06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (2810)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Ég gat þess, að mér þætti komið út á nokkuð vafasama braut um afgreiðslu þessa máls. Eins og kunnugt er, var í lok fyrri hluta þessa þings kosin n. til að taka til athugunar fram komin skattafrv. og leitast við að ná einhverju samkomulagi um afgreiðslu þeirra, ef unnt væri, og leggja síðan niðurstöður sínar fyrir framhaldsþingið. Árangur þessara umleitana er svo þetta frv., sem var það eina er n. varð sammála um, en í henni áttu sæti fulltrúar allra þingflokkanna. Menn skildu þetta nú þannig, að það væri a. m. k. óbeint samkomulag um það milli flokkanna, að stuðla að því í þinginu að hreyfa ekki öðrum breyt. á skattal. en fram koma í þessu frv., og ég hef skilið þá nm. þannig, sem ég hef talað við, að svo hafi verið. Jafnvel hafa þeir sagt, er þeir sáu, hvernig málið var að snúast, að verið væri að bregðast samkomulagi. Að sjálfsögðu er þm. þó heimilt að bera fram brtt., en þeir verða að gera sér ljóst, að því róttækari brtt. sem þeir bera fram, því meiri hættu stofna þeir þessu frv. í, svo að þau atriði, sem n. varð sammála um, geta fallið niður fyrir þær sakir.

Það eru nú komnar fram brtt. á æði mörgum þskj. Margar þeirra eru lítilvægar fyrir afgreiðslu málsins, en aðrar eru allróttækar, og á einu þskj. er tekið upp eitt af þeim skattafrv., sem lágu fyrir þinginu í vor og liggur raunar enn, og er borið fram sem brtt. við þetta frv. Það hefði verið ofur, auðvelt að ýta á eftir því frv., án þess að stofna þessu þannig í hættu með því að blanda þeim saman.

Ég skal nú fara nokkrum orðum um þessar brtt. í réttri röð þskj.

Þá er fyrst brtt. á þskj. 436 frá hv. þm. V.-Húnv. og hv. 8. þm. Reykv., þess efnis að taka upp nýja gr. á eftir 1. gr. á þá lund, að heimilt skuli félögum að draga frá skattskyldum tekjum 1/3 tekjuafgangs, „þó aldrei lægri upphæð en félögum þessum er skylt að leggja í varasjóð, samkvæmt l. nr. 46 frá 13. júní 1937, 24. gr.“, eins og segir í þessari brtt. Þau l., sem hér er vitnað til, eru um samvinnufélög, og eru rök brtt. þau, að samkvæmt þessari tilvitnuðu gr. í þeim er samvinnufélögum gert að skyldu að leggja í varasjóð vissa prósenttölu af keyptum og seldum vörum, og telja flm., að 2/3 tekna, sem skattfrjáls er, fullnægi stundum ekki þessari kvöð. Þetta er náttúrlega ekki næg ástæða til að veita félögunum þessar skattívilnanir, því að þá væri hægt eins vel að koma öllum félögum undan skatti með því að skylda þau til að leggja svo og svo mikið í varasjóð. Þar að auki bendi ég á, að hinar miklu skattívilnanir þessara félaga byggjast raunverulega á röngum forsendum, því að með l. eru þessar ívilnanir bundnar því, að félög geti ekki úthlutað varasjóðum sínum. En það er mjög vafasamt, að þau félög, er hér um ræðir, uppfylli þessi skilyrði. Þetta er að vísu ákveðið í l. um félagsslit, en í l. um samvinnufélög sé ég þetta ekki fastákveðið og því ekki hægt að tala um óskiptanlega sjóði þeirra. Í l. um samvinnufélög er beint heimilað að greiða allar greiðslur úr varasjóði, ef félagsstjórnin leggur það til og 2/3 hlutar fulltrúa samþykkja það. Það er m. ö. o. hægt að skipta upp varasjóðunum. Því sé ég ekki annað en ívilnanir þessara félaga í skattal. séu byggðar á röngum forsendum. Ég get því ekki fallizt á þessi hlunnindi.

