19.04.1943
Efri deild: 3. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (2929)

3. mál, eignaraukaskattur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er táknrænt í þessu máli, að því nær allir fylgismenn þessa frv. sitja ekki í deildinni undir umr., heldur eru þeir úti á göngum og í hliðarherbergjum. Hv. 1. flm. gengur hér um eins og á glóðum, en 2. og 3. flm. þykjast ekki þurfa að hlusta, því að það mun vera búið að ákveða, hvernig þetta frv. skuli afgreitt. En mér finnst það ekki óviðeigandi, að hv. þm. sýndu deildinni þá virðingu að hlusta á þau rök, sem borin eru fram í þessu máli, þar sem um svo stórt spor er að ræða sem hér. Það væri ekki óhugsandi, að það gæti breytt einhverju í málinu. Ég skal geta þess, að þetta frv. kemur engum á óvart, sem fylgzt hefur með þeim álögum, er ríkt hafa í skattamálunum undanfarin ár. Þegar svo langt er gengið, að næstum því allar tekjur eru teknar, er vitanlega næsta sporið að taka eignirnar. Það hlýtur að koma að því fyrr eða síðar, þegar haldið er áfram á þeirri braut ár eftir ár að hækka sífellt þann skerf, sem tekinn er til ríkisins af tekjum manna, og það alveg án tillits til þess, hvort ríkissjóður á hverjum tíma þarf á þeim tekjum að halda eða ekki.

Annars vil ég ekki fara mjög langt út í þetta mál, aðeins bera fram fyrirspurnir til hv. 3. landsk. þm. (HG) í sambandi við þetta mál, og ég vænti þess, að hann svari þeim, áður en umr. um þetta mál er lokið hér í þessari d. Fyrsta fyrirspurnin er sú, hvort hann álíti ekki að hér sé með þessu frv., líkt og með l. þeim um dýrtíðarráðstafanir, sem samþ. voru hér á Alþ. fyrir fáum dögum, gengið á bak loforða, sem hæstv. Alþ. hefur gefið þegnum sínum áður með skattal., þar sem þessi l. eiga nú að verka aftur, fyrir sig, þvert ofan í l. og loforð þingsins á undanförnum árum. Í sambandi við þetta bar ég fram fyrirspurn til þessa sama hv. þm., þegar dýrtíðarfrv. var til umr., en henni var aldrei svarað. Vænti ég nú að fá um þetta svar. Þá spurði ég, hvort menn álitu sæmandi fyrir þingið að semja l. um það, að uppbætur, sem ákveðnar væru með þáltill., til embættismanna, yrðu felldar niður um næstu mánaðamót. Það væri alveg hliðstætt þessu, ef t. d. samþ. væri, að ekki skyldu greiddar uppbætur til bænda að sumrinu, sem einnig voru ákveðnar með þáltill. Og í þriðja lagi vil ég nefna síldarmjölið, sem samþ. var að selja bændum fyrir ákveðið verð. Hvernig ætli hv. þm. þætti það, ef fram kæmi till. um að innheimta verðið fyrir það hærra en samþ. var á síðasta þingi? Þetta væri eins og það, þegar fara á að ganga aftan að atvinnurekendum, sem byggja atvinnurekstur sinn á hverjum tíma á gildandi skattal. og selja eignir undir ákveðnum skattal., eignir, sem þeir hafa átt árum saman og þeir vita, að samkv. gildandi lögum eru ekki skattskyldar til tekna við sölu. Mér finnst nú á þrem undanförnum þingum vera búið að stíga svo stór spor í þessum efnum, að hv. þm. ættu að fara að athuga vandlega, hvort þeir vilja láta halda áfram á þessari braut, og að þegnarnir í þjóðfélaginu ættu þá að fá að vita, bæði atvinnurekendur og aðrir, hvort slíkt muni eiga að halda áfram.

