06.12.1943
Efri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í C-deild Alþingistíðinda. (2977)

3. mál, eignaraukaskattur

Magnús Jónsson:

Ég hef enga sérstaka ástæðu til að hlaupa í skörðin fyrir meðnm. mína í minni hl. fjhn., en ég vil samt gjarnan láta í ljós skoðun mína. Í sjálfu sér er það engin furða, eins og leitað er eftir fé í ríkissjóðinn, þó að borið sé niður hér. Hv. flm., 3. landsk. þm., sagði, að Alþ. gæti ekki horft upp á, að hundruð milljóna söfnuðust saman, og vildi með öllu móti reyna að koma í veg fyrir slíkt þjóðarböl. Það er út af fyrir sig, þó að mönnum þyki þurfa löggjöf til að koma í veg fyrir slíkt. Þetta er nú gert frá ári til árs svona allsæmilega, en menn þykjast sjá, að eitthvað hafi upp hrúgazt, og vilja nú þjóta upp til handa og fóta til að taka rökin eftir hirðinguna.

Um eignaaukaskatt í þessa átt kemur fyrst fram í till. ríkisstj. í frv. um dýrtíðarráðstafanir, III. kafla. Er þar ekki farið mjög djúpt í vasann, en þó sæmilega, en byrjað á því, að af 50–100 þús. kr. átti að greiða 5% og svo hækkandi um 1% fyrir hverjar 100 þús. kr., þar til er eignaaukningin hefur náð 2 millj., og ef út í þetta á að fara á annað borð, er þar með stillingu í hlutina farið, enda muna þm., að á móti þessum eignaaukaskatti var haft af okkur sumum, sem erum á móti slíku yfirleitt, og svo hinum, sem þótti of skammt gengið. Tekjuaukanum átti að verja til að reisa nauðsynleg hús handa ríkinu á sínum tíma, og kom í ljós, að þessi skattur var ætlaður til að taka úr umferð fé, því að engum kom í hug, að um stórkostlegar dýrtíðarráðstafanir væri að ræða, heldur var tilgangurinn að taka féð og geyma og nota á sínum tíma.

Eftir að þetta blóð var komið á tunguna, var mikið um slíkan skatt rætt, og virtist svo sem allir flokkar nema Sjálfstfl. væru í kapphlaupi um þetta, og nú er frv. fram komið, sem hér liggur fyrir. Það hefur legið lengi fyrir, þó að það kæmi ekki fyrr en seint á þ. til meðferðar, meðfram af því, að mþn. hafði ekki skilað áliti sínu. Ég ætla ekki að fara út í það álit, enda er þess ekki þörf, því að hv. þm. Barð. hefur mikið vitnað til þess og sýnt, með hve miklum rökum minni hl. mælti á móti því.

