15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (2819)

95. mál, fjörefnarannsóknir

Jóhann Þ. Jósefsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja umr. um þetta mál, en ég vildi aðeins láta í ljós það, að ég fyrir mitt leyti sem umboðsmaður framleiðenda þessarar vöru, sem hér er um að ræða, er þakklátur hv. flm. fyrir að hafa hreyft þessu máli á þennan hátt, sem hér er gert. Það er rétt, sem hann sagði hér um það, hversu mjög sækir í það horf meir og meir, að krafizt sé nákvæmra upplýsinga um gæði lýsisins. Og eftir því sem ég þekki til, þá er ekki orðið hægt að komast undan því, þegar lýsi er selt beint á Bandaríkjamarkað, að gefa þessar upplýsingar. Hingað til hefur það verið ákaflega erfitt, sérstaklega að því er viðkemur rannsókn D-vítamína. En sem betur fer, er að koma í ljós nú, að þær tilraunir, sem hér hafa verið gerðar til þess að rannsaka D-vítamín í lýsinu, hafa virzt heppnast það vel, að það er talið nokkurn veginn ábyggilegt að treysta á niðurstöður þær, sem Rannsóknar stofa háskólans og sá maður, sem þar hefur þessar rannsóknir með höndum, kemst að, en það er Þorsteinn Þorsteinsson. Og þetta er ákaflega mikils vert, því að þótt það hafi vitaskuld ekki alltaf afgerandi áhrif á verð lýsisins á útlendum markaði, ekki eins afgerandi og rök standa til eftir gæðum, hvernig lýsið er, — þar kemur oft fleira til greina, svo sem eftirspurn, birgðir og því um líkt, — þá er það mjög mikilsvert atriði og er alltaf að verða það meir og meir í þessum efnum, að fyrir liggi vísindalegar niðurstöður um þessi gæði lýsisins. Við, sem höfum þekkt þessa vöru, frá því að við vorum unglingar, höfum átt dálítið erfitt að átta okkur á því, að lýsistunna af góðri ólastanlegri vöru væri ekki söm að gæðum eða verði, hvort sem hún væri frá einum stað eða öðrum eða á hverjum tíma árs, sem væri. En vísindin hafa leitt í ljós, að viss efni, sem kölluð eru vítamín, eru mismunandi mikil í þessari vöru, þó að varan virðist vera að öllu leyti alveg eins, t. d. að bragði, lit og þess háttar. Og þessi vítamín eru svo mikilsverð, eins og vísindin hafa leitt í ljós, að mjög er mikilsvert að vita í hverju tilfelli, hversu varan er innihaldsrík af þessum efnum. En það er mjög breytilegt, hvað lýsið inniheldur af þessum efnum, eftir því, á hvaða tíma árs er eða á hvaða stað er. Það er því hin mesta nauðsyn á að koma þessum rannsóknum á enn fastari og betri fót hjá okkur, til þess að við getum lagt fram vísindalegan vitnisburð um þessi gæði vörunnar. Og við, sem höfum á hendi sölu þessarar vöru og framleiðslu hennar, treystum því, að rannsókn á þessari vöru verði framkvæmd af hendi þess opinbera. Hið opinbera á að standa fyrir þessum rannsóknum, annað yrði ekki tekið gilt út á við.

Erlendis er það venja, að háskólar og aðrar slíkar stofnanir hafa rannsóknir eins og hér um ræðir með höndum. Aðstaðan hér er þannig, að þeim brautryðjendum, sem hér eru, er nauðsynlegt að fá bætta aðstöðu til starfa sinna. Það ætti að geta orðið, ef till. hv. þm. Hafnf. verður samþykkt.

Ég vil að lokum taka það fram, að ég vildi láta þessi orð fylgja, sökum þess að ég á ekki sæti í n. þeirri, sem um málið fjallar.