Till. á þskj. 451 hefur í rauninni verið rædd í sambandi við till., er n. hefur tekið upp, og verður hún væntanlega tekin aftur.

Á þskj. 457 er brtt. frá hv. 6. landsk., þar sem tekið er upp heilt frv. sem brtt. við þetta frv., en í sambandi við þessa brtt. sagði hv. 2. þm. N.-M., að ekkert vit væri í því að styðja að því með skattalöggjöf, að almenn hlutafélög gætu safnað varasjóðum, eða stuðla að þessu með skattfrelsi. Ég veit ekki, hvaða mun er hægt að gera á þessum félögum og samvinnufélögum, allra sízt þegar það er aðgætt, að varasjóðir beggja eru skiptanlegir.

Það, sem um er að ræða með varasjóðssöfnun hjá öllum, er að tryggja reksturinn annars vegar, og það er vissulega heilbrigt af hvaða félagi eða fyrirtæki, sem er, og hins vegar að stuðla að fjársöfnun í landinu. Þetta á jafnt við um samvinnufélög og hlutafélög. Ef ekkert vit er í að veita hlutafélögum skattívilnanir, til þess að þau geti safnað í varasjóði, þá er heldur ekkert vit í að veita samvinnufélögum þær. Bæði félagaformin eru í rauninni einkafyrirtæki, aðeins eru samvinnufélögin venjulega fyrirtæki fleiri manna.

Hv. 2. þm. N.-M. nefndi í þessu sambandi félög, sem hefðu það fyrir atvinnu að komast yfir lóðir og leigja þær síðan eða selja. Má vera, að það væri ekki ástæða til að tryggja starfrækslu þessara eða annarra einstakra félaga með varasjóðssöfnun vegna skattfríðinda, en þau stuðla þó eins og önnur að almennri fjársöfnun í landinu. En ef menn vilja undanskilja sérstakar tegundir atvinnurekstrar, þá ætti að vera vinnandi vegur að gera þær undantekningar.

Þá er það brtt. á þskj. 457. Hún fer fram á að takmarka skattívilnanir til útgerðarfyrirtækja, þannig að þeim sé óheimilt að leggja í nýbyggingarsjóð 1/3 af hreinum tekjum, en þó aldrei meira en vátryggingarverði skips eða skipa skattþegns nemur og aldrei yfir 2 millj. kr. Nú er fram komin brtt. við þessa brtt. frá einum hv. þm., þess efnis að miða við innborgað hlutafé félaganna í staðinn fyrir hæfilegt vátryggingarverð skipanna. Við þessari takmörkun hef ég ekki svo mikið að segja, en hitt að takmarka síðan sjóðsupphæðina við 2 milljónir tel ég alveg fráleitt, á sama tíma sem flokkur þessa hv. þm. flytur hér stórkostlegar till. um, að ríkið veiti svo og svo háar upphæðir til að smíða ný skip. Að leggja síðan hömlur á það, að núverandi útgerðarfélög í landinu geti endurnýjað skipastól sinn, það er alveg furðulegt. Hv. þm. verður að gera sér grein fyrir því, að með því að takmarka þannig söfnun í nýbyggingasjóð, þá er í rauninni verið að stuðla að því, að skipastóllinn minnki. Það er vitað, að skipastóllinn er að ganga úr sér og minnka að vöxtum og þarf skjótrar endurnýjunar við, sem verður ekki framkvæmd með þessu móti. T. d. er hér eitt félag, sem á sjö togara. Tvær milljónir eru ekki nóg fé til að endurnýja einn þeirra, eins og nú árar. Hv. 6. landsk. ætlast þá ekki til, að unnt verði að endurnýja sex þessara togara. Þar að auki eru a. m. k. 2–3 félög önnur, sem mundu ekki geta endurnýjað skipastól sinn með þessari upphæð. Það yrðu því ekki aðeins þessi sex skip, sem yrði ekki hægt að endurnýja, heldur sennilega 3–4 í viðbót, eða m. ö. o. hátt upp í 2/5 af togaraflotanum, sem á ekki að endurnýja. Hverju er svo bættara með því að taka þetta fé í ríkissjóð og verja því síðan til að styrkja nýgræðing í þessum atvinnurekstri eða þess háttar? Þvert á móti er það ótryggara en láta féð vera bundið í grónum og reyndum atvinnufyrirtækjum.

