06.09.1943
Efri deild: 12. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

30. mál, einkasala á tóbaki

Hermann Jónasson:

Ég vildi aðeins minnast á eitt atriði í sambandi við yfirlýsingu hæstv. fjmrh. Ég tel, að yfirlýsingin breyti í raun og veru engu, og eru ástæðurnar þær, sem ég tók fram við 1. umr. Hæstv. ráðh. þarf ekki að lýsa yfir því við okkur, að hann megi ekkert greiða nema með okkar samþ. Hins vegar hefur hv. frsm. fjhn. tekið það fram, að 4. gr. dýrtíðarl. frá síðasta þ. hafi ekki verið höfð í huga, þegar yfirlýsingin var fram borin. Þó var það aðallega þetta, sem var til umr. hér, áður en málið fór til n. Ég tel sem sagt, að þessi yfirlýsing breyti ekki neinu, sem máli skiptir, því að mín skoðun er sú, að stj. væri algerlega óheimilt, þótt engin yfirlýsing hefði komið fram, að greiða nokkuð samkv. 4. gr. nema með skýrri samþykkt Alþ. Þetta vildi ég taka fram og láta fylgja því atkv., sem ég greiði í málinu.