24.11.1943
Neðri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (2794)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson) :

Það skulu aðeins vera örfá orð. — Ég vil vísa því til föðurhúsanna, sem hv. 2. landsk. þm. sagði um það, að fulltrúi Framsfl. í allshn., sem er ég, hefði tafið mál þetta, því að það tel ég mig ekki hafa gert eða neina minnstu tilraun til þess, heldur þvert á móti. Þegar ákvörðun var tekin innan n. um málið, gerist það með þeim hætti, að tveir nm., hv. 2. landsk. þm. og hv. 4. þm. Reykv., segjast munu mæla með till., en áskilji sér þó rétt til að fylgja brtt., sem fram komi. Ég sagðist mundu koma með brtt., og tveir aðrir nm. sögðust einnig mundu flytja brtt. Ég var ekki búinn að orða brtt. mína þarna á fundinum, en hét því, að ég skyldi sýna þeim meðnm. mínum hana, áður en ég léti hana í prent. Þetta var fyrir hádegi, en strax eftir hádegi sama dag kom ég með brtt. mína og sýndi þeim og gekk eftir því, hvort þeir gætu samþ. svona breyt. Og þá báðu þeir mig um að bíða með að láta prenta þessa brtt. til næsta dags. Þetta þori ég að vitna undir hv. 4. þm. Reykv., sem tók þátt í nefndarstörfum um þetta, og sömuleiðis alla aðra meðnm. mína, þó að hv. 2. landsk. þm. kunni að vilja halda öðru fram. Ætla ég svo ekki að fjölyrða um þetta atriði frekar.

Hv. 2. landsk. þm. segist ekki vera að öllu leyti samþykkur skýringum hv. 4. þm. Reykv., en svona hér um bil. Og það er þá helzt, sem kann á milli að bera, að hv. 4. þm. Reykv. lagði langtum sterkari áherzlu á það í ræðu sinni, að eitthvað yrði gert og hafizt handa, heldur en þessi hv. þm. Um þetta kann á milli að bera með þeim, og um það tel ég mig ekki þurfa neitt að fást.

Ég vil segja hv. 6. landsk. þm. það, að ég legg langtum meira upp úr skýringum hv. 4. þm. Reykv. á þessari till. en hans. Það, sem ég sagði við hv. 6. landsk. um málið, var það, að ég byggist ekki við, að hann hefði lesið till. mína. En auðvitað tek ég það, sem hv. 4. þm. Reykv. segir um það, hvað í þáltill. felst, langt fram yfir það, sem hv. 6. landsk. kann að segja um það efni. Og hygg ég, að hann sé svo króaður inni í þessu máli, að hann eigi þar ekki útkomu von. Hann segir, að ég hafi ekki rökstutt eitt einasta atriði í sambandi við þetta. En ég er búinn að færa rök fyrir afstöðu minni í málinu, og hann reynir ekki með einu orði að hnekkja þeim með rökum. Þetta minnir á kerlinguna, sem sú saga hefur verið sögð af, að bóndi hennar var veikur og hún sendi eftir lækni. Læknirinn kemur og segir: „Maðurinn er dáinn“. Gamla konan vill ekki taka það gilt, kemur með kaffi inn og réttir líka bónda sínum, en eðlilega tók hann ekki við því. Hún ætlar þá að hella því ofan í hann. Læknir segir þá: „Hvað er þetta, kona, maðurinn er dáinn“. Þá segir kerling: „O, það er þrái í honum líka, og það skal ofan í hann samt!“ — Þetta minnir hvað á annað, röksemdafærsla hv. 6. landsk. þm. og saga þessi.