Ég vil segja það almennt, að ég vil ekki mæla alveg á móti því sem grundvallarreglu, að ríkið taki eignaaukaskatt. Ég hygg, að það gæti komið fyrir, að hann væri réttmætur, en til þess fyndist mér, að þrjú atriði þyrftu að fara saman: Í fyrsta lagi, að hrúgazt hefðu upp miklar eignir og mikill gróði, sem að mestu leyti væri óforþéntur, í öðru lagi, að á þeim árum, sem þessar eignir voru að safnast, hefði ríkisvaldið vanrækt að taka verulega skatta; og í þriðja lagi, að þjóðfélagið væri statt í mikilli neyð. Ég get líka bætt við fjórða atriðinu: Að úr þessu væri hægt að bæta með einni stórri ráðstöfun. Þegar á þetta er litið, mætti í fljótu bragði ætla, að fyrsta atriðið væri þó fyrir hendi. Hér hefði sannarlega safnazt stríðsgróði og það hjá tiltölulega mörgum mönnum. En ég vil ekki fallast á það óskorað, að um óforþéntan gróða sé að ræða. Flestum kemur saman um, að þessi skattur sé miðaður við nokkra stórútgerðarmenn, t. d. nokkur togarafélög, og það er alveg satt, að stórútgerðin hefur fengið mikla bita á stríðsárunum. En þegar á það er litið, hvað gróðinn er óforþéntur, verður að taka tillit til margra hluta. Við skulum taka til dæmis togarafélögin Kveldúlf og Alliance, sem störfuðu á byrjunarárum togaraútgerðar á Íslandi. Fyrst í stað voru ekki góðir tímar fyrir útgerðina, enda gáfust margir upp. Ég þekkti Jón Ólafsson vel, og hann sagði mér margar sögur frá þessum árum, sögur um það, þegar gengið var á milli bankanna og einstaklinga til að reyta saman fé til að halda þessum fyrstu togurum úti. En félögin komust yfir örðugleikana og græddu, en ekki komu miklir peningar í vasa stjórnendanna. Það, sem græddist, var lagt í að koma upp einhverju af. því, sem þurfti til útgerðarinnar, því að í raun og veru var ekki til neitt til neins. Það þurfti að koma upp húsum og bryggjum og auka flotann. Svona var togaraútgerðin byggð upp hér á Íslandi, og er langt frá því, að þjóðfélagið þurfi að hefna sín á þeim mönnum, sem þar voru að verki. Eftir þetta fór nú svo, að um þennan gróða þurfti ekki mikið að tala, því að í gamla stríðinu og í kringum 1920 var allur þorrinn af togurunum seldur úr landinu, en eftir 1920 kom svo mikil kreppa, að lá við bankahruni, og þá var tekið í Englandi þetta mikla lán, sem stj. sætti árásum fyrir að hafa tekið, en allir sannfærðust um, að var góð ráðstöfun, því að það fleytti útgerðinni áfram og reyndist borga sig. Nú hélt allt vel áfram, og félögin voru orðin stórefnuð, þegar nýja kreppan kom um 1930. En síðan komu árin hvert eftir annað, þegar félögin fóru smátt og smátt að skila þessum gróða frá sér aftur. Fyrst hvarf inneignin, svo fóru skuldirnar að aukast. Við bankaráðsmennirnir fylgdumst með þessu. Yfir þetta hefur svo þetta síðasta stríð fleytt félögunum. En þá er mest talað um óforþéntan stríðsgróða. Tvisvar hafa félögin orðið að skila öllu sínu til þess að halda uppi lífvænlegri atvinnu við fyrirtækin.

Þetta vil ég ekki kalla stríðsgróða, heldur hjá nýgræðingum, sem aldrei hafa barizt í bökkum, til að geta haldið uppi atvinnu í landinu. Það eru þrautseigustu mennirnir í okkar þjóðfélagi, sem hafa fleytt félögum sínum gegnum gott og illt.

Þetta fyrsta atriði af þeim fjórum, sem ég nefndi, er því að þessu leyti ekki fyrir hendi eins óskorað og menn láta. Útgerðin hefur ekki verið neinn Aladdinslampi. Það er sjálfsagt eitthvað til af hreinum stríðsgróða manna, sem hafa verið heppnir, en það mun áreiðanlega reyna á þennan gróða seinna, og það verður ekki stór kúfurinn á honum nokkrum árum eftir stríð.

Þá skulum við taka annað atriðið, hvort þessara tekna hafi verið aflað á tímum, þegar ríkið hafi vanrækt að taka skatta. Ónei, á þessum árum hafa skattar verið hér einhverjir þeir hæstu, sem við höfum nokkurs staðar spurnir af. Ég veit ekki, hversu hart hefur verið gengið að mönnum í stríðslöndunum, en gerður hefur verið samanburður við nágrannalönd okkar, og hefur hann sýnt, að hvergi hefur verið gengið eins hart að mönnum og einmitt hér, hvað þessa skatta snertir. Þessi eignaauki hefur alltaf verið tekinn jafnóðum af mönnum, þótt þeir hafi ekki verið neinir nýgræðingar, svo að því er ekki til að dreifa, að þjóðfélagið hafi látið hjá líða að innheimta skatta af gróða stríðsáranna.

