19.04.1943
Efri deild: 3. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í C-deild Alþingistíðinda. (2928)

3. mál, eignaraukaskattur

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hv. aðalflm. þessa frv. lét þau orð falla í lok ræðu sinnar, að hann óskaði eftir að mál þetta fengi fljóta afgreiðslu vegna þess, að það væri nú þegar athugað allverulega af fjhn. beggja d. í sambandi við dýrtíðarmálin. Býst ég þó ekki við, að hann með þessari ósk sinni sé að fara fram á, að mál þetta hljóti ekki venjulega þinglega meðferð og að umr. um það fari fram á þinglegan hátt.

En ég vil leyfa mér að benda á, að ekki hefur enn farið fram sú athugun á þessu máli, sem hv. 3. landsk. vildi gefa í skyn, að fram hefði farið. Það er að vísu rétt, að þetta mál, eignaraukaskatturinn, var rætt í sambandi við dýrtíðarfrv. hæstv. ríkisstj., en það var fellt úr dýrtíðarfrv. á þeim forsendum, að málið væri ekki nærri nógu vel athugað. Ég tel það hið mesta óráð að ætla sér að afgreiða þetta mál á stuttum tíma, vegna þess að þar er nú um algera nýjung að ræða í íslenzkri löggjöf. Einnig eru í frv. mörg óljós atriði, sem ég tel óráðlegt, að samþykkt séu óbreytt, og yfirleitt þarf frv. að athugast vel og hljóta þinglega meðferð. Það vona ég, að hv. flm. geri sér ljóst þegar í stað.

Ég sagði, að hér væri um að ræða nýjung, og því er ekki hægt að mótmæla, að nýjung yrði þetta í íslenzkri skattalöggjöf, ef frv. yrði óbreytt að l., en mér er ekki kunnugt um, hvort slík löggjöf, sem hér er ráðgerð, tíðkast í öðrum lýðræðisríkjum. Vil ég nú þegar gera um það fyrirvara, að ég mun e. t. v. síðar leita forsetaúrskurðar um þetta frv., þar sem ég tel það áhorfsmál, hvort ekki sé með því verið að brjóta í bág við stjórnarskrá landsins, því að ég efast um, að ákvæði þessa frv. rúmist innan þeirra takmarkana, sem nú gilda í stjórnarskrá vorri um skattaálagningu. Liggur nærri að telja, að hér sé verið að fara fram á skerðingu eignaréttarins, sem stjórnarskráin bannar. Ekki vil ég þó láta þessi orð mín skiljast þannig, að af þeim einum megi draga þá ályktun, að frv. þetta sé fjarstæða að efninu til. Ég vil aðeins benda á þann möguleika, að með frv. sé verið að ganga nær stjórnarskránni en leyfilegt er.

Það má segja, að þetta frv. sé að vísu nýjung í íslenzkri löggjöf, en þó ekki svo mikil sem ég vildi vera láta, því að í frv. stj. hefur líkt ákvæði verið og ákvæði þetta hafi efnislega verið rætt í 8 manna n. í haust og svo aftur í 9 manna n. vinstri flokkanna. Það er rétt, og það skal ég játa, að þetta mál hefur borið á góma áður og komið að nokkru leyti fram í till. hæstv. stj., en með því er ekki slegið föstu, að það fái staðizt né að hyggilegt sé að leiða það í íslenzk lög.

Ég vil og leyfa mér að benda á, að mikill munur er hér á þessu frv. og þeim ákvæðum stjfrv., sem snerta skattamálin. Þar var skatturinn fyrst og fremst áætlaður miklu lægri, en í sjálfu sér hefur það ekki neina úrslitaþýðingu um afstöðuna til þessa frv., heldur hitt, að í frv. stj. voru till. bornar fram beinlínis sem þáttur í þeirri viðleitni að verðfesta og halda í gildi íslenzkum verðmætum, jafnframt því að tryggja atvinnureksturinn og verðmæti eignanna. Og þótt að nafninu til hafi verið lagður nokkur skattur á eignir manna með ákv. þess frv., þá átti sá skattur að renna aftur beint til skattgreiðenda, með því að eignir þeirra voru gerðar verðmeiri en áður. Þetta var eftir efnum og ástæðum skynsamleg ráðstöfun og verjandi.

