mála hjá löglegum yfirvöldum á hverjum stað, eins og gert hefur verið í seinni tíma í Vestmannaeyjum, því að þar voru framtölin tekin hreint og beint úr höndum yfirskattan., og horfir einkennilega við, ef þessir sömu menn geta einnig verið trúnaðarmenn einstaklinga. Þess vegna tel ég, að það sé til bóta, að reynt sé að koma betra skipulagi á þessi mál. Ég vil leyfa mér að halda fram, að sú n. og þeir embættismenn, sem hefur þessi hæpnu afskipti af skattamálum þegnanna, beri í raun og veru jafnt skylda til að varðveita hag gjaldþegna fyrir áföllum, sem geta stafað af skökkum framtölum og misgáningi, eins og að varðveita hag ríkisins og rétt til að fá rétt skattaframtal lögum samkvæmt. M. ö. o., þessir trúnaðarmenn mega ekki skoða sig sem algera skattheimtumenn, sem ekkert tillit taki til annars en að fá sem mest með einu eða öðru móti. Ég vil mega skoða skattayfirvöldin sem trúnaðarmenn eða hlutlausa embættismenn, en ekki einvörðungu þá embættismenn, sem hugsi ekki neitt um aðstöðu gjaldþegnanna. Með þessu frv. er stigið spor til að fá hreinni línur í þessu máli og betri vinnubrögð, og það er rétt að reyna að stíga það. Auðvitað veltur mest á framkvæmdinni og að í þessi embætti veljist hæfir menn og óhlutdrægir.

Ég heyrði, að hæstv. fjmrh. minntist á, að til viðbótar þeim stöðum, sem nefndir eru á þskj. 398 og eiga nú að fá skattstjóra, þurfi einnig að koma Vestmannaeyjar. Ég vil ekki andæfa þessari skoðun hæstv. ráðh. Ég tel, að það sé erfitt, þegar um svona hluti er að ræða, að samræma skattstjórastarfið í Hafnarfirði við það, að hann verði líka skattstjóri í Vestmannaeyjum. Mér sýnist, að það sé alt eins rétt, að sérstakur maður sé hafður í Vestmannaeyjum, þó að það kunni að vera rétt, sem hv. þm. Siglf. hélt fram, að þar séu ekki eins miklar tekjur og á þeim fjórum stöðum, sem rætt er um í frv. En ég get þó ekki betur séð en sérstaða Vestmannaeyja komi þarna til greina og skattstjóri sé þar eigi síður nauðsynlegur en annars staðar á. landinu. Það er þegar komið á það stig með skattana, hvort sem það eru útsvör eða tekju- og eignarskattur, að það er svo þýðingarmikið, að þeir, sem fjalla um þau mál af hendi þess opinbera, hafi nægan tíma til að athuga þau mál á hverjum stað og einkum, að það séu samvizkusamir og óhlutdrægir menn.