Þriðja atriðið, sem þarf að vera fyrir hendi eftir minni skoðun, til þess að hægt sé að samþ. þetta frv., fjallar um, til hvers þessum gróða skuli varið. Ef þetta atriði væri fyrir hendi, mundi það þýða það, að þjóðfélagið væri komið á heljarþröm, skattstofnar tæmdir og allt atvinnulíf að þrotum komið. Þó að menn að vísu séu kankvísir yfir nokkrum atvinnuleysistilfellum í Hafnarfirði og krunkhljóð heyrist í mönnum yfir að heyra þetta, þá er samt, eins og kunnugt er, engin alvara á ferðum enn þá. Þetta þriðja atriði eða þetta ástand, sem ég minntist á, liggur til allrar hamingju ekki fyrir, og það er því ein af þeim ástæðum, að ég er á móti þessu frv. Þetta frv. er því ekki aðeins rangt, heldur stórhættulegt, þar sem þetta ástand stendur ekki fyrir dyrum, því að með því er verið að reyna að éta upp þá möguleika, sem þjóðfélagið kynni að geta haft til þess að bjarga sér úr erfiðleikunum, ef til þess kæmi, að þeir mundu skapast.

Það má taka sem dæmi ferðalang eða pólfara, sem leggur til hliðar birgðir af mat eða slíku til heimferðarinnar og ætlar sér að geyma sem nokkurs konar varasjóð. En það væri einkennilegur pólfari, sem skeytti ekkert um þetta, æti allt nesti sitt upp, sem hann ætlaði sér til heimferðarinnar, meðan hann hefur nóg af öllu. Et efnahagur manna hefur aukizt, á þjóðfélagið þar eins konar varasjóð, en frv. það, er hér um ræðir, gerir ráð fyrir, að fé þetta renni í venjulega eyðslu og verði varið til trygginga, bygginga og annars slíks, rétt eins og öðrum tekjum ríkisins. Sama máli gildir um aðrar þær brtt., sem fram hafa komið, og er ég því á móti þeim, en mundi þó helzt kjósa brtt. hv. þm. Seyðf., sem fjallar um að eyða þessu fé til dýrtíðarráðstafana. Ég gæti trúað því, að ef atvinnuleysi brytist út, yrði farið ofan í vasa manna og tekið þaðan stórfé eins og hér um ræðir, 12 millj. kr., en ég vil, að nú sé hafizt handa og komið upp verksmiðjum og keypt skip til þess að styrkja þá menn, sem vilja koma upp fyrirtækjum í þágu atvinnuveganna. Það gæti aftur á móti orðið til þess að fleyta fólkinu yfir hina dauðu punkta eftir stríðið, sem þyrftu ekki að vera langir, því að á þann hátt gæti vinna komizt í sama horf aftur. Ég hef nú dregið fram í stórum dráttum, að ekkert af þeim atriðum eða skilyrðum, sem ég tel, að ættu að réttlæta slíka löggjöf, eru fyrir hendi, og er það því ærið nóg til þess, að ég er slíkri löggjöf andvígur.

Eins og ég hef áður sagt, er fyrsta skilyrðið, að hér væri um óvæntan og óverðskuldaðan gróða að ræða. Annað atriðið er, að ríkið hefði látið hjá líða að innheimta verulega skatta af þessum tekjum, og hið þriðja, að þjóðfélagið væri komið í mikla neyð, sem hægt væri að bæta úr með slíkri eignatöku. Ég tel því þetta frv. stórkostlega hættulegt, þar sem ekkert af þessum skilyrðum er fyrir hendi, því að það miðar að því að taka það fé af mönnum, sem gæti orðið nokkurs konar síðasta neyðarvörn okkar, ef það ástand skyldi skapast, sem nú er ekki fyrir hendi, en gæti því miður síðar komið.

Þetta voru grundvallaratriðin, en fyrir utan það eru ýmis önnur atriði, sem hér hafa verið rædd. Þessi aukaatriði í frv. eru ýmist skaðleg eða vanhugsuð, þótt að vísu væri hægt að bæta úr þeim að einhverju leyti.

Í fyrsta lagi vil ég benda á það, að eignaaukningin er ekki fyrir hendi sem skattstofn, og þetta verða flm. frv. að játa.

