19.11.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (2879)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Frsm. 2. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og sést á þessum þskj., sem hér liggja fyrir, nál. á þskj. 358 og 399, var ágreiningur um þetta mál í fjvn. Fjórir af nm. vilja samþ. þáltill., þó með breyt., en við aðrir fjórir nm. erum því mótfallnir. Einn hv. nm. greiddi ekki atkv. um málið, þegar það var til meðferðar í fjvn., heldur sat hjá.

Því er haldið fram af flm. og fylgjendum málsins, að það sé rétt af ríkissjóði að kaupa þessi bréf fyrst og fremst vegna þess, að það sé óeðlilegt, að hinir upphaflegu eigendur bréfanna, sem hafa lagt fram þetta hlutafé, þegar Útvegsbankinn var stofnaður, þeir — eins og það er orðað — „séu látnir færa þær fórnir að hafa fjármuni sína bundna um óákveðinn tíma í hlutabréfum Útvegsbankans, án þess að sú hlutafjáreign gefi þeim nokkurn arð“. Nú hefur það komið fram, og skýrt er frá því í grg., sem fylgir þessari þáltill., að ríkisstjórnin nafi nýlega látið framkvæma mat á hlutabréfum Útvegsbankans, hún hafi skipað til þess þriggja manna nefnd á síðasta ári að framkvæma þetta mat, og segir í grg., að nefnd þessi hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að hlutabréf bankans séu það mikils virði að minnsta kosti, sem þau eru talin að nafnverði. Sé nú þetta rétt, sem ég hef enga ástæðu til að efast um, að þetta mat hafi verið samvizkusamlega framkvæmt og að bréfin séu a. m. k. þess virði, þá get ég ekki séð annað en að nú orðið sé hér um arðvænlega eign að ræða. Ef hagur bankans er þannig orðinn, að það sé hægt að telja hlutabréfin a. m. k. í nafnverði, og verði bankanum vel stjórnað og engin óhöpp komi fyrir, má gera ráð fyrir, að þessi bréf verði arðberandi eign í framtíðinni. Og þá hljóta að aukast möguleikarnir til sölu á bréfunum, ef eigendurnir vilja selja sína hlutafjáreign. Séu þessi bréf a. m. k. í nafnverði að verðmæti, er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en þau svari arði framvegis, sem a. m. k. samsvari sparisjóðsvöxtum, og mætti vænta, að þessi arður gæti orðið eitthvað meiri. — Við í öðrum minni hl. fjvn. sjáum því ekki ástæðu til þess, að ríkið sé að ásælast þessi bréf. Ég lít svo á persónulega, að hitt gæti vel komið til mála, að ríkið seldi eitthvað af eign sinni í Útvegsbankanum. En það virðist engin ástæða vera til þess, að ríkið fari að sækjast eftir að fá keypt þau hlutabréf bankans, sem það á ekki nú.

Það er gert ráð fyrir því í brtt. hv. fyrsta minni hl. fjvn., að ríkið taki að láni kaupverð þessara bréfa á þann hátt, að gefin verði út ríkisskuldabréf til 10 ára og að hlutabréfin verði greidd með slíkum bréfum. En við, sem stöndum að álitinu á þskj. 399, sjáum enga ástæðu til þess, að ríkið sé að stofna til skulda nú til þess að kaupa þessi bréf, því að eins og ég hef vikið að, benda allar líkur til þess, að hlutabréfaeigendur, sem það vilja, geti losnað við bréfin, án þess að ríkið gerist kaupandi að þeim. Og í því sambandi vil ég geta þess, að við, sem erum í öðrum minni hl. fjvn., teljum, að það gæti vel komið til mála, að bankinn fengi heimild til þess að kaupa eitthvað af sínum eigin bréfum — nú eða síðar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en eins og þegar er tekið fram, leggjum við á móti því, að þáltill. verði samþ.