16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (2868)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Það er alveg réttilega fram tekið hjá hv. þm. V.-Húnv., að ekki er um það getið í ástæðunum fyrir þessari þáltill., hvað slík bréf sem þessi hafa selzt manna á meðal. Og ég fyrir mitt leyti játa, að mér er ekki nákvæmlega kunnugt um neinar sölur, sem hafa átt sér stað á þeim. En hitt skal ég um leið segja, að ég hef heyrt, að menn hafi reynt að losa sig við þau á krepputímum og ekki verið boðið neitt sérstaklega mikið verð í. Enda er það ekkert óeðlilegt, því að jafnvel þótt einhver hafi hug á að kaupa verðbréf og verðbréfasala hafi gengið greitt undanfarið, þá stendur sérstaklega á um þessi bréf, bæði vegna þess, að einn eigandinn, ríkissj., er svo sterkur, að hann ræður öllu, en hinir engu, og vegna hins, að bréfin hafa einskis arðs notið og ekki séð fyrir, hvenær það yrði. En eins og nm. réttilega taka fram í skýrslu sinni, hefur ríkisstj. sem hluthafi ekki mikinn áhuga á því, að arður sé greiddur. En ég held, að ég fari ekki með rangt mál, þegar ég held fram, að fulltrúarnir og bankaráð, þ. e. æðsta yfirráð bankans, hafi ekki viljað fallast á, að greiddur væri arður. Og líklegt má telja, að svo verði framvegis.

Ég vil svo þakka hæstv. fjmrh. fyrir það, að hann kvað ríkisstj. gjarnan vilja hafa samvinnu við fjvn. um lausn þessa máls. Og vonandi er, að ríkisstj. og n. geti fallizt á þá lausn, sem farsæl reynist fyrir réttindi þeirra mörgu manna, sem eiga þarna meiri og minni peninga fasta, lausn, sem er sæmandi fyrir hv. Alþ.