Annað, sem ég vil spyrja hv. 3. landsk. þm. um, er það, hvort hann hafi gert sér ljóst, hvernig það kunni að snerta ýmsar stéttir og þegna þjóðfélagsins, ef frv. þeirra verður að l. Ég vil taka dæmi, sem er raunverulega úr lífinu. Það var skipstjóri nokkur, sem sigldi öll þessi stríðsgróðaár. Hann átti 60 þús. kr. eign í lok ársins 1939. Hann hafði skipti á eign sinni fyrir aðra eign, sem er seljanleg fyrir 150 þús. kr. og er á öðrum stað í landinu. Hann hefur haft 90 þús. kr. á ári hverju í áhættuþóknun, sem honum hefur verið lofað, að helmingurinn af skyldi vera skattfrjáls. Á þessu hefur hann auðgazt og bætt við sig öðrum 150 þús. kr. Svo fórst þessi maður, og ekkjan fékk greidda stríðstrygginguna, 50 þús. kr. Ef þessi l. verða samþ. af hinu háa Alþ., þá á þessi ekkja, sem á þessar 350 þús. kr., að greiða af þeirri upphæð 80 þús. kr., og verða þá 270 þús. kr. eftir. Og þá skilst mér, að þessi ekkja fái, rétt eftir minningar athöfnina, að greiða 41.500 kr. eftir þessum nýju skattal. Það getur vel verið, að Alþfl. hafi hugsað sér að vernda þannig rétt þessara ekkna og munaðarleysingja. En bágt á ég með að trúa því, að hv. 3. landsk. þm. (HG) hafi hugsað þessa hugsun til enda. Þetta er aðeins dæmi úr lífinu, og það er dálítið rökfast dæmi. Þessi skattur mun í mörgum tilfellum verka þannig, í sumum tilfellum kannske ekki eins hörmulega og í þessu, en í mörgum líka aftur verr. Ég tel, að fyrir það eitt, að gengið er hér aftan að þeim mönnum, sem á sínum tíma var lofað því af Alþ., að þeir skyldu vera frjálsir með það fé, sem aflað var fyrir að sigla á hættusvæðinu og halda uppi siglingum milli Íslands og annarra landa, þyki þetta kaldar kveðjur, sem með þessu frv. er verið að koma með í þeirra garð.

Þá vildi ég einnig mega gera fyrirspurn til hv. þm. um að, hvort hann hafi kynnt sér það mál, hverjir það voru, sem héldu uppi baráttunni fyrir því, að Íslendingar yrðu ekki skipalausir á erfiðustu árunum, 1934–1939. Mér er það ákaflega vel ljóst, að þá var ekki einasta að etja við fátækt um að afla þjóðinni skipakostsins, heldur líka við ákaflega róttækt skilningsleysi þeirra manna, sem fóru með innflutnings- og gjaldeyrismál þessa lands, og það svo mjög, að þeir menn, sem yfirleitt sáu fyrir fram, að Ísland gat ekki átt framtíð nema með því að eiga skip, þeir urðu að heyja þessa baráttu gegn þessum myrkravöldum og taka á sig þá smán að brjóta lög landsins, til þess að atvinnuvegir landsmanna færu ekki í rústir. Það eru þessir menn, sem í grj. þessa frv. eru að heita má taldir glæpamenn í þessu þjóðfélagi, þeir hafi svo sem ekki fyrir dugnað sinn né atorku verið orsök þess að Ísland hefur nú safnað til sín meiri gróða fyrir einstaklingana og alla heildina en nokkurn tíma áður. En það væri ömurleg sjón hér á Íslandi nú, ef einmitt þessir menn hefðu ekki staðið í starfi sínu eins og þeir stóðu á þeim tímum, þegar erfiðast var hér í þessum málum.

Ég þekki einnig aðra menn, sem um 20 ára skeið háðu þrotlausa baráttu, fyrir því, að kikna ekki undir þeim erfiðleikum, sem þessi útvegur átti við að stríða á þeim árum. Og þessi sami útvegur er þó, ef ekki eina, þá a. m. k. aðalframleiðslutækið, sem hefur nú orðið til þess, að þjóðin hefur hlotið þá góðu afkomu, sem hún hefur haft fjárhagslega á undanförnum árum, en hefur ekki orðið að svelta hér úti í reginhafi.

Í sambandi við þetta vildi ég minna á ummæli hv. 5. landsk. þm. (BrB), þar sem hann hélt því fram, að það væri ekki óeðlilegt að leggja skatt á þá menn, sem hefðu sinnt nýbyggingum, en væru hættir við þann starfa og hefðu dregið fé sitt út úr áhættunni við það. Mér er kunnugt um nokkra menn, sem þetta hafa gert. Þeir voru orðnir þreyttir á tveggja ára baráttu í þessum efnum og persónulegri ábyrgð fyrir sín fjárlitlu félög, og seldu þess vegna til þess að komast úr þessum þrengingum. En það er dálítið merkilegt, að frv. nær bara ekki til þessara manna. En það eru þeir menn, sem keypt hafa þessi fyrirtæki og eiga að líða fyrir það að hafa verið þeir glópaldar að leggja fé sitt í þennan atvinnurekstur, sjávarútveginn, til þess að þjóðin gæti lifað menningarlífi.