Till. hv. þm. V.-Húnv. að miða framlagið við hlutafé félaganna hefur verið rædd á hverju þingi í mörg ár, og mér skilst, að allir hv. þm. utan Framsfl. séu sammála um, að sú regla sé óheppileg, vegna þess að þá mundi þetta langhelzt koma þeim að notum, sem sízt þyrftu þess með, því að það eru sterku fyrirtækin, sem eiga mest hlutaféð, en þau, sem veikari eru og hafa lítið hlutafé, mundu fá lítið eða ekki neitt.

Hv. 6. landsk. leggur til á sama þskj., að gerð verði veruleg hækkun á persónufrádrætti hjá einstaklingum eins og þskj. greinir. N. hefur enga afstöðu tekið til þessarar till., en ég geri ráð fyrir, að hún fái nokkru meira fylgi fyrir það, hve mikil óvissa hefur ríkt um skattálögur af hálfu Alþingis, þar sem hinar og þessar breyt. hafa verið gerðar til hækkunar, oft með litlum fyrirvara, nú síðast verðhækkunarskatturinn á síðasta ári, sem að vísu hefur verið fellt að framlengja á þessu þingi, en kynni að rísa upp aftur í einhverri mynd, og er því eðlilegt, að menn vilji hafa vaðið fyrir neðan sig um að tryggja menn fyrir allt of þungum búsifjum af hálfu skattal. með því að háfa ríflegri persónufrádrátt en áður hefur verið.

Þá er á sama þskj. önnur brtt., þar sem lagt er til, að 11. gr. l. verði felld niður. Þessi till. á við það að fella niður að skipa skattadómara. Það mun að nokkru leyti vera talið sem rök fyrir þessari till., að samkvæmt því frv., sem hér er um að ræða, á að skipa fjóra skattstjóra til viðbótar, en þessir skattstjórar eiga að sjá um framkvæmd skattal. í þeim umdæmum, sem þeim eru fengin til umsjónar. Hins vegar er þetta ekki nægileg ástæða til að fella niður ákvæðið um skipun skattadómara, vegna þess að eftir sem áður verða skattan. og skattstjórar í ýmsum tilfellum að leita til dómaranna til að rannsaka mál, og í frv. er gert ráð fyrir, að þeir leiti til héraðsdómara í hlutaðeigandi umdæmi. Sannleikurinn er sá, að ég hygg, að það geti orðið tafsamt, a. m. k. í þeim héruðum, þar sem mikið er um dómsmál og mikil störf hvíla á héraðsdómurunum. Það er því hentugt að eiga aðgang að sérstökum manni til þess að hafa rannsókn slíkra mála með höndum engu síður en áður. Ef það vakir fyrir hv. þm., að betur verði gengið frá að rannsaka slík mál framvegis en verið hefur, þá hygg ég, að það sé ekki spor í þá átt að fella niður skattadómaraembættið.

Á þskj. 473 er brtt. flutt af hv. þm. Hafnf. og nokkrum hv. þm. öðrum, að skattstjórar, sem skipaðir verða, skuli ekki eiga sæti í niðurjöfnunarn., nema þeir séu kosnir til þess. Um þessa till. er nokkur ágreiningur, og sérstaklega er hv. þm. Vestm. andvígur þessari till. Það má ýmislegt um þetta segja. Eins og nú er, þá eiga skattstjórar alls staðar nema í Reykjavík að vera sjálfkjörnir formenn niðurjöfnunarn., en þar, sem skattstjórar eru ekki, skulu formenn skattan. vera það, en í bæjum séu bæjarstjórar formenn skattan., sem að vísu eru kosnir af bæjarstjórn. Hv. þm. Vestm. sagði, að það væri heppilegt að bægja burt pólitískum áhrifum úr niðurjöfnunarn. með því, að sá hlutlausi skattstjóri, sem skipaður væri af ríkisstj., væri þar formaður. Þetta hljómar vel, en pólitískum áhrifum verður ekki bægt burt úr niðurjöfnunarn. með þessu móti. Það getur aðeins orðið til þess, að þar, sem meiri hl. bæjarstjórnar er fylgjandi annarri stefnu en ríkisstj., sem skipar skattstjórann, verði þau pólitísku áhrif gagnstæð því, sem hlutaðeigandi sveitarfélag vill vera láta. Ég get fullkomlega skrifað undir það, sem hv. 6. landsk. sagði um það, og einmitt fyrir þessa sök var það, að í Reykjavík undu menn þessu fyrirkomulagi illa, meðan það var, og fengu því breytt. Hv. þm. Vestm. sagði, að það væri nauðsynlegt að fá þannig hlutlausan mann í niðurjöfnunarn., en það hefur sýnt sig, að skattstjórar fylgja jafnan stefnu síns flokks, hvort sem það er í samræmi við stefnu meiri hl. í viðkomandi bæjarfélagi eða ekki. Ég sé því ekki annað fært en samþ. þessa brtt. á þskj. 473, enda mun hv. form. fjhn. hafa lýst afstöðu meiri hl. á þann veg.

