19.11.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (2883)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér fyrir mína hönd og annarra flm. málsins að þakka 1. minni hl. fjvn. fyrir till. þær í málinu, sem gerðar eru á þskj. 358. Ég býst við, að ég mæli þar fyrir hönd allra flm., er ég lýsi yfir ánægju yfir þeirri breyt., sem lögð er til í brtt. á greindu þskj.

Ég álít ekki þörf fyrir mig að fara lengra út í þessi mál. Ég tel, að með þeirri lausn, sem fæst, ef sú till. er samþ., sé fengin viðunandi lausn á málinu fyrir alla hlutaðeigendur. Eins og allir vita, hvílir engin skylda á núverandi eigendum þessara bréfa að selja þau, þó að þessi till. verði samþ., en grunur minn er sá, að flestallir þeirra, — og flestir þeirra eru fullorðnir menn eða eldra fólk, — kjósi þann kost að afhenda ríkinu hlutabréfin og fá skuldabréf í staðinn, eins og nefndarhlutinn ætlast til, frekar en að eiga hlutabréf í bankanum áfram.

Það hefur enginn vefengt, að hagur bankans er góður, jafnvel eins góður og þeir segja, sem hæstar áætlanir gera um það, en út í þær sakir tel ég enga þörf að fara, en það má vera öllum landsmönnum gleðiefni, bæði frá því sjónarmiði, að ríkið á þar mestan hlut, og eins vegna þess, að þá á bankinn hægara með að uppfylla hlutverk sitt í þjóðfélaginu.

Ég tel ekki þörf fyrir mig að rökræða við þann nefndarhlutann, sem stendur að nál. á þskj. 399. Þeim rökum hefur verið rækilega mótmælt af hv. 1. þm. Reykv., en út af ræðu hans vil ég segja það, að það er ekki í brtt. fjvn., að kaupin gildi eingöngu um þau bréf, sem aldrei hafa skipt um eigendur, heldur í till. eins og hún var upprunalega flutt.

Út af aths. hans um, að heimildin til að kaupa bréfin gildi aðeins um ákveðinn tíma, vil ég leyfa mér að taka fram, að ég fyrir mitt leyti tel það réttmætt, og í því sambandi vil ég leyfa mér að setja hér niður á blað brtt. við brtt. á þskj. 358 á þá lund, að á eftir orðunum „ef þess er óskað“ komi: „fyrir lok desember 1944“. Þá hafa hlutabréfaeigendur ársfrest til að ráða við sig, hvort þeir óski þess, að ríkið afhendi þeim ríkisskuldabréf í staðinn fyrir þessi hlutabréf.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég vil gera mitt til þess, að unnt verði að afgr. till. í dag, og vona ég, að Alþ. fallist nú á að leysa þetta mál á þeim grundvelli, sem fyrir liggur á þskj. 358.