Mér er ákaflega vel ljóst, að þessu frv. er sérstaklega stefnt að tvennu, sjávarútveginum, sem vitanlega hefur grætt mikla peninga, en hefur einnig veitt meira fé bæði til ríkisins og til þeirra, sem fyrir það starfa, og það meira en nokkur annar atvinnuvegur í landinu, — og svo er því einnig stefnt að þeim verkstæðum, sem eru að rísa hér upp og sjálft Alþ. hefur talið svo nauðsynlegt, að upp kæmust hér á landi, að það hefur séð ástæðu til að skipa milliþn. til þess m. a. að rannsaka, hvernig megi reisa hér skipasmíðastöð og skipaviðgerðarstöð eða stöðvar í stórum stíl, af því að það sé óverjandi og óþolandi, að landið eigi ekki slík iðjuver. En með þessu frv., sem hér er á ferðinni, er verið að gera róttækar tilraunir til þess að eyðileggja möguleikann til þess, að sá litli vísir, sem vaxið hefur hér upp að slíkum viðgerðaverkstæðum, geti komið undir sig fótum til þess, eftir því sem unnt er, að forða því, að eftir stríð fari allar skipaviðgerðir út úr landinu. Ég hef séð í blöðum nýlega árás á þessi verkstæði, þar sem þau eru talin mikil okurfyrirtæki. En mér þykir gaman að benda á, að bezta árið, árið 1941, sem var í raun og veru gullár þessara fyrirtækja, þá hefur þó það þessara fyrirtækja, sem ríkið sjálft á og rekur, Landssmiðjan, ekki skilað nema 17.100 kr. í beinan hagnað samkv. landsreikningnum, sem nýlega var lagður fram. Og ef afkoman er ekki betri en þetta, þá fer að verða ákaflega tvísýnt, að það séu mikil rök á bak við þær ásakanir, sem fram hafa komið á þessi fyrirtæki, og að mikil ástæða sé til þess að gera alveg sérstakan lagabálk, sem skerði mjög framgangsmöguleika þessara fyrirtækja og kannske stríðir á móti stjórnarskrá landsins, eins og hv. 6. þm. Reykv. benti á, til þess að ná í þann ógurlega(!) gróða, sem hv. þm. geta sjálfir sannfært sig um af landsreikningnum, að er þó ekki meiri en þetta. Ég er persónulega kunnugur þessum málum utan lands og innan. Og mér var það kunnugt, að öll árin frá 1934–1939 áttu öll þessi fyrirtæki hér á landi í erfiðleikum vegna samkeppninnar frá útlöndum. Og þó lögðu útlendu fyrirtækin alla jafna 125% á vinnu sína og efni sitt, þegar þau innlendu lögðu ekki á það nema 40%. Þessi mismunur var ekki af því, að hver einstaklingur hér á landi, sem að þessu vann, afkastaði ekki eins miklu, ef aðstæður hefðu verið hinar sömu, heldur af hinu, að þessi fyrirtæki gátu ekki búið að sér þannig, að verkstæðin gætu afkastað eins miklu og hjá öðrum þjóðum með sama starfsmannafjölda. Vonir þeirra manna, sem að þessum verkstæðum stóðu, glæddust árin 1941 og 1942 um, að þeir gætu notað þann gróða, sem þeir höfðu fengið, til þess að bæta aðstöðuna um þessar viðgerðir. En með þessum l. sé ég ekki annað en komið sé í veg fyrir, að þessi fyrirtæki geti náð nokkurri fullkomnun. Er þetta kannske gert til þess, að þessi fyrirtæki verði tekin og þau rekin af ríkinu?

Ég vil í sambandi við þetta taka fram, að samþ. voru l. á Alþ., ég held, að það hafi verið 1937 eða 1938, um að heimila ríkisstj. að leggja fram allt að 25% af andvirði nýrra skipa sem styrk til þeirra, sem vildu auka flotann með því að smíða ný skip. En þá varð útkoman sú vegna reynslu margra undanfarinna ára, að enginn útgerðarmaður vildi þiggja slíkt kostaboð, vegna þess að útgerðinni var þá sniðinn þannig stakkurinn, að þó að menn hefðu fengið skipin gefins, þá vildu þeir ekki gera þau út undir þeim reglum, sem framlög þessi áttu að veitast eftir, og þeim sköttum og skyldum, sem á þeirri útgerð hefði hvílt þá og mundi hvíla, ef hagur hennar batnaði eitthvað. Mér finnst þetta allt ákaflega athyglisvert, áður en farið er inn á þessa nýju braut.