Við skulum segja, að ég væri orðinn stríðsgróðamaður og hefði keypt togara fyrir 300 þús. kr., græddi á honum 600 þús. kr. og tæki af þeirri fjárhæð til þess að gera skipið upp. Togarinn stendur mér nú í tæpri milljón króna, en hvernig á ég að borga stríðsgróðaskatt af þessu? Er þarna í raun og veru um stríðsgróða að ræða? Ef stríðið hættir nú allt í einu og höfin fyllast af ágætum skipum, getur þessi togari fallið í verði niður fyrir 300 þús. kr. En meðan hann stendur mér í hinu háa verði, get ég ekki borgað þennan eignaaukaskatt, vegna þess að ég á ekki grænan eyri til þess að borga með, en yrði að fara í lánsstofnun og biðja einhvern banka um lán út á þessa eign. Ég hef minnzt á þetta við bankamenn, og kemur þeim saman um það, að ef þessi skattur verður að lögum, muni verulegur hluti þessara 12 millj., sem hér um ræðir, verða að koma sem lánsfé úr bönkum, vegna þess að þetta fé liggur ekki fyrir sem laust fé. Hér kemur því fram gamla hugmyndin um maurapúkann, sem hrúgar upp peningum, sem hann getur talið fram úr handraðanum, og að það sé því ekki mikið fyrir mann, sem hefur grætt 1 millj. kr., að telja fram nokkur hundruð þús. En hér er ekki um neinn slíkan handraða að ræða, því að þessi gróði, sem talað er um, er sumpart ímyndaður gróði, sumpart fastur í fyrirtækjum eða eignum, og eini möguleikinn til að greiða skattinn er því að leita til lánsstofnunar. Ég kysi, að svona frv. færi til umsagnar bankanna, því að gaman væri að vita, hvað þeir segðu um svona vanskapning, ef leggja á á 10–20 millj. kr. skatt, en að 10 millj. af þessu yrðu að koma sem lánsfé úr bönkum. Þeir tímar fara nú ef til vill í hönd, að erfitt fer að verða fyrir ýmsum fyrirtækjum og þess því ekki að vænta, að bankarnir vilji taka að sér þessi lán, því að svo getur farið eins og fyrr, að bið verði á greiðslum og lánin „frjósi“, og gæti þetta því orðið til þess að setja bankana og marga fleiri á höfuðið.

Eignaaukningin er sem sagt í fyrirtækjunum og þar af leiðandi ekki skattstofn. Fyrirtækin eru skattstofn með tekjum sínum og hefur ríkið séð fyrir því að ná þeim tekjum.

Næst er atriði, sem mest hefur verið rætt hér um og manni dettur alltaf fyrst í hug, þegar maður sér löggjöf eins og þessa. Hér vantar alveg grundvöllinn, — nefnilega að maður geti metið, hver gróðinn er. Ef reiknað er með allt annarri fjárhæð í byrjun og svo aftur með hærri upphæð í lok, er sagt, að þar sé gróði. Frsm. minni hl., hv. þm. Seyðf., dró þetta mjög vel fram með einstökum dæmum. Það eru því algerlega rangar rökfærslur að rekja eignaaukningu eftir krónutölu einni saman, þegar það er vitað, að þær krónur, sem reiknað er með, eru sífellt fallandi í gildi.

Hv. þm. Seyðf. tók dæmi, sem ég held, að rétt sé að rifja upp aftur í þessu sambandi. Tveir menn eiga sitt húsið hvor, og kostaði hvort 50 þús. kr. Annar þeirra selur hús sitt fyrir 250 þús. kr., en sér eftir því og kaupir alveg eins hús fyrir 250 þús. kr. Hver er munurinn á aðstöðu þessara tveggja manna? Þeir áttu báðir eins hús fyrir stríð. Annar þeirra selur hús sitt, en hann kemst fyrir það í stórkostlegan eignaaukaskatt, en hann hefur slegið því föstu, að hann hafi grætt með því að selja hús sitt. Frsm. meiri hluta fjhn. taldi bezt að bæta úr þessu misrétti með því að leggja einnig á verðhækkunarskatt, sem kæmi þá á þann, sem seldi ekki. Þá lenda báðir mennirnir í stórkostlegum skatti fyrir það að vera jafnríkir. En sannleikurinn er sá, að hvorugur á að borga, því að hvorugur hefur grætt neitt. En þetta sæist bezt, ef allt færðist að nýju í sama horf um gildi peninganna, því að á þessum tímum eru krónurnar í raun og veru ekki annað en 25 eyringar og ekki einu sinni það.

