23.11.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (2957)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í umr. um daginn urðu nokkrar deilur um það, hvers virði hlutabréf Útvegsbankans væru. Þm. Ísaf. hélt því fram, að þau væru meira en nafnvirði og það væri að ganga á rétt kaupenda að selja þau, þau mundu seljanleg innan skamms. Ég leyfi mér að benda á hið sama og hv. þm. V.-Ísf., að bréfin eru einskis virði vegna þeirra takmarkana, sem ríkisstj. beitir á hverjum tíma um arðgreiðslu. Tel ég, að það stappi nokkuð nærri ákvæðum stjórnarskrárinnar að halda þessum eignum verðlausum fyrir almenningi árum saman. Í l. nr. 7 frá 11 marz 1930 stendur í 7. gr.: „Á hluthafafundum félagsins skulu engar takmarkanir vera á atkvæðisrétti, að því er hlutafé ríkissjóðs snertir“. Meðan þetta stendur óbreytt í l., ræður stjórnin ein öllu .um rekstur bankans, arðgreiðslur og sérhvað annað, og getur því haldið bréfunum verðlausum um aldur og ævi, eins og gert hefur verið frá stofnun bankans.

Ef till. 2. minni hl. verður samþykkt, verður réttur hluthafa ekki fyrir borð borinn, enda er sjálfsagt að binda enda á þessa tilraun sem fyrst. Það er ekki sæmandi, að ríkið beiti valdi sínu gegn þegnunum til þess að kúga þá eftir vild. Það á ekki að eiga sér stað, eins og þjóðfélagsskipuninni er háttað að minnsta kosti að nafninu til í þessu landi.

Ef það hefur verið þjóðarnauðsyn að stofna bankann, og um það þarf ekki að efast, þá á líka að meta það við þá menn, sem hjálpuðu til þess, og sýna það nú í verki með því að greiða nú út fé hluthafanna, sem lagt hafa á sig byrðar í þágu alþjóðar á þeim tíma, sem þess var þörf. Eðlilegt væri, að í stað nafnverðs kæmi 120, en ekki mun ég bera fram þá brtt., en sjá, hvernig þessu reiðir af. Með því að tímabinda þetta við 1944 er ekki séð fyrir því, að þeir hluthafar, sem eru í ófriðarlöndunum, geti notið þessa, en það er langt frá að vera rétt að hindra þá, sem dveljast í útlöndum, frá að geta selt sín bréf, láta þá liggja undir þessum — ég vil ekki segja — þrælalögum. Þeirra vegna ætti að miða tímann við stríðslok eða árslok 1944, ef stríðið yrði á enda fyrir þann tíma.