23.11.1943
Sameinað þing: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (2962)

8. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h/f

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég heyri á ræðu hv. þm. Vestm., að hann treystir ekki svo mikið á réttsýni þingsins, að hann sjái sér fært að hafa langt tímatakmark í sambandi við kaupin á þessum hlutabréfum. Hann þekkir þar kannske hugi hv. þm. betur en ég. Og sé það nokkuð þessu fólki til hagsbóta, þá mun ég fylgja þeirri till., sem hann ber hér fram, en tek fram, að það útilokar náttúrlega ekkert, að þetta réttlæti náist síðar. Og þegar svo ýmsir hafa komizt á þá skoðun, að hér sé réttlætismál á ferðinni, þá verður bætt úr þessu og öllum gert jafnt undir höfði.

Viðvíkjandi ummælum hv. þm. V.-Húnv. þykir mér rétt að leiðrétta dálítið þau alveg fölsku rök í þessu máli, sem ég veit, að hann hefur látið falla þvert á móti betri vitund, — og hann veit það mjög vel, að það er ekki nema einn maður, sem ræður því í stjórn Útvegsbankans raunverulega, hvort greiddur er arður af þessum hlutabréfum. Það er ekki einu sinni, að það sé stjórnin öll, sem um það mál fjallar, heldur einn maður, sem öllu ræður á aðalfundi bankans, sem er fjármálaráðherra á hverjum tíma, þó að aðrir menn komi á fundinn eins og fylgifiskar hans, sem komast ekki upp með neitt, hvorki um eitt né annað varðandi rekstur bankans. og vald þeirra á aðalfundinum er því ekki nema á pappírnum. Það er þetta, sem skapað hefur alla þessa óánægju og hefur gert þessi bréf, eins og á stendur, ósöluhæf manna á milli. Og þegar hv. þm. Ísaf. lýsti yfir, að þess sé ekki að vænta, að þessu ranglæti verði breytt, þá er ekki um annað að gera en ríkið, þ. e. Alþ., sjái sóma sinn í því að leysa þessa menn út, sem ríkið hefur haldið í okurklóm nú í 12 ár.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að enginn hefði verið þvingaður til þess að leggja sparifé sitt inn í bankann sem hlutafé. Þetta er rangt. Þessu fé var safnað á tvennan hátt til þess að gera það að hlutafé. Því var haldið að mönnum, að ef þeir legðu ekki þetta sparifé sitt inn í Útvegsbankann á þennan hátt, þá væri þeim þetta fé tapað. Þeir, sem sáu lengra og vildu ekki beygja sig undir þann dóm, fengu fé sitt útborgað. Hinir voru flekaðir til þess að leggja fé sitt inn sem hlutafé í bankann. — Í öðru lagi var fénu safnað í bankann með því, að því var haldið fram, að þjóðarnauðsyn krefði að koma fótum undir þessa stofnun, og ýmsir hafa vafalaust látið til leiðast, af því að slegið var á þá strengi.

Þá er það viðvíkjandi útlendingunum. Eru þeir útlendingar, sem stutt hafa að því, að bankinn er nú orðinn góð eign, og stutt hafa að því, að eignir hans hafa tvöfaldazt, — eru þeir slíkir glæpamenn, að ekki megi fara með þá eins og aðra menn? Er það aðalatriði í þessu máli að beita útlendinga, sem hjálpað hafa þjóðinni í sambandi við þennan banka til þess að komast áfram, þeim tökum, sem stimpla okkur sem ómenningarþjóð? Ég álít, að ekki þurfi að beita þá neinum fantatökum. Það getur vel verið, að hv. þm. V.-Húnv. sjái ekki lengra en út fyrir sína sýslu. En það er of þröngt sjónarmið fyrir mann, sem hefur komizt inn í ríkisstjórn Íslands.