En í þessu frv. er hugmyndin tekin út úr samhengi við önnur mál og flutt sem beint skattamál eða eignatökumál. Að vísu á að rökstyðja þessa ráðstöfun með því, að óhæfilega mikill gróði hafi skapazt í einstakra manna hendur eða félaga án nokkurs tilverknaðar af þeirra hálfu. Um þetta atriði eru menn nú ekki sammála, enda er það, ef svo mætti segja, endalaust deilumál, hvort þannig beri að líta á þann gróða, sem til verður af stríðsorsökum. T. d. má segja, að skipaeigendur eigi ekki sök á stríðsgróðanum, eða hann sé þeim að þakka, en þá er hitt aftur víst og sannanlegt, að e. t. v. meiri hl. þeirra manna og félaga, sem skip eiga nú, eru einmitt þeir sömu aðilar, sem fyrst fluttu skipakost sinn til landsins, og það löngu áður en stríð það hófst, er nú geisar. Svo er t. d. um Eimskipafélag Íslands, sem nú kemur til með að lenda undir þennan skatt, og einnig er hið sama að segja um mikinn hluta togaraútgerðarinnar. Og víst er um það, að landsmenn hefðu ekki fengið í sínar hendur þann stríðsgróða, sem þeir hafa fengið nú, ef þessi framleiðslutæki, skipaflotinn, hefði ekki verið til þess að sækja hann. Töluverður hluti stríðsgróðans er þannig kominn til landsins fyrir tilverknað stórútgerðarinnar, sem oft undanfarið hefur orðið að horfa fram á tap og hrun vegna óáranar og ófyrirsjáanlegra örðugleika. Það er því órökstudd fullyrðing að halda því fram, að útgerðarfélögin hafi ekkert til þess unnið, að gróðinn skuli safnast til þeirra meira en oft áður, og allra sízt er hægt að bera slíka fullyrðingu fram í þeim tilgangi að réttlæta með henni það stórmál, sem fram hefur verið lagt og birtist í því frv., sem hér er nú til umr. Ekki vil ég þó með þessu vera að halda því fram, að það eigi að ráða úrslitum, hvað þetta mál snertir, heldur vil ég benda á þá staðreynd, að stríðsgróðinn er fyrst og fremst kominn hingað til lands fyrir þær sakir, að flutningatækin voru fyrir hendi, sem atorkusamir menn höfðu með áræði og dugnaði flutt til landsins og standa nú á áratuga gömlum grundvelli. En hvort þetta á að ráða úrslitum, um það má segja, að öllu helzt sé siðferðilegt deiluatriði.

Þetta, sem ég hef hér bent á, sýnir, að röksemdafærslan í grg. frv. er á misskilningi byggð. Má í þessu sambandi og nefna til viðbótar einstakan útgerðarmann eða hlutafélög, sem undir mjög erfiðum og áhættusömum kringumstæðum reynir að ná í skip í stríðsbyrjun, tekst það, og stundar síðan þá arðbæru atvinnu, sem útgerðin hefur nú seinustu árin verið. Það er óvéfengjanlegt, að fyrir tilverknað þessara manna sjálfra er stríðsgróðinn kominn í þeirra hendur. Hið sama er að segja um alla þá, er með atorku sinni hafa komið upp einhvers konar iðnaði. Hver væri ágóði þess iðnaðar, ef ekki hefðu brotizt í gegnum örðugleikana atorkusamir menn og reist sér fyrirtækin? Hið sama er að segja um verzlunarmennina. Sumir þeirra hafa orðið fljótir til að útvega sér sambönd í öðrum löndum með því t. d., eins og sumir gerðu í stríðsbyrjun, að leggja upp í áhættusamt og mikið ferðalag til Vesturheims í þeim erindagerðum að tryggja sér sambönd þar vestra. Þessir menn hafa vissulega átt sinn þátt í því að græða meira á stríðinu en bæði ég og hv. 3. landsk. þm., a. m. k. svo að vitað sé.

Eins og ég hef tekið fram, lít ég ekki svo á, að þetta eigi að ráða úrslitum um afstöðuna til þessa máls, en á þetta drep ég til þess að sýna fram á villuna, sem liggur í röksemdafærslu hv. flm. Því að það er alger óhæfa að láta óáreitt þau bersýnilegu falsrök, sem látin eru renna sem stoðir undir þetta frv.

En ef viðskiptasveiflurnar eiga að fara að réttlæta skattafrv. þetta, sem sé, tekinn sé gróðinn af tilteknum fyrirtækjum, ef almennar breytingar í viðskiptamálum hafa í för með sér gróða þeim til handa, þá hygg ég, að við séum komnir út í þær öfgar, sem við ráðum ekki við og vildum, að ekki hefði verið í ráðizt. Ef fara ætti eftir till. þeim, sem hér eru lagðar fram, þá mætti eins vel álykta, að ef einhver hagnast á „normal“-tímum á saltfisksölu á Spáni eða ísfisksölu í Englandi, af því að góðir sölumöguleikar eru fyrir hendi þar, að þá beri honum ekki sá ágóði, er af sölu hans yrði, því að ágóðinn væri ekki að þakka útgerðarmanninum, heldur verðlaginu í hinu fjarlæga landi. Þannig má sjá af þessu, að hér er verið að fara út í hreinar öfgar og út á þá braut, sem mundi kollvarpa því efnahagsskipulagi, sem meiri hluti landsmanna vill, að í gildi sé.

