06.12.1943
Efri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (2975)

3. mál, eignaraukaskattur

Frsm. minni hl. (Lárus Jóhannesson) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að svara hv. 3. landsk. (HG). Við vitum allir, hvílíkur mælskumaður hann er og hve rökfastur, og þegar hann hefur ekki annað fram að færa þessu máli til stuðnings en rök hans á síðasta fundi báru vott um, er það vitni þess, að ekki sé um gott málefni að ræða. Eins og ég gat um í ræðu minni, er verðgildi íslenzku krónunnar þannig, að það er hér um bil ómögulegt að segja, hvort um raunverulegan gróða er að ræða í mörgum tilfellum eða ekki, og er verðgildið mismunandi eftir því, til hvers peningarnir eru ætlaðir. Framfærsluvísitalan er hjá okkur milli 250 og 260, en svo eru aðrar vísitölur, t. d. byggingavísitalan, sem er a. m. k. fimmföld. Þegar seilzt er svo langt niður að taka skatt af 100 þús. kr. á 4 árum, er gengið svo langt, að ég býst við, að menn geri sér ekki grein fyrir, hvað verið er að gera. Ég býst við, að fyrir stríð hefði engum vaxið svo í augum, að það þyrfti að grípa til eignaaukaskatts, þó að maður hefði lagt fyrir 5000 kr. á ári til þess að koma yfir sig húsi. Ef hann hefði lagt fyrir 5000 kr. á ári í 4 ár, hefði það verið fyrir 4 herbergja íbúð. Þegar hann leggur fyrir 100 þús. kr. nú, nægir það varla fyrir sams konar íbúð. Yfir höfuð það, að fara niður í svo lága upphæð miðað við dýrtíðina og stöðuga verðlækkun peninganna, er út af fyrir sig óverjandi. Í ræðu minni á fundinum benti ég á það, að þar sem um verulegan gróða er að ræða, eru ríkissjóður og bæjarsjóðir búnir að fá bróðurpartinn. Ég álít því, að ef setja á þetta frv. gegnum þingið, verði að hækka að mjög miklu leyti þá upphæð, sem tekinn er eignaaukaskattur af, og sé ekki betur en að í áliti mþn. og jafnvel af GÍG sé fallizt á það, að takmarkið sé of lágt. Ég verð því að áskilja mér rétt til við 3. umr., ef þetta frv. fer gegnum 2. umr., að koma fram með till. um, að hækkuð verði til mikilla muna sú upphæð, sem eignaaukaskatturinn verði tekinn af, og þá um leið lækkuð sú prósentuupphæð, sem taka megi, því að hún er allt of há og getur leitt til stóróþæginda fyrir hlutaðeigendur, enda gerðu sjálfir flm. ráð fyrir því, að svo djúpt yrði seilzt niður í vasa manna, að það þyrfti að skipta skattinum á allmörg ár.

Í þetta skipti ætla ég að láta mér nægja að athuga tvö atriði í frv. Það er í fyrsta lagi þar, sem gert er ráð fyrir að nafnskrá verðbréf. Það hefur gengið, eins og hv. 3. landsk. (HG) sagði, nokkuð vel að selja skuldabréf ríkis og bæjar, en þó ekki nærri því eins vel og menn höfðu búizt við. Það er t. d. kunnugt, að verzlun á kaupþingi Landsbankans hefur verið örlítil, og það er kunnugt, að Landsbankinn liggur með miklu meira af bréfum þeirra bæjarfélaga, sem hann hefur annazt sölu á, en búizt var við, og eru þó öll bréfin gefin út á handhafa. Ég held, að ekki komi til mála að leggja þær stórkostlegu hömlur á viðskiptalífið að banna handhafaskuldabréf, og verði það gert, mun það sjást, að það verður ákaflega erfitt að fást við verðbréfasölu og þá um leið erfitt að fá lán í stórum stíl. Það, að menn vilja handhafaskuldabréfin, er ekki vegna þess, að þeir vilji svíkja undan skatti, heldur vegna þess, að þau eru seljanlegri en önnur bréf. Þetta eru bréf, sem menn kaupa, þegar þeir telja sig hafa reiðufé aflögu. Ég vil því leyfa mér að bera fram brtt. um, að orðin: „svo sem með nafnskráningu verðbréfa“, falli niður.

Svo er annað. Ég tók það fram um þessa eignatöku, sem stappar eins nærri því að brjóta 62. gr. stjórnarskrárinnar og hægt er, að ég gæti hugsað mér hana í sambandi við t. d. ríkisgjaldþrot eða til að bjarga atvinnuvegunum frá bráðu hruni. Það var á lokuðum fundi í Sþ., sem hæstv. atvmrh. kom fram með hugmynd, sem væri ekki fjarri lagi, ef þessi eignataka á að fara fram, nefnilega að tekjunum verði varið til að greiða það, sem við höfum skuldbundið okkur til að greiða til alþjóðahjálparstarfsemi eftir stríðið.

Ég hef leyft mér að skrifa hér brtt. við 5. gr. og æski þess, að hv. d. veiti afbrigði fyrir henni. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Tekjum þeim, sem aflað er samkvæmt lögum þessum, skal varið til að standast kostnað ríkisins við alþjóðahjálparstarfsemi“.

Það getur verið, að það megi orða hana betur, en hitt sé ég ekki, að sé verjandi, að búta þessa fjárfúlgu niður í þrennt eftir aðalinteressum þriggja flokka. Hitt er nær að láta hana fara í skuldbindingar, sem við höfum tekið á okkur og eru í samræmi við vilja þjóðarinnar, að við tökum á okkur og stöndum við.