03.12.1943
Efri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (2972)

3. mál, eignaraukaskattur

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson) :

Ég skal nú vera stuttorður, en þó kemst ég ekki hjá að svara einstaka atriðum.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að þessi skattur kæmi til með að lenda á mönnum, sem raunverulega hefðu ekkert aukið eignir sínar, eða svo gæti a. m. k. orðið í sumum tilfellum. Ég get huggað hann með því, að ótti hans er alveg ástæðulaus í þessu sambandi, ekki sízt ef breyt. verður gerð á 3. gr., sem verða mun.

Hv. þm. var að taka dæmi máli sínu til sönnunar. Hann sagði, að embættismaður t. d., sem seldi hús sitt fyrir fimmfalt kaupverð, mundi lenda í þessum skatti. Þetta er alveg rétt, ef sölugróðinn kemst yfir 100 þúsund. En þá væri líka um raunverulega mikinn gróða að ræða. Þótt þessi maður seldi fyrir fimmfalt kaupverð, þá skal ég játa, að peningagróði hans þyrfti ekki að verða að neinu ráði, eins og tímarnir eru, ef hann hugsaði sér að endurnýja húsið, byggja eða kaupa annað. En hann væri ekki neyddur til að byggja, ef hann á annað borð seldi hús sitt. Ég hygg, að hús séu yfirleitt keypt í skuld að meira eða minna leyti, og gæti þá maðurinn greitt skuld sína og átt þar að auki mikið í reiðu fé, ef hann seldi fyrir fimmfalt kaupverð. Við skulum hugsa okkur, að ég eigi hús, sem hefur kostað mig 40 þúsund, og ég hafi fengið allt kaupverðið að láni. Nú sel ég þetta hús á 140 þúsund, borga skuld mína, þessi 40 þúsund, af söluverðinu og á auk þess 100 þúsund í reiðu fé sem hreinan gróða. Langflest af þeim tilfellum, sem skatturinn getur átt við, eru svipuð þessu, er ég nefndi, því að venjulega fylgja áhvílandi veðskuldir fasteignum. Vitanlega er maðurinn svo sjálfráður, hvernig hann ráðstafar þessum gróða. Hins vegar skal ég játa, að mismunandi meðferð er á þeim, sem búnir eru að selja fasteignir, og hinum, sem eiga þær enn. Mér er þetta ljóst, og eðlilegt væri, að síðar yrðu sett l. um verðhækkunarskatt, og er ég fús til að ræða um það við hv. þm. Seyðf., hvort við getum orðið sammála um ráðstafanir í þá átt.

Skáldsögur hv. þm. um, að jafnaðarmenn hefðu ekki viljað leggja fram fé til útgerðar, eru nú ekki réttar. Það stóð á gjaldeyri.

Hv. þm. sagði einnig, að hann væri sammála Gladstone um, að hver eyrir væri betur kominn hjá skattþegninum en ríkinu, nema hann færi til nauðsynlegra fjárútláta. En það er nauðsyn til svo margs. Það getur orðið erfitt að skilja á milli þess nauðsynlega og hins ónauðsynlega. Munu t. d. ekki allir hv. þm. álíta þær fjárveitingar nauðsyn, sem þeir greiða atkvæði með? Ég hugsa, að hv. þm. þurfi ekki að bregða vináttu sinni við Gladstone, þótt hann greiddi þessu frv. atkvæði.

Þá taldi hv. þm. nafnskráningu verðbréfa miklum annmörkum háða. Ég skal játa, að ég hefði kosið aðra leið fremur, og því hef ég áður flutt frv. um vaxtaskatt, í því skyni að ná skatti af verðbréfum, sem eru ekki sem beztar heimtur á. Hins vegar sé ég ekki, að nein stórhætta geti stafað af þessu.

Hv. þm. Barð. sagði hér sögur um ýmsa erfiðleika, sem menn hefðu átt við að stríða. Ég skal ekki fara út í að rekja þær sögur og að sumu leyti staðhæfingar. Hann spurði, hverjir hefðu barizt við erfiðleikana 1932–1937 í sjávarútveginum. Þeir voru margir, sem gerðu það, ekki er því að neita, og þeir, sem þyngstu byrðarnar báru, voru í augum sumra útgerðarmennirnir. En það er vitað, að á síðari hluta þessa tíma voru það í raun og veru lánsstofnanirnar, sem báru megináhættuna af útgerðinni, þannig að ef illa fór, þá lenti skellurinn á þeim. Og þegar svo var komið, að þeir, sem töldust eigendur fyrirtækjanna, voru það raunverulega ekki, þá báru þeir enga sérstaka áhættu. Ef á að tala um áhættu í þessum efnum, þá var hún vitanlega á almenningi í gegnum meðferð þess fjár, sem bankarnir höfðu til ávöxtunar, auk þeirrar áhættu, sem hvíldi á því fólki, sem vann við þessi fyrirtæki á sjó og landi og átti sína lífsafkomu undir því, að þau gætu haldið áfram.

Hann mótmælti því, að sá gróði, sem hér hefur safnazt, sé tilviljunargróði. Það má deila um það óendanlega, því að menn munu leggja á það mismunandi mat. En ég hygg, að ef menn ræða þetta í alvöru, geti enginn látið sér detta í hug, að gróði styrjaldaráranna sé til orðinn fyrir sérstaka atorku þessara manna umfram það, sem þeir hafa sýnt í starfi sínu á öðrum tímum. Það er vitað, að það verð, sem hefur nú verið greitt fyrir fiskinn, er í engu sambandi við það, sem útgerðarmenn hafa á sig lagt, heldur er það hrein og bein tilviljun, hrein og bein afleiðing þess óskaplega ástands, sem nú er í heiminum.

Hv. þm. segir, að það sé ekki annað en tilfærsla að setja l. um að skattleggja útgerðina og leggja síðan fé fram henni til styrktar. Allir skattar eru tilfærsla, en við álítum, að það sé betur tryggt, að þetta fé fari til þeirra framkvæmda, sem mest er áríðandi, með því að viðhafa þá tilfærslu, sem gert er ráð fyrir í frv., en að það sé áfram í eigu einstaklinganna, og það sé aukið öryggi fyrir þjóðina. Og reynslan sýnir okkur, að fullkomin ástæða sé til að fara þannig að.