14.10.1943
Efri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (2944)

3. mál, eignaraukaskattur

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Það eru aðeins nokkur orð út af fyrirspurn hv. þm. Str. Hann spurði, hvenær nefndin hefði seinast haldið fund og hvenær skjölin mundu verða prentuð og þeim útbýtt meðal þm. Ég get upplýst það, að nm. gengu fyrir nokkru síðan frá sameiginlegri niðurstöðu. En í gær var fundur seinast haldinn í n., og var þá farið sameiginlega yfir þau skjöl, sem fyrir lágu, og að þeim fundi loknum gekk ritari n. í það að láta vélrita skjölin, sem síðan ganga beint til ríkisstj., og það má vel vera, að þau hafi verið send í dag, þó að mér sé ekki kunnugt um það. En út af hinu atriðinu, hvort n. muni láta prenta skjölin til þess að útbýta þeim á meðal þm., get ég tekið það fram, að n. mun að sjálfsögðu engar ráðstafanir gera í þá átt. N. sendir sitt álit til ríkisstj., og hún mun svo gera sínar ráðstafanir þar á eftir.