10.12.1943
Neðri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (2824)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Herra forseti. Ég vil fara fram á það, þó að það sé kannske óvenjulegt, að umr. verði tekin aftur upp um þetta mál, og vil ég gera grein fyrir þeirri ósk minni. Þetta er síðasta umr. um þetta mál hér í hv. d., a. m. k. að sinni. Henni lauk með þeim hætti, þegar þetta mál var við þessa umr. rætt hér á dögunum, að klukkan var orðin fjögur, sem er venjulegur fundarlokatími. Ég hafði þá talað og gert grein fyrir málsatriði. Þegar ég fór af fundi kl. fjögur, þá var hv. 6. landsk. þm. (LJós) að tala, og auk þess vissi ég, að einn hv. þm. var á mælendaskrá, 2. þm. N.-M. (PZ). Og ég gekk þá út frá því sem vísu, að umr. um málið mundi þá verða frestað. Nú er það að vísu ekki algild regla, að umr. sé frestað kl. 4, en þó svo venjuleg, að ég gerði ráð fyrir, að svo mundi verða um þetta mál, þó að ég vilji ekki ásaka hæstv. forseta fyrir það, þó að hann sliti umr. þá um málið, þar sem enginn var á mælendaskrá. En þar sem þetta atriði er mjög þýðingarmikið, þá óska ég eftir þessu, — án þess að ég geri grein fyrir því, hvað það er, — en það var sem sé ágreiningur um l. um samvinnufélög, hvernig þau beri að skilja, og ég hafði lýst skoðun minni, þar sem talað er um, að samvinnufélög hafi óskiptilega varasjóði og að það sé óeðlilegt, að þær reglur gildi um varasjóði þessara félaga, þar sem, þegar allt er athugað, enginn munur væri á þessum félögum og öðrum félögum, sem varasjóði hafa. Og þetta byggist á því, að þótt í 3. gr. l. um samvinnufélög sé svo ákveðið, að innstæðufé í óskiptilegum sameignarsjóðum sé ekki útborgað við félagsslit, þá er í annarri gr. þessara sömu l., 24. gr., lagt svo fyrir, með leyfi hæstv. forseta: „Fé má ekki greiða úr varasjóði nema eftir tillögu félagsstjórnar, í samráði við endurskoðun og með samþykki aðalfundar, enda séu tillögunni fylgjandi eigi færri en 2/3 þeirra félagsmanna eða fulltrúa, sem atkvæðisrétt eiga á fundinum“. Það er augljóst, að þetta ákvæði 24. gr. ónýtir gersamlega ákvæði 3. gr., því að samkv. 24. gr. er hægt, hvenær sem er, að skipta varasjóði slíks félags upp, greiða félagsmönnum úr honum á hverju einasta ári og ganga þannig frá, að við félagsslit sé enginn varasjóður til, og þannig gera það að verkum, að þessi félög séu nákvæmlega með sama hætti og önnur hlutafélög, sem um er að ræða í landinu, hvers konar hlutafélög sem eru.

Ég vil því fara fram á það við hæstv. forseta, að hann taki málið nú aftur á dagskrá til umræðu.