Nú vildi ég minnast hér dálítið á 4. gr. frv., að jafnvel sjálfir flm. hafa raunverulega ekki trú á því, að frv. þetta nái tilgangi sínum, ef að l. verður, þannig að þetta, sem á að ná, komi nokkurn tíma í ríkissjóð. Því að þeir hafa sett hér inn í frv., að fjmrn. skuli vera heimilt að veita þriggja ára gjaldfrest á þessum skatti, ef féð, sem taka á, liggur bundið í atvinnufyrirtækjum eða byggingum. Og má geta nærri, að verði nokkur frestur á því yfirleitt, að þessi l. verði samþ., þá mun hávaðinn af þeim mönnum, sem eitthvert vit hafa á fjármálum, reyna að binda þetta fé einhvern veginn þannig, að það fengist, a. m. k. þessi lögboðni frestur á greiðslu þessa skatts. En hvaða trygging er fyrir því, að fé þetta komi nokkurn tíma inn? Hver getur tryggt, að þessir sömu menn eða aðilar verði færir um að greiða þessar upphæðir, nema betur sé búið um þessa hnúta en gert er í 4 gr.? Vil ég benda hv. flm. og allshn., sem væntanlega fær málið til meðferðar, á að það veitir ekki af að setja miklu strangari reglur þessu viðvíkjandi, annaðhvort um veð eða annað, til þess að tryggja það, að ríkissjóður fái þetta fé, og helzt, að fyrirtæki þau, sem eiga þessar eignir, séu rekin undir svo sterku eftirliti ríkisins, að ókleift sé að komast hjá því, að ríkissjóður fái þetta fé. Það þurfa ekki að vera miklar verðbreytingar á næstu árum, til þess að útilokað sé, að hægt sé að innheimta þennan skatt í slíkum tilfellum, að óbreyttri þessari grein.

Þá vildi ég benda á það atriði 5. gr., til hvers á að nota þetta fé. Ég er viss um, að þetta er ekki sett inn til þess að styrkja þau mál, heldur til þess að fá frv. fylgi í þinginu. En ég vildi bara mega benda hv. flm. á, hvað hér hefur skeð undanfarið, m. a. um húsaleigumálin. Þegar þau voru á döfinni, þá þótti ekki neinn þegnskapur að eiga hús eða byggja þau. Það þótti sjálfsagt að ganga svo nálægt þeim mönnum, er það gerðu, sem hægt var án þess að vera sekur við stjórnarskrána eða lög landsins. Það þótti sjálfsagt að ganga svo nærri þeim, að þeir yrðu að búa við allt önnur l. í landinu en aðrir menn. Nú, nokkrum dögum síðar, er lögð áherzla á það að taka stórkostlegt fé með nýjum skatti til þess að byggja verkamannabústaði. Af hverju? Af því að svo er búið að þrengja kosti þeirra manna, sem séð hafa fyrir húsbyggingamálunum, að þeir fá ekki að koma nálægt þeim. Það getur vel verið, að þetta sé viturlegt, en ég fæ ekki séð, að svo sé. Sama má segja um raforkusjóð. Að setja þetta ákvæði um hann inn í 5. gr. frv. er gert til þess að fá sveitamenn og umboðsmenn þeirra til þess að fylgja þessu skattamáli. En þó að raforkusjóður fái þessa upphæð, getur það ekki náð tilgangi sínum, nema í landinu séu þau starfandi framleiðslutæki, sem geti skapað tekjur handa ríkissjóði. En hér virðist stefnt að því markvisst, að það geti ekki orðið. Og með því, að svo færi, væru þessar framkvæmdir líkar því, að bóndi skæri kú sína til þess að fá beljusteik. Ég get hugsað mér, að hv. 3. landsk. skilji þetta ekki, En aðrir menn, sem til slíks þekkja, skilja það.

Sama máli gegnir um tryggingarnar. Það þarf ekki langan tíma til þess að éta upp alþýðutryggingasjóð, ef ekkert kemur inn í hann. En það getur verið, að hv. 3. landsk. þm. vilji tryggja allt milli himins og jarðar, en hann lítur bara alls ekki á erfiðleikana, sem eru á því, að hægt sé að fá féð til framkvæmda slíkrar tryggingar. En öruggasta ráðið til þess, að hvers konar tryggingar, hve góðar sem þær eru í sjálfu sér, fari í hundana, er að drepa framleiðslufyrirtækin, því að framleiðslufyrirtækin verða að standa undir öllum tryggingum. Það lifir enginn maður á því, sem hægt er að greiða úr tryggingastofnuninni, ef ekkert er hægt að greiða inn í hana. Ég hygg því, að ekki einasta sú hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, ætti að athuga mál þetta rækilega, heldur einnig, að sjálfir flm. ættu að athuga, hvert stefnir í þessu, ef þessi leið er farin, — svo framarlega sem nokkuð stendur bak við flutning þessa frv. annað en einhver leikaraskapur til þess að afla sér fylgis hjá einhverjum kjósendum í landinu.