Slík löggjöf er því hreinasta vitleysa, og allt mat á eignaaukningu og verðhækkun er í flestum tilfellum ekkert annað en ímyndun ein vegna breytingar þeirrar, sem orðið hefur á gildi peninga. Hér er enginn skattstofn, hvorki fyrir eignaaukaskattinn eða verðhækkunarskattinn.

Þegar ég kom hér fyrst á Alþ., var mikið um þessi mál rætt og strandaði alltaf á því, hve erfitt var að gera upp á milli raunverulegs og ímyndaðs gróða. En nú þýðir ekki annað en setja einhverjar nýjar útreikningsaðferðir eða dómstóla til þess að kveða upp úr um, hvað er raunveruleg verðhækkun, því að við þetta þarf að hafa einhverja útreikninga. En hafa verður það í huga, að sama vísitala á ekki við alls staðar.

Þá kem ég að atriði, sem oft er notað til þess að færa rök fyrir slíkum skatti, en það er, að ef hann verður ekki lagður á í svipinn, þá sé hætta á að tækifærin fari fram hjá. Fyrst þegar verðhækkun varð hér vegna núverandi styrjaldarástands, rifjuðust upp fyrir mörgum mönnum árin 1919–1921, og þó sérstaklega árið 1921, þar sem tækifæri var þar látið fara fram hjá til að taka skatt af mönnum, og er þetta vissulega mikil ástæða. En þetta er hins vegar í einasta skiptið, sem slíkt tækifæri hefur verið látið fara fram hjá, því að við höfum ávallt haldið skattalöggjöfinni hér í þeirri háspennu, sem unnt hefur verið. Eignaaukaskatturinn er skattur, sem er þannig varið, að engin ástæða er fyrir okkur að óttast um, að við séum að sleppa einhverju tækifæri, því að mín skoðun er sú, að ríkið fái aldrei neinn stórgróða af þessu. Hina raunverulegu eignaaukningu, sem orðið hefur þrátt fyrir hina gífurlegu skatta, á ekki að snerta, því að af henni mun ekki veita, þegar erfiðari tímar koma, en að minnsta kosti ekki, á meðan ekkert kallar eftir slíkum aðgerðum.

Ef þessi skattur verður samþ., getur hann haft hinar alvarlegustu afleiðingar, því að honum er ekki aðeins stefnt að þeim, sem eignaaukann hafa fengið, heldur einnig að þeim, sem vinna við viðkomandi fyrirtæki. Þessi skattur gerir því ekkert annað en að éta upp fyrirfram þá möguleika, sem eru fyrir atvinnuveitendur til þess að reka fyrirtækin, eftir að þau fara að borga sig illa eða gefa tap. Varasjóði þeirra má því alls ekki skerða, því það verður aðeins til þess að flýta fyrir því, að ríkið þurfi að hlaupa undir bagga, þegar erfiðleikarnir skella á. Ég hef nú vikið að því atriði, sem ég hef ávallt haldið fram, að fé þetta eigi að leggja til hliðar nú og geyma til vondu áranna. En ég hef nú sýnt fram á, að eins og frv. er, er ekki gert ráð fyrir, að fé þetta eigi að leggja til hliðar. Eins og 5. gr. ber með sér, er svo fyrir lagt, að fé því, er aflast samkvæmt þessum lögum, skuli varið þannig, að 1/3 gangi til alþýðutrygginga og byggingar verkamannabústaða, 1/3 til raforkusjóðs, byggingar nýbýla og landnáms í sveitum og 1/3 til framkvæmdasjóðs ríkisins, en í þann sjóð rennur það, sem afgangs er venjulegum ríkistekjum.