Auðvitað er hægt að segja, að á stríðsárunum sé mikil auðsöfnun og er ég ekkert að bera á móti því. En að svo miklu leyti sem hún kemur fram í skattaframtölum, hygg ég, að hún sé ekki hættuleg fyrir jafnvægi og heill þjóðfélagsins. Og eitt er áreiðanlega víst, að menn halda þessa auðsöfnun hjá okkur vera meiri en efni standa til. Það er alveg rétt hjá hv. aðalflm., að eignir hafa aukizt mikið, en það á engan veginn að vera hættulegt atvinnulífi landsmanna, heldur þvert á móti. Ég hygg það óráð, ef fara á að taka eignirnar meira eða minna af þeim aðilum, sem að útgerðinni standa. Það mundi verða atvinnulífinu mikið tjón, ef fara ætti þannig að svipta útgerðarmenn þeim að ástæðulausu.

Hugmyndirnar um stríðsgróðann hér hjá okkur eru áreiðanlega ýktar, eins og ég sagði. Við skulum t. d. taka stórútgerðarfélögin, sem alltaf er verið að vitna í. Segjum, að eitt félag, vel stætt, eigi um 200 þús. kr. í sjóði í stríðsbyrjun og að á þeim tíma stríðsins, sem af er, hafi það aukið sjóðinn um 800 þús. og eigi nú l millj. kr. í sjóði. En hvers virði eru þessir peningar miðað við verðgildi þeirra í stríðsbyrjun? Er ekki öll vinna o. fl. 4–5 sinnum dýrari nú en fyrir stríð? Við skulum nú segja, að þetta lagaðist, en er þá ekki einmitt nauðsynlegt fyrir þessi fyrirtæki að nota veltitímann til þess að safna í sjóð til verri áranna? Í frv. er gert ráð fyrir, að nýbyggingarsjóður fái að standa óhaggaður, og er það lofsverð framför frá því, sem í upphafi mun hafa verið ráðgert. Sannleikurinn er sá, að nýbyggingarsjóðirnir eru enn allt of lágir. Láta mun nærri að þeir, sem mest eiga í nýbyggingarsjóði, eigi þó ekki að meðtöldu því, sem þeir leggja í hann árið 1942, meira en sem svarar ¼ hluta byggingarkostnaðar eins togara, eins og hann er í dag og verður, meðan á stríðinu stendur, og næstu árin þar á eftir. Því fer þess vegna svo fjarri, að þessir sjóðir hrökkvi til þess að standa undir nýbyggingunum, þar sem þeir eru aðeins brot af byggingarkostnaðinum. Jafnvel þeir, sem flest skipin eiga og mest hafa grætt, hafa ekki safnað meira en sem svarar verði eins eða tveggja togara. Því fer og fjarri, að stríðsgróðinn hafi ekki verið skattaður. Hann hefur verið skattaður bæði með hækkun á almennum sköttum og svo með sérstökum stríðsgróðaskatti, enda er nú komið svo, að mikill meiri hluti stríðsgróðans hefur þegar fallið til ríkisins. Því fer mjög fjarri, að stórútgerðin hafi safnað nægilegu fé til þess að byggja upp allan flotann, og ég efast um, að hún geti nú byggt hann upp að hálfu leyti, hvað þá, að hún hafi auk þess nægilegt fé til þess að mæta þeim skakkaföllum, sem búast má við, að hún verði fyrir eftir þennan hildarleik, á meðan allt fjármálalíf er að komast aftur í samt horf. Ef við annars viljum halda einkarekstrinum við, þá verðum við að búa þannig að honum, að á veltiárum geti hann lagt í varasjóði og safnað til erfiðu áranna, því að atvinnureksturinn á engan rétt á sér, nema hann geti veitt almenningi atvinnu og brauð á erfiðu árunum líka, en til þess verður hann að fá tækifæri til þess að safna fé í góðærum. Sama máli gegnir um verzlunina. Hér hafa margir grætt mikið á henni, en hafa menn gert sér það ljóst, að ef þessir menn eru skyldu sinni trúir, þá verða þeir að sjá um, að landið sé alltaf nægilega birgt af vörum til nokkurs tíma, en þá verða þeir einnig að geta lagt fé til hliðar, til þess að þeir geti staðið undir verðlækkuninni að stríðslokum. Það er ekki hægt að skipa mönnum að birgja landið upp af vörum, nema tryggt sé, að þeir geti staðið undir hallanum, þegar hann kemur. Ég verð að segja, að það kemur úr hörðustu átt, þegar sumir, sem standa að þessu frv., eru að tala um óhæfilegan gróða verzlunarstéttarinnar, því að hverjir eru það, sem hafa áður skammtað þennan gróða, ef það eru ekki sumir þeir, sem standa að þessu frv. Ég á hér þó ekki við hv. flm., en þá miklu fremur hv. 2. flm., hv. þm. Str., og þá ekki sízt hv. 2. þm. S.-M., sem að vísu er ekki flm. þessa frv., en mun þó vera eindreginn stuðningsmaður þess. Það eru þessir menn, sem hafa ráðið verðlaginu lengst af á þessu tímabili, og með sköttum hafa þeir ákveðið, hvað mikið væri skilið eftir af stríðsgróðanum í höndum einstaklinga. Þá kem ég að því, sem er alvarlegast í þessu máli, og það er öryggisleysið, sem skattgreiðendur eiga við að búa, ef farið er inn á þessa braut. Hér hafa verið í meiri hluta þeir menn, sem hafa lýst yfir því, að þeir hafi litla löngun til þess að hlífa stríðsgróðanum og að þeir vilji jafna lífskjörin. Þessir menn hafa um langt skeið verið allsráðandi hér á Alþ., og þeir hafa lengst af ráðið mestu í ríkisstjórninni. Þeir hafa sett sinn svip á skattalöggjöfina, og þar hafa þeir þegar gengið lengra en verjandi er gagnvart þeim, sem vilja gæta einhverrar varúðar. En menn treystu því þó, að þegar búið væri að taka af þeim það, sem gert var með skattal., og þegar búið var að ganga frá þeim málum á Alþ., þá mundi þeim þó vera óhætt að ráðstafa því, sem eftir var, eins og hverri annarri frjálsri eign, innan þeirra takmarka, sem löggjöfin setur á hverjum tíma. Ef menn geta ekki fengið að ráðstafa því fé í sæmilegu trausti og byggt á því framtíðaráætlanir sínar, þá er algerlega kippt grundvellinum undan því efnahagsskipulagi, sem við búum nú við. Það má segja, að það sé óheppilegt, en það er það, sem við lifum nú við, og ef menn vilja halda því, þá mega þeir ekki viðhafa aðferðir, sem miða ekki að því að byggja það upp, heldur að því að rífa það niður og stofna til enn meira öngþveitis en verið hefur fram að þessu. Ég tel það vera stórhættulegt, ef sú trú kemst inn hjá mönnum, að það fé, sem er skilið eftir hjá þeim af skattheimtunni, megi þeir ekki í fullu trausti skoða sem eign sína og ráðstafa því samkvæmt því, heldur kunni að koma til þess, að löggjafarvaldið átti sig mörgum árum síðar á því, að það hafi skilið of mikið fé eftir í höndum einstaklinga, og muni því ráðlegast að taka nú meira af því. Slíkt hlýtur að hafa mjög lamandi áhrif á allt atvinnulíf og framtak í landinu. En því er ekki að neita, að hjá meðhaldsmönnum og andstæðingum þessa frv. gætir gerólíks skilnings á eignarréttinum.

Meðhaldsmenn frv. álíta, að auðsöfnun sé eins konar þjófnaður og fara beri með þá menn, sem safna fé, sem nokkurs konar þjófa og óbótamenn og að allt það, sem þeir hafa undir höndum, sé illa fengið. Við hinir álítum aftur á móti, að á meðan ekki sé ákveðið að taka upp annað þjóðskipulag og það byggt upp, þá verði að halda núverandi þjóðskipulagi við og skapa því þau skilyrði, að það geti starfað á heilbrigðan hátt. En eitt helzta skilyrðið til þess, að svo geti orðið, er það, að á veltutímum sé atvinnufyrirtækjum heimilt að safna fé til þess að standast skakkaföll erfiðu áranna. Og ef menn óttast, að féð verði notað til annars en æskilegt þykir, þá ætti að herða eftirlitið með því, að ekki yrði illa farið með það. En hitt er með öllu óverjandi að draga féð út úr atvinnurekstrinum.