Þá er till. á þskj. 478 um kaup skattanefndarmanna. Meiri hl. n. er sammála um þessa till. Ég hefði talið álitamál, hvort kaupið ætti að vera 20 eða 25 krónur á dag auk uppbóta. Eins og kunnugt er, þá er kaup alþm. 15 kr. auk 30% uppbótar, og svarar það nálægt því til 20 kr., en ef menn vilja hafa þetta hærra, þá skiptir það ekki verulegu máli.

Till. á þskj. 505 frá hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Skagf. skilst mér, að sé tekin aftur. Hún er um það, að viðhald verði ákveðin hundraðstala af verðmæti eignar. Ég hygg, að ekki sé heppilegt að svo komnu að gera þessa breyt. og fyrirskipa, að allt viðhald sé reiknað svo og svo mörg prósent af verðmæti eignar, þó að ég skuli fúslega játa, að margt mæli með, að slíkt sé gert á venjulegum tímum. En ég held, að það sé óheppilegt, eins og nú er.

Hv. 2. þm. N.-M. leggur til á þskj. 513, að skattstjórar verði fimm, þ. e. a. s., að Vestmannaeyjum verði bætt við. Eins og kunnugt er, þá hefur skattstjóri verið aðeins einn, en stj. hefur haft heimild í skattal. til að skipa þá. Nú er lagt til, að þeir verði í öllum kaupstöðum landsins nema Siglufirði og Seyðisfirði. Ég er í vafa um, að þetta sé rétt, sérstaklega að því er varðar Siglufjörð. Segja má, að lítil ástæða sé til að hafa sérstakan skattstjóra á Seyðisfirði, og segja má, að þessi ár sé ekki mikið að vera á Siglufirði, en vel getur sú breyt. á orðið, að full ástæða sé til að hafa þar skattstjóra ekki síður en í hinum kaupstöðunum, sérstaklega Ísafjarðarkaupstað. Hins vegar mun það vera tilgangurinn með þessari löggjöf, að skattstjórarnir hafi ekki aðeins yfirumsjón með skattamálum í viðkomandi kaupstað, heldur einnig í ákveðnum umdæmum, og þá er á það að líta, að Norðurlandsumdæmið hlyti að verða nokkuð umfangsmikið fyrir skattstjórann á Akureyri, sem að sjálfsögðu hefur talsverð störf í sínu eigin umdæmi, Akureyrarkaupstað. Það er kunnugt, að verksvið skattan. þar er geysimikið, og er því vafasamt, hve miklu má á þann mann bæta. Ég tel, að það sé því rétt að bæta hér við Siglufirði, einmitt með tilliti til þess, að skattstjóri þar mundi geta tekið nokkurn hluta af því umdæmi, sem annars er lagt undir skattstjórann á Akureyri. Mun ég því bera fram skrifl. brtt. um, að skattstjóra á Siglufirði verði bætt við þá fimm, sem hv. 2. þm. N.-M. leggur til, að skipaðir verði.

Ég held, að ég hafi þá farið yfir þessar brtt., og vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt.