19.11.1943
Sameinað þing: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (2886)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég skal ekki tala langt mál, en lýsi yfir fylgi mínu við till. 1. minni hl. Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að ef hlutabréf Útvegsbankans væru komin upp í nafnverð, væri engin þörf að kaupa þau af núverandi eigendum, því að þá hefðu þeir eign sína í fullu verði, svo að það væri engin þörf á að hjálpa þeim. Þessir menn eru eigendur í félagi, sem er talið eins og hlutafélag, en er það í raun og veru alls ekki, því að í þessu félagi ræður einn aðilinn öllu, og því er ríkið, þessi hlutaðeigandi, sem ræður öllu, er líka eini hlutaðeigandinn, sem ber ótakmarkaða ábyrgð á þessari stofnun. Og þegar einn hlutaðeigandinn ræður öllu og ber einn alla ábyrgð, er öðru fólki ólíft í stofnuninni en honum. Þegar ríkið segist ekki borga arð af hlutafé, fyrr en varasjóður sé orðinn svo og svo mikill, með þeim rökum, að það beri eitt saman ótakmarkaða ábyrgð á stofnuninni, þá verður annað hvort ríkið að kaupa upp einstaklingana eða einstaklingarnir að kaupa ríkið upp. Nú er búið að halda við í 12–13 ár ástandi, sem skapaðist út úr vandræðum og að vissu leyti var skapað með þvingun, og nú er tími til þess kominn, að breytt sé til á annan hvorn veginn. Ríkið gæti selt sína hluta, ekki fyrir nafnverð, heldur fyrir tvöfalt verð eða hærra, en ef það yrði gert, yrði að fylgja því sérleyfi til langs tíma. Ég geri ráð fyrir, að áður en slík löggjöf yrði afgr. hér á þingi, mundi heyrast hljóð úr horni, jafnvel fxá þeim mönnum, sem nú beita sér á móti því, að ríkið kaupi hlutabréfin upp. Ég mundi vera því mótfallinn, en aðra hvora leiðina verður að fara, og þar sem ríkið hefur þessa aðstöðu, þá er því engin vorkunn. Það er ekki að eyða peningum, og það er ekki að auka á skuldir sínar, því að það kemur eign á móti, eign, sem er virt lágt vegna þess valds, sem ríkið hefur haft til að úthluta arði. Ef ríkið kaupir þessi bréf og greiðir þau með skuldabréfum, eins og hér er lagt til og er skynsamleg leið, þá getur það eignazt þessi bréf án þess að svara nokkurn tíma út grænum eyri, því að þetta lán mundi með jöfnum greiðslum ekki þurfa að kosta ríkið meira á hverju ári en það getur auðveldlega tekið í arð af bankanum. Ríkið á þetta allt undir sjálfu sér.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að hann mundi ef til vill geta fallizt á, að bankinn fengi sjálfur heimild til að kaupa þessi bréf. En mér skilst, að það, sem 1. minni hl. leggur til, sé hér um bil það sama og að bankanum væri heimilað að kaupa, því að ríkinu er í lófa lagið að láta bankann borga tilsvarandi arð og þetta kostar. En ef bankinn á að kaupa sjálfur, hvernig endar það? Þá er það raunverulega ríkið, sem kaupir, því að þá er búið að leysa alla aðra hlutaðeigendur út, og þá er ríkið eini eigandinn, því að bankinn er ekki sjálfseignarstofnun. Það er hluti ríkisins í bankanum, sem þá bólgnar um það, sem búið er að kaupa af öðrum hlutabréfum. Ég er ekki í vafa um, að hver einasti einstaklingur, sem hefði þessa aðstöðu, mundi nota þetta tækifæri og kaupa bréfin. Það er ekki hægt að svara mér með því, að bankinn geti tapað. Auðvitað getur hann tapað. En þá er þetta hlutafé það minnsta, heldur er það ábyrgðin, sem ríkið ber á bankanum og engin till. er um að létta af.

Frá mínu sjónarmiði er það svo, að ef ríkið kaupir þessi bréf, þá er það að leysa sig undan þeirri réttlætiskröfu, sem hægt er að gera til þess. Þá á ríkið það við sig sjálft, hvort það borgar út arð, og getur miðað það við sína ábyrgð og sinn eigin hag. En í þessu efni hlýtur ríkið að hafa vonda samvizku gagnvart smáhluthöfunum, meðan þeir eru við lýði.

Ég hefði heldur óskað, að heimild hefði verið veitt til að kaupa öll hlutabréfin. Ég geri engan greinarmun á, hvernig þau eru komin í eigu manna eða hvort það eru innlendir eða útlendir menn, en geri þó ekki till. um það. En þetta er á réttri leið, og þó að öll hlutabréfin yrðu keypt, þá mundi það ekki kosta ríkið nema um 4% af hlutafénu, sem á að vera tiltölulega hæg útborgun á ári, gangi allt brúklega.

Ég vil svo aftur lýsa yfir fylgi mínu við þessa till. Það væri léleg fjármálastjórn fyrir hönd ríkisins að nota ekki þessa möguleika og gera um leið létt í geði mörgu gömlu fólki, sem fyrir löngu er komið út úr atvinnulífinu og hefur ekkert frá fyrra stríði nema tapið eitt.