En hér er alls ekki verið að tala um að leggja fé þetta til hliðar, sem með þessum skatti mundi fást. Ef sagt væri: Þetta fé skal geyma í þeim eignum, sem menn telja tryggastar, og má ekki snerta það fyrr en eftir stríð og eftir að stórkostlega fer að halla undan fæti fyrir atvinnuvegunum, þá gæti maður sagt, að þetta væri í svipinn einhver viðleitni til að gera þetta. En ég hef bara enga trú á, að Alþ. léti þetta fé í friði. Þegar hækkaður var skatturinn á benzíninu forðum, sem ég var með, þá átti hann að fara til þess að tengja meginhéruð landsins saman með vegalagningum. En hvað skeður? Á næsta ári þurfti að framkvæma einhverja vegalagningu á Ströndum, gera einhvern vegarstubb þar, og hv. þm. S.-M. þurfti að fá einhvern vegarspotta þar eystra. (IngP: Það hefur ekki mikið fé farið til vega í Suður-Múlasýslu). Þennan vegarspotta þurfti að leggja einnig fyrir þetta. fé. Annars átti ég ekki við þennan hv. þm. S.-M., sem hér situr. - Nei, Alþ. getur aldrei stillt sig um að snerta ekki fé, sem svona er lagt til hliðar, eins og hér á að gera eftir frv. Ef fé þetta væri tekið með þessum skatti. og geymt, þá hef ég ekki trú á því, að næstu þing létu það ósnert. Undir eins á næsta þingi yrði farið að grípa til þessa atvinnuleysissjóðs, þegar menn álitu, að með þyrfti. Ég er alveg með Gladstone-reglunni, að það sé bezt að geyma þetta fé hjá þeim, sem hafa það, því að þeir mundu halda miklu fastar utan um það en Alþ. mundi gera og auka við það, ef unnt væri, — alveg eins og við sjáum, að ríkisstj. treystir sér ekki til að miða við 50 þús. kr. Nú er miðað í þess stað við 80 þús. kr., og á næsta ári verður kannske miðað við 100 þús. kr. Og þetta er ágætt í sjálfu sér, þannig að það sýnir, hvað álitið er, að þetta fé ávaxtist hjá einstaklingunum. Það er kosturinn við þennan gallaða eignarrétt, að menn leggja svo mikið á sig til þess að eignast fjármuni, þegar þeir mega það. Og við skulum bara geyma þetta fé hjá einstaklingunum. Það er miklu öruggara heldur en fara að henda því út um hvippinn og hvappinn og eiga svo ekkert eftir, þegar á liggur.

Ég veit ekki, hvort ég skildi hv. flm. rétt, ég skil varla í því, nefnilega að þessi skattur mundi verða til þess, að það næðist inn svo eða svo mikið hjá þeim mönnum, sem hafa getað skotið tekjum sínum undan skatti. En það nærri hlýtur að vera meiningin, því að eins og skattal. hafa verið og ef þau hefðu verið framkvæmd út í yztu æsar, þá er ákaflega erfitt fyrir menn að safna eignum, svo að þetta frv. hlýtur að vera byggt á því, a. m. k. að verulegu leyti, að til eigna þeirra verði náð, sem menn hafi komið undan skatti. En eins og þetta frv. er byggt upp, sýnist mér, að gersamlega sé vonlaust um, að þessu mundi verða hægt að ná. Því að það á að byggja þennan skatt á framtölum manna. Þetta er bara miðað við þá opinberu eignaaukningu, og mér skilst, að skattsvikarar séu friðhelgir eftir þessu frv. Ég get ekki séð, hvaða möguleiki er eftir þessum l., ef frv. yrði samþ., að ganga harðar að mönnum til að telja rétt fram en með núgildandi reglum, sem um það gilda. Þetta mundi heldur verka þvert á móti, eins og hv. þm. Barð. sagði, að ef þeir, sem háar tekjur hafa og nokkrar eignir, hafa reynt að koma einhverju undan þeim venjulega, árlega skatti, hví skyldu þeir þá ekki reyna til þess að koma tekjum eða eignum undan skatti, ef fyrst er tekinn hinn árlegi skattur af þeim, sem kemur fram eftir þeirra eigin uppgjöf á tekjum og eignum, og síðan þessi nýi skattur lagður ofan á? Ef á að herða á þeim mönnum til að draga undan skatti í framtölum, þá er þetta frv., sem hér er á ferð, góð ráðstöfun til þess. Ég get í þessu sambandi aðeins minnzt á verðbréfin. Hv. þm. Seyðf. sýndi fram á, hvaða erfiðleikar eru á því að fá fram verðbréfaeign manna. En ég vil í því sambandi bara segja: Ef maður lítur á allt það, sem gert hefur verið hér í landinu með hjálp verðbréfanna, þá held ég, að menn mundu skoða huga sinn um það, áður en þeir rýrðu þann tekjumöguleika, en það mundi verða gert með því að nafnskrá hvert bréf. Menn eru nú einu sinni engir englar í þessum efnum. Menn kaupa þessi bréf með það fyrir augum, að þau eru ekki nafnskráð og það er viss möguleiki til þess að skjóta þeim undan í framtali. Rannsókn hefur sýnt þetta í sambandi við vaxtaskattinn, og það kom í ljós í framtölum þeirra bréfa, sem eru hjá opinberum sjóðum, að það virtist eins og engin bréf væru úti. Þetta er vitanlega slæmt og bölvað. En hvað vinnum við á þessu? Við getum starfað fyrir þetta fé að stórkostlegum framkvæmdum. Veðdeildin hefur getað í staðinn fyrir að taka lán erlendis safnað fé í lánum hér innan lands með því að bjóða út bréf og það einmitt með þessu móti, að bréfin eru ekki nafnskráð. Ég er ekki viss um, að menn hefðu álitið það borga sig að nafnskrá bréfin, sem hefði orðið til þess, að það hefði tekið fyrir þessa lánsfjáröflunaraðferð.

