19.11.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (2880)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Magnús Jónsson:

Herra forseti, Ég vildi aðeins segja örfá orð um þessa þáltill. og afgreiðslu fjvn. á henni, af því að ég átti nokkurn þátt í því óbeint, að hún er fram komin. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er allgamalt og stafar upphaflega frá þeim tíma skömmu eftir 1930, þegar Íslandsbanki var í kreppu og um það var deilt, hvort hann yrði lagður niður eða ekki. Þá var hafin sterk starfsemi í þá átt að leitast við að fá þá, sem áttu starfsfé í Íslandsbanka, til þess að leggja það fram til að kaupa fyrir hluti í bankanum í því skyni, að hann yrði endurreistur, til þess að hrun, sem þá var yfirvofandi, þyrfti ekki að fara fram. Það fór svo, að mjög verulegur hluti þeirra manna, sem áttu sparifé í bankanum, gerði þetta — og líklega flestir af tveimur ástæðum, annars vegar af því, að menn vildu reyna að gera það bezta til að tapa ekki því fé, sem þeir áttu í bankanum, og hins vegar af því, að þeir munu hafa álitið, að hér væri um þjóðþrifamál að ræða, að efla þennan banka, sem var í kröggum eins og á stóð. Nú var sú aðferð tekin að leggja bankann niður og byggja á rústum hans upp annan banka, og skal ég ekki fara út í þau deilumál, hvort það hafi verið heppilegt eða ekki. En arftaka Íslandsbanka, Útvegsbankanum, varð verulegur styrkur að þessu hlutafé, sem stofnað hafði verið til út frá sparisjóðseign manna. Þessi banki var ekki sterkur, og um skeið var reiknað með því, að hlutabréf hans væru tiltölulega lítils virði. Og það var einmitt á þeim árum og út frá þeirri hugsun, sem fram komu kröfur um það, að ríkið hlypi undir baggann og keypti þessi hlutabréf, vegna þess að ríkið gæti ekki verið þekkt fyrir það að ábyrgjast sparifé landsmanna yfirleitt, en um leið láta þá, sem breytt hafa sparifé sínu í hlutafé til þess að styðja bankann, tapa því sem hlutafé. Þessar till. komu fram hvað eftir annað, en fengu mismunandi mikinn byr. Það kom þó að því að lokum, m. a. með meðmælum fjvn., að skipuð var n. til þess að athuga þetta. Og það var einmitt á því stutta skeiði, sem ég hafði mál þetta til meðferðar sem ráðh. Mér fannst sjálfsagt að verða við þeirri kröfu að skipa n. til þess að athuga þetta mál. Hér um bil samtímis skeður svo sú verulega breyt., að þetta hlutafé, sem áður var talið einskis virði, var nú talið vera orðin ágæt eign. Og ég man eftir, þegar ég var að velta fyrir mér, hvaða ástæður væru til þess að fara út í þessi kaup, þá varð mér að orði, að tilgangurinn væri að bjarga á land þeim, sem væru að drukkna, en nú væru þeir komnir á land og þyrftu ekki björgunar við. Og mér skildist nú, að það væri ástæða hv. annars minni hl. fjvn. fyrir því, að ekki væri ástæða til að samþ. þessa þáltill. nú, að kringumstæður væru í þessu efni orðnar breyttar.

En hér kemur til greina nýtt atriði. Það er það, að eftir öllu eðli málsins er ómögulegt að samrýma eign ríkisins og einstaklinganna í stofnun sem þessari. Alþ. mun aldrei fallast á það, að ríkið fari að eiga í stofnunum, sem það ræður ekki, þó að það geti gert það í einstökum tilfellum að hlaupa undir baggann, eins og það gerir stundum, t. d. með Eimskipafél. Íslands, og hafa þar verið gerðar miklar tilraunir til að láta ríkið eiga þar meiri hluta hlutafjár. En yfirleitt mun það reynast svo um sameiginlega hlutafjáreign einstaklinga og ríkis, að það er ekki hægt fyrir ríkið að leggja margar milljónir þannig fram öðruvísi en ríkið ráði þar rekstri. Og það er ekki hægt fyrir einstaklinga að leggja fé í ríkisfyrirtæki sem þetta, þar sem ríkið ræður. Því að það munu alltaf koma fram önnur sjónarmið til greina hjá ríkinu sem reksturinn en hjá einstaklingum, sem hafa fé sitt í stofnuninni eingöngu til þess að ávaxta það. Og þó að bankinn væri svo stæður að geta borgað ríflegan arð, gæti verið full ástæða fyrir ríkið að standa á móti því, að það væri gert. Bezta sönnun þessa er það, að eigendur bréfanna, sem hér er um ræða, þögnuðu ekki, þó að bréfin væru kannske komin upp fyrir nafnverð. Eigendurnir vilja samt sem áður losna við bréfin, þrátt fyrir þann góða hag þess félags, sem þeir eiga þarna í. — Ég hlýt því að vera sammála þeim minni hl. fjvn., sem leggur til, að ríkið geri mönnum þessum kost á að leggja hlutabréf sín inn með nafnverði.

Ég held, að breyt., sem sami minni hl. fjvn. leggur til, að gerðar verði, séu til bóta. Það er auðveldara fyrir stjórnina, sem með þetta fer, að eitthvert ákveðið hámark sé á þessum bréfum. Og ég álít þá breyt. til bóta, að miðað sé við, að bréfin verði keypt af þeim, sem upphaflega lögðu féð fram, þó að þeir verði ekki látnir koma hér undir, sem keypt hafa bréfin við lágu verði í því skyni að græða á þeim. En þeir, sem lögðu fé sitt upphaflega fram sem hlutafé, eiga kröfu á því, að fyrrverandi sparifé þeirra, sem breytt var í hlutafé, njóti svipaðrar verndar og annað sparifé. Og það nær aldrei fram yfir nafnverð, eins og leiðir af sjálfu sér, og er því ekki ástæða til að greiða fyrir þessi bréf meira en nafnverð.

Hv. frsm., sem síðar talaði, sagði, að það væri óheppilegt, að ríkið stofnaði til skulda vegna þessara kaupa. Þetta er misskilningur. Það er ekkert annað en að ríkið breytir einni eign í aðra. Það eignast hlut í bankanum fyrir það fé, sem það um leið skyldar þessa menn til að lána ríkinu, og það er engu auðveldara fyrir ríkið en láta bankann standa undir þessu láni, ef bankinn stendur sig vel.

Sú ástæða, sem sami hv. frsm. bar fram, að það væri réttara að láta bankann sjálfan leysa bréfin inn, er ekki á rökum byggð, því að það væri aðeins til að rýra starfsfé bankans um þessa upphæð eða um 2,8 millj. kr.

En svo er eitt, sem ég vil taka skýrt fram. Ég vil tímabinda þetta tækifæri, sem hér á að gefa. Ég vil ekki, að það hvíli áframhaldandi á ríkissjóði skylda til að innleysa þessi bréf. Það er nægilegt að ákveða tímann hálft eða heilt ár, við skulum segja til ársloka 1944. Ef slíkt mark verður ekki sett, mundi stj. sennilega gera það, og það er nauðsynlegt, að það sé gert.