Ég hef þá drepið á nokkur atriði viðvíkjandi meginstefnu þessa frv., og ég tel þau svo þung á metunum, að menn verði að gæta allrar varúðar í að samþ. þetta frv. Ég tel, að sá siðferðislegi grundvöllur, sem það er byggt á, fái ekki staðizt og að áhrif þess á efnahagssviðinu verði til ills eins, en ekki góðs. Ég vil einnig benda á ýmis einstök atriði í sambandi við frv., sem ég tel stórum varhugaverð og þarfnast frekari aðgerða. Ég get t. d. ekki séð, að í frv. séu gerðar nógu gagngerðar ráðstafanir til þess að komast að því, hvað sé raunveruleg eignaaukning, en það verður að gera, ef frv. á ekki að verða hreinn skrípaleikur, jafnvel frá sjónarmiði þeirra, sem fylgja því. Ég skal geta þess sérstaklega í þessu sambandi, að það eru sum atriði frv., sem hafa við nokkur rök að styðjast, t. d. ef maður selur eignir sínar langt yfir verði venjulegra tíma. Þá játa ég, að ekki sé ósanngjarnt að taka einhvern hluta andvirðisins af honum með sköttum, þar sem þetta fé er dregið út úr atvinnurekstrinum og reynt að koma því á þurrt land. En samkv. frv. er það verðlaunað mest, ef menn hafa dregið fé sitt út úr framleiðslunni og komið því fyrir í sparisjóðsbókum, en hitt er gert refsivert, ef menn halda fénu áfram í fyrirtækjum sínum. Þegar á að fara að meta eignaaukningu manna, væri þá ekki réttmætt að leyfa þeim að leggja dýrtíðarvísitöluverð á eignir þær, sem þeir áttu fyrir stríð? Launþegar segja, að laun þeirra hafi ekkert hækkað nema samkvæmt vísitölu, en hér er maður talinn stríðsgróðamaður, ef eignir hans hafa aukizt eitthvað að krónutölu, og þá ekki tekið tillit til vísitölunnar. Þetta er og gert jafnt fyrir því, þótt maðurinn fái ekkert meira af verðmætum fyrir eignir sínar en í stríðsbyrjun. Ef menn vilja gera sér grein fyrir því, hvort verðhækkun eigna stafar af stríðsgróða eða ekki, þá má ekki miða við það, við hvaða verði væri hægt að selja þær nú, heldur verður að miða við það, á hvað þær hefðu verið seljanlegar fyrir stríð.

Loks vildi ég benda á það, að þótt það sé allt mjög þarft og nauðsynlegt, sem verja á fénu til samkvæmt 5. gr. frv., þá get ég ekki betur séð en sveitarsjóðirnir verði að fá bróðurpartinn af þessu fé, ef taka á eignirnar með þessu móti. Það er vitað mál, að sveitarsjóðunum hefur um langt skeið verið bannað að taka nema sem nemur vissu hámarki í sinn hlut af ótta við það, að sveitarsjóðirnir kynnu að fara lengra í þessum efnum en verjanlegt væri, ef þeim væru engar hömlur settar, þannig að þeir gengju þá á rétt ríkisins. Ef nú ríkið kemst að þeirri niðurstöðu, að of lítið hafi verið tekið af skattgreiðendum, þá á mismunurinn fyrst og fremst að renna til þess opinbera aðilans, sem án síns samþykkis hefur verið sviptur réttinum til þess að taka svo háa skatta sem hann hefði annars kunnað að gera. Ég mun því síðar bera fram brtt. við þetta frv. þess efnis, að einhver ákveðinn hluti þessa skatts skuli renna til sveitarsjóðanna.

Ég hef bent á þau atriði, sem mæla á móti þessu frv., og ég hef bent á þau atriði, sem gæta þarf varúðar við við afgreiðslu þess.

Þrátt fyrir allt þetta vil ég segja það sem mína skoðun, að ég get hugsað mér, að allir geti orðið sammála um að taka einhvern ákveðinn hluta af eignum manna til ríkisins þarfa, ef ríkið er sérstaklega illa statt eða ef það er nauðsynlegt til þess að koma á þeim friði í þjóðfélaginu, sem ég tel, að sé því meira virði en t. d. hvaða efnahagsskipulag skuli gilda í framtíðinni. Ef það væri tilgangurinn, þá skyldi ég vera tilbúinn til viðræðna um þetta mál og ekki standa á móti framgangi þess, en ég er á móti því, að það sé slitið úr samhengi við önnur mál, ekki til styrktar ríkissjóði og ekki til þess að efla friðinn, heldur til þess að efla glundroða og koma á enn meiri óvissu og öngþveiti í þjóðfélaginu en við höfum átt við að búa til þessa. Ég er á móti málinu, ef þetta er tilgangurinn.