06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (2818)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það voru aðallega tvö atriði í ræðu hv. 3. þm. Reykv., sem mig langaði til að leiðrétta. Hann sagði, að sama væri aðstaða hlutafélaga og samvinnufélaga til varasjóðs. Hann sagði þetta í samræmi við þau orð mín, að engin ástæða væri til að veita hlutafélögum, sem rekin væru með engri áhættu, ýmiss konar hlunnindi. Hv. þm. vildi halda því fram, að hér stæði eins á um hlutafélög og samvinnufélög, og þennan misskilning vildi ég leiðrétta. Mig undrar raunar að heyra þetta frá honum. Í 3. gr. samvinnul., 9. lið, er beint tekið fram sem skilyrði þess, að félag geti talizt samvinnufélag, að innstæðufé í óskiptilegum sameignarsjóðum sé ekki útborgað við félagsslit, heldur skuli það að loknum öllum skuldbindingum, sem á félagsheildinni hvíla, ávaxtað undir umsjón hlutaðeigandi héraðsstjórnar, unz samvinnufélag eða samvinnufélög með sama markmiði taka til starfa á félagssvæðinu. Hvaða ákvæði hefur hv. þm. um þetta mál í hlutafélagal.? Skyldu félög hér í Reykjavík, sem fá að leggja skattfrjálst í varasjóð og eiga dálitla lóðarbletti eða hús, sem þau leigja út, — það er nú öll áhættan — skyldu þau eiga einhver ákvæði í l. um það, að bæjarstjórn eða lögmaður ætti að taka við varasjóði, ef þau hættu störfum, þangað til annar aðili kæmi, sem hefði sama markmið? Nei, slík ákvæði eru ekki til. Aðstaðan er hér allt önnur en hjá félögum, þar sem ekki er um annað að ræða en menn, sem fá fé handa sjálfum sér og skattívilnanir, og þar sem ekki er um neina áhættustarfsemi að ræða. (ÓTh: Fá hluthafar þetta fé við upplausn hlutafélaganna?) Já, og oft með alls konar fríðindum.

Á þskj. 457 er talað um breyt. á persónufrádrætti. Ég hef minnzt á þetta áður. Ef persónufrádrátturinn er hækkaður, dugir ekki að vera að umreikna tekjurnar, eins og nú er gert, og draga svo frá því, sem búið er að hækka. Í því er ekkert vit. Annaðhvort verður að umreikna tekjurnar, eins og nú er gert, og draga síðan persónufrádráttinn frá eða hætta umreikningnum og hækka persónufrádráttinn í nokkur þúsund.

Sömuleiðis féllst Alþ. á það að hafa persónufrádrátt jafnan, hvar sem er á landinu. Hér er frá því horfið og fallizt á, að persónufrádráttur sé lægri, þegar út fyrir kaupstaðina er komið. Þetta tel ég illa farið og órétt að gera það nú, þegar á öðrum sviðum er verið að jafna aðstöðu manna um land allt, sbr. till. um jafnari launakjör, jöfnun mjólkur- og kjötverðs o. s. frv. Á meðan verið er að vinna þetta í jöfnunarátt, er nú sagt við fólkið úti á landinu: Þið eyðið minna en almenningur í Reykjavík og eigið því að hafa lægri persónufrádrátt. — Þetta tel ég ranglátt og legg því til, að þessi till. verði felld.