Ég hef komið að því áður, hverjir hafi borið töpin eftir 1930. Hv. þm. Barð. tók fram, eins og satt er, að mikill taprekstur á stórum fyrirtækjum lendir á öllum, alveg eins og mikil auðlegð kemur líka niður á öllum. Ég vil spyrja: Hverjir hafa haft gagn af dýrtíðinni nú? Ætli stríðsgróðinn fari eingöngu til þeirra manna, sem hafa rekið fyrirtæki? Ætli það hafi ekki ofurlítil pína líka komið fram í kaupgreiðslum, alls konar verðlagsuppbót og náttúrlega aukinni atvinnu? Haldið þið, að hægt væri án þess gróða að borga allar þær áhættupremíur, sem borgaðar hafa verið og hafa kannske stundum verið eins miklar í einni ferð til Englands til eins manns og lág embættislaun allt árið fyrir stríð? Hitt er jafnsatt, eins og hv. þm. Barð. dró fram, að fyrst af öllu yrðu þessi fyrirtæki að láta allt sitt í þetta. Svo kemur fram, þegar þau eru orðin lömuð fjárhagslega, að þau geta ekki veitt atvinnu. Töp skella þá á bönkunum og atvinnuleysi á fólkinu. Stríðsgróðinn hefur dregizt út, sem betur fer, og margir hans notið. En ef fara á að taka svo af eignum manna, eins og hér er stefnt að, og ef það tekst, þá óttast ég það, að þau félög og fyrirtæki, sem tekið hafa stríðsgróða í sinn hlut, geti ekki tekið á móti því tapi, þegar að kreppir aftur. Stríðsgróðinn hefur dreifzt út, ekki bara með sköttum, heldur sennilega í miklu stærra mæli með því, hvað almenningur hefur getað tekið meira út úr þeim atvinnurekstri og fengið meira frá þeim fyrirtækjum, sem hann hefur unnið við, heldur en áður. Stríðsgróðinn hefur verið svo ótrúlega almennur án milligöngu stórfyrirtækja. Öll atvinna, sem af því stafar, að stríðsgróði hefur komið með þessum undarlega hætti til okkar hér á landi, að setulið hefur verið hér, hefur orðið til þess, að stríðsgróðinn hefur farið út til fjölda fólks, sem betur fer. Það er ekki svo, að hér séu örfáir maurapúkar, sem safnað hafi og safni að sér hundruðum þúsunda og milljónum króna, eins og stundum hefur skeð í löndum, t. d. í Þýzkalandi eftir fyrri heimsstyrjöldina, þar sem allir peningar almúgans urðu þá að engu, en örfáir menn græddu svo, að aldrei hafa verið dæmi til annars eins í veraldarsögunni. Slíkur gróði er óvæntur og óforþéntur, og ætti aldrei að eiga sér stað. — En svona hefur það ekki verið hér.

Ég hef þá fært hér fram nokkur rök fyrir því, hvers vegna ég get ekki fylgt þessu frv. og að ég legg til, eins og í nál. er greint, að það verði fellt.