29.11.1943
Neðri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í C-deild Alþingistíðinda. (2894)

171. mál, atvinna við siglingar

Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti. Við höfum flutt þetta frv. hér þrír þm. þessarar d., og er það eftir tilmælum Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Á síðasta þingi Farmanna- og fiskimannasambandsins var tekið fyrir að ræða það ástand, sem smám saman hefur skapazt hér, að því er snertir réttindi fiskimanna og sjómanna til þess að vera með fiskiskip þau, sem nú tíðkast. Og óskirnar voru nú víst mjög á við og dreif til að byrja með. En þó kom svo að lokum, að þau 14 stéttarfélög, sem eru í Farmanna- og fiskimannasambandinu, komu sér niður á þær till., sem liggja hér fyrir í aðalatriðum, þ. e. a. s., mergur af till. þessum er frá þeim. En við flm. höfum gert breyt. á ákvæði því til bráðabirgða, sem fylgdi þessu frv. frá Farmanna- og fiskimannasambandinu. Þó skal ég taka það fram, að sérstaklega hvað snertir eitt atriði í ákvæðum til bráðabirgða, hafði okkur, sem fluttum frv., láðst að gera breyt. á því, þegar í stað. En við munum sætta okkur við, að sú breyt. verði gerð í þeirri hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar. Getur og verið, að við flm. munum sjálfir koma fram með brtt. um það atriði, því að það stóð til að breyta þessu, en það féll niður af vangá, þegar farið var yfir málið. En þetta ákvæði er, þar sem talað er um, að þeir einir, sem hafa náð 35 ára aldri, geti fengið að ganga undir það sérstaka próf við Stýrimannaskólann í Reykjavík, sem um ræðir í þessu ákvæði til bráðabirgða. Þetta aldurstakmark er að okkar áliti, þó að það standi þarna, allt of hátt. Og þó að ég vilji ekki fara út í það hér, hvað við munum álíta hæfilegt aldurstakmark í þessu tilliti, þá erum við flm. frv. fúsir til þess að fallast á breyt. eða koma sjálfir með brtt. um þetta ákvæði.

En um óskir sínar á þessu sviði segir Farmanna- og fiskimannasambandið í skjali, sem borizt hefur frá því, eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er stefna sambandsins, að menntun sjómanna sé sem bezt og skipin stækki og verði fullkomnari. Á síðustu árum hefur einnig risið hér upp allverulegur skipastóll frá 30–150 rúmlesta, en fyrir stærðina 75–150 rúmlesta nægir ekki hið minna fiskimannapróf. En sú stefna að veita réttindi til skipstjórnar á sífellt stærri skipum án þess að auka á menntunina er í mótsögn við kröfur tímans um framfarir og aukna þekkingu, og því er 75 rúmlesta prófið orðið algerlega ófullnægjandi. En þar sem margir þeirra manna, sem það próf hafa tekið, hafa öðlazt mikla reynslu í sjómennsku og skipstjórn og eru sumir orðnir fullorðnir menn, þá er varla sanngjarnt að ætlast til þess, að þeir fari að setjast á skólabekk að nýju með lítt reyndum piltum. Því er það tillaga vor, að stofnuð verði sérstök kennsludeild við Stýrimannaskólann í Reykjavík, er veiti þeim þann viðbótarlærdóm, sem þeir þurfa til þess að öðlast sömu réttindi og þeir, sem útskrifast úr fiskimannadeild, og verði um prófkröfurnar farið eftir tillögum þeirra manna, sem um það eru dómbærastir“.

Að öðru leyti er hér farið fram á, að próf, sem hafa gilt fyrir 6–15 rúmlestir, gildi framvegis fyrir 6–30 rúmlestir og síðan verði próf, sem veitir réttindi á 30 rúmlesta skipum og upp í stór fiskiskip, látið vera eitt og hið sama, með þeim tíma, sem ákvæðið til bráðabirgða ákveður fyrir þá, sem hafa mikla reynslu í sjómennsku og þurfa ekki annað en lítilsháttar aukna bóklega þekkingu í þeim fræðum, til þess að þeir geti verið full-forsvaranlegir skipstjórar á stærri skipum. Till. miðast enn fremur við það, að það vandræðaástand hverfi, að menn miði stærð skipanna við réttindi þeirra manna, sem stjórna skipunum. Þetta ástand hefur skapazt smátt og smátt, að menn hafa látið smíða skip og miðað stærð þeirra við það, að þeir gætu fengið þau í hendur duglegum fiskimönnum, sem þeir hafa trúað fyrir skipum sínum. En þessir menn eru komnir fram yfir það aldursskeið, að þeir hafi setið lengi á skólabekk, og hafa menn því orðið að slá af kröfunum, hvað stærð skipanna snertir, til þess að geta haft þá formenn á skipunum, sem þeir helzt kjósa. Þetta vandræðaástand þarf því að lagfæra. Það getur vel verið, að eitthvað fleira sé við þetta frv. að athuga en það, sem við flm. við fljótlega athugun höfum getað komið auga á, enda áskiljum við okkur að fylgja eða flytja brtt. eftir þeirri meðferð, sem málið kann að sæta hjá hæstv. Alþ. — Ég vil sérstaklega benda á þetta aldurstakmark, sem við höfum ætlað okkur að breyta, áður en málið væri lagt fram, en fyrir vangá var það ekki gert. Hins vegar hefur Farmanna- og fiskimannasambandið ekki gert ráð fyrir, að þeim námskeiðum, sem haldin hafa verið úti um landið, verði haldið áfram. En það höfum við sett inn hér í ákvæði til bráðabirgða, b-lið, vegna þess að þó segja megi, að það sé ekki til of mikils ætlazt af þeim mönnum, sem þannig fá þá aðstöðu, sem meira prófið veitir, að þeir verji part af tveim vetrum við Stýrimannaskólann í Rvík, þá er svo ástatt um ýmsa menn, sem þar gætu komið til greina, að þeir eru ekki lengur ungir menn og eru komnir í fast form með atvinnu sína, eru t. d. með bát og eiga örðugt með að vera þannig að heiman. Með þessari breyt. viljum við, sem flytjum frv., koma í veg fyrir það, að þessir menn þyrftu að fórna nema einum vetri í Stýrimannaskólanum í Rvík, en námskeiðin, sem gert er ráð fyrir, að haldin verði á fjórum stöðum á landinu, geta gert hvort tveggja í senn að veita farmannaefnum fræðslu, sem nægi, til þess að þeir menn geti tekið þau próf, sem ætlazt er til fyrir 30 tonna báta, og einnig ættu þessi námskeið að geta veitt þá undirbúningsfræðslu, sem þeir menn þurfa, er ætla sér að taka inntökupróf í Stýrimannaskólann í Rvík, en mega ekki missa sig að heiman.

Ég skal svo taka það fram, að þó að ætlazt sé til þess, að þessi l. öðlist gildi þegar í stað, er til þess heimild fyrir stj. í 11. gr. að fresta framkvæmd þeirra, þar til Stýrimannaskólinn tekur til starfa í hinu nýja húsnæði. Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en tel rétt, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til sjútvn.