Hér er komin fram brtt. á þskj. 473 frá fjórum hv. þm., sem mér virðist, að allir séu kaupstaðaþm., um það, að þessir skattstjórar, sem ætlazt er til, að skipaðir verði, skuli ekki eiga sæti í niðurjöfnunarn., nema þeir séu til þess kosnir af viðkomandi bæjarstjórn. Já, það er nú svo, það er valdast, hvernig á það er litið. Ég hef svipaða aðstöðu á Alþingi og þeir þm., sem að þessari till. standa, en ég er ekki sammála því, að skattstjóri eigi ekki að skipta sér af niðurjöfnun. Niðurjöfnunin á að vera a. m. k. í öllum stærri kaupstöðum byggð á „skala“, sem kallaður er, sem er miðaður við framtöl hvers og eins. Útfærsla þeirra framkvæmda er að sjálfsögðu fullkomnust hér í Reykjavík, því að þar er mestum starfskröftum á að skipa og þeir hafa lengsta æfingu í að vinna með þeim vinnubrögðum að byggja útsvarsálagningu eins og tekju- og eignarskatt á framtölum manna, sem er alveg rétt. En ég er hræddur um, að það sé ekki eins fastur grundvöllur fyrir þessu víða úti um land. Ég fæ ekki séð, að rétt rök mæli með því, að skattstjórar, sem eru óhlutdrægir og óháðir embættismenn, skipaðir af ríkisvaldinu, séu nokkuð verr til þess fallnir að sitja í niðurjöfnunarnefndum og vera formenn þeirra heldur en menn, sem eru kosnir til þess af þessum og þessum meiri hluta bæjarstjórnar í það og það sinn, sem eiga sæti sitt og embætti undir geðþótta kjósenda. Ég lít svo á, að til þess að fá sem óhlutdrægastan úrskurð sé bezta ráðið, að sem beztir og óháðastir embættismenn fjalli um þessi mál. Þess vegna er ég andstæður brtt. á þskj. 473, sem ætlast til, að skattstjórum sé bægt frá að hafa afskipti af niðurjöfnun á þann hátt, sem l. ætlast til nú, því að það er aðgætandi, að þar sem áður var jafnað niður í kaupstöðunum 190-250-300 þús. kr., þá er það orðið nú hátt á aðra milljón, sem niðurjöfnunarn. í þessum sömu kaupstöðum verða nú að jafna niður á gjaldendurna. Það er því nauðsynlegt, að á þessum stöðum sé, beitt svo góðum vinnubrögðum sem frekast er unnt. Í þetta eru menn úr athafnalífinu kosnir af sveitar- og bæjarstjórnum, menn, sem hafa miklum störfum að sinna og koma saman nokkrar kvöldstundir til þess að jafna niður svona gífurlegum upphæðum, og sums staðar kemur þetta meira að segja niður á mesta annatíma ársins. Ég verð að segja, að undir þeim kringumstæðum, þegar við erum komnir út í það; að útsvörin, sem voru fyrir stríð 2–300 þús. kr., eru nú komin upp undir hálfa aðra millj. kr., og þessari upphæð á að jafna niður á jafnmarga eða því sem næst jafnmarga menn og áður, þá virðist ekki vanþörf á, að þar eigi sæti einn óháður embættismaður, sem hefur nægan tíma fyrir og eftir fundi til að athuga gang þessara mála, hvernig réttast skuli að þeim starfað. Af þessu er það, að ég get ekki aðhyllzt, að skattstjóri hafi engin afskipti af niðurjöfnuninni. Ég er þess fullviss, að það sé til mikilla bóta fyrir skipun þessara mála, að þessir menn starfi í niðurjöfnunarnefndum, en það er eitt hið þýðingarmesta atriði bæði fyrir gjaldendur og eins ríki og bæjar- og sveitarfélög, að heppileg vinnubrögð eigi sér stað við ákvörðun þessara gjalda, því að það er höfuðatriði, til að þau komi sem réttlátast niður.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég mun fylgja þessu frv. og eins brtt. um, að sérstakur skattstjóri skuli vera í Vestmannaeyjum, ef hún kemur fram. Ég vil undirstrika, að það er skoðun mín, að því aðeins hljótist gott af þessari breyt., að vel sé vandað val þeirra skattstjóra, sem hér eiga að starfa, og ég álít, að það sé alveg eins nauðsynlegt, að þeir hafi aðstöðu gjaldþegna fyrir augum eins og réttmæti innheimtu og álagningar skatta og útsvara og að þeir séu þar sem hlutlausastir og óháðastir á báða bóga. Ég sé enga ástæðu, nema síður sé, til að bægja slíkum mönnum frá að vera í niðurjöfnunarn. og hafa þar afskipti af útsvörum manna, eins og þeir hafa afskipti af tekju- og eignarskatti o. s. frv., sem til ríkisins fellur.