16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (2865)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér við þessa umr. að fara neitt sérstaklega út í þetta mál eða taka afstöðu til þess. Ég vil í sambandi við athugasemdir síðasta ræðumanns um till. stj. segja það, að stj. hefur haft þetta mál til athugunar, en ekki tekið ákveðna afstöðu til málsins enn þá. En ég geri ráð fyrir, að þessu máli verði vísað til fjvn., og mun þá stj. að sjálfsögðu hafa samband við n. um það og þá væntanlega gera sínar till., þegar til kemur.

Í sambandi við það, að talað er um, að þessi bréf séu verðlaus, eins og sakir standa, má að vísu segja, að þeir aðrir hluthafar en ríkisstj. fái engu um það ráðið, hvernig bankanum er stjórnað. En hlutabréfin geta ekki talizt verðlaus eign, ef hægt er að umsetja þau, sem nú virðast allar horfur á. Hins vegar er á engan hátt útilokað, að þótt ekki hafi verið horfið að því ráði í þetta skipti að greiða arð, að hluthafar fái arð af bréfum sínum í framtíðinni, ef rekstur bankans gengur þann veg, að það sé hægt. Enda teldi ég það vera með öllu óverjandi af ríkissj., þó að hann hafi bæði tögl og hagldir í bankanum, að beita aðra hluthafa slíku. Ég vildi bara benda á þetta atriði, en að öðru leyti mun ríkisstj. eiga umræður um þetta mál við fjvn. og skýra frá till. sinni og afstöðu